Miðvikudagur 27. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Dagur svarar Sjálfstæðisflokknum: „Já, það er verkefni að glíma við fjármálin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér finnst býsna holur hljómur í gagnrýni Sjáflstæðiflokksins á fjármál borgarinnar. Staða dagsins í fjármálum sveitarfélaga einkennist af áhrifum verðbólgu og vanfjármögnunar ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks. Í þeirri umræðu sem fram fer um hana má þó ekki gleyma því grettistaki sem lyft hefur verið í fjármálum borgarinnar – og margra annarra sveitarfélaga – allt frá hruni.“ Svo hljóðar byrjun Facebook-færslu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra sem hann birti í dag.

Í færslunni svarar Dagur fyrir gagnrýni borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem hafa að undanförnu ekki farið í grafgötur með gagnrýni sína á fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar. Segir borgarstjórinn meðal annars að þó að staðan sé slæm, hafi meirihlutinn áður sýnt fram á að hann ráði við að glíma við slæma stöðu. Með færslunni birtir hann súlurit sem sýnir hreinar skuldir samstæðu borgarinnar sem hlutfall af tekjum. Færsluna má lesa í heild sinni hér að neðan.

„Það er óhætt að fullyrða að aðgerðir á skuldahlið (Orkuveitan), rekstrarhlið og tekjuhlið borgarinnar og fyrirtækja hennar hafi verið eitt meginverkefni mitt og margra annarra stjórnenda borgarinnar undanfarin rúman áratug – og hið sama á sannarlega við um margt sveitarstjórnarfólk um land allt. Og þótt engin ástæða sé til að gera lítið úr viðfangsefnum dagsins í Reykjavík, hjá ríkissjóði eða öðrum sveitarfélögum – þá tala tölurnar sínu máli.

Já, það er verkefni að glíma við fjármálin – en við höfum sýnt það margoft áður að það gerum við með góðum árangri. Í samvinnu við okkar góða starfsfólk og samtali við borgarbúa. Enga fjöður á þó að draga yfir það að sveitarfélögin eiga nú mikið undir því að vera mætt af sanngirni og réttsýni í málaflokki fatlaðs fólks – og að verðbólgunni verði náð niður.

Reykjavikurborg samþykkti í haust aðgerðaráætlun fjármálum til að ná niður covid-hallanum í markvissum skrefum, án þess að ganga of nærri þjónustunni eða draga um of úr fjárfestingunni, þannig að við getum haldið áfram að byggja upp gott borgarsamfélag og unnið að spennandi borgarþróun á traustum grunni. Þannig er skynsamlegt að bregðast við, af ábyrgð, festu en um leið með skýra framtíðarsýn fyrir borgina.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -