Fimmtudagur 6. október, 2022
5.8 C
Reykjavik

Danskt-íslenskt huldufólk selur nuddtæki fyrir augun – Neita að segja hvaðan þau koma

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Íslensk vefverslun neitar því að vara sem hún selur sé sú sama og seld er á vefversluninni Ali Express. Verslunin neitar að gefa upp hver framleiðandi vörunnar er og segir það ekki eðlilegt að neytendur fái slíkar upplýsingar. Framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna segir það undarlega hegðun söluaðila að upplýsa ekki um slíkt, enda eigi verslun að geta verið stolt af uppruna vöru sinnar.

Í sumar var fjallað um sölu sólgleraugna sem virtust keypt á Ali Express en seld hér á landi sem einhvers konar hönnunarvara á uppsprengdu verði. Mikill fjöldi vefverslana hefur skotið upp kollinum undanfarin misseri með ótal vörur sem ef til vill má finna talsvert ódýrari á erlendum netverslunum. Verslunum ber lagalega ekki að upplýsa um uppruna vörunnar, en með aukinni neytendavitund er krafa þess efnis orðin háværari.

 

Augnnuddtæki dansk/íslensks fyrirtækis

Mannlíf fékk ábendingar um vefverslunina Saga Eyetech, sem selur augnnuddtæki á 18.900 krónur. Tækið er sagt geta létt á höfuðverk og mígreni, bætt svefngæði, dregið úr streitu og kvíða, dregið úr hvarmabólgu, minnkað bólgu í augum, haft góð áhrif á ADHD, dregið úr augnpokum, og þurrum og þreyttum augum.


„Nuddtækið er hannað til að halda augunum heilbrigðum og létta á augnvandamálum, þar á meðal mígreni, kinn- og ennisholubólgu, þrýsting, augnþreytu, þrota, augnpokum og fleiru. Þetta er hin fullkomna lausn fyrir alla sem vilja auka lífsgæði með heilbrigðum augum, góðum svefni og minni höfuðverk,“ segir í lýsingu á tækinu á síðu verslunarinnar.

Um fyrirtækið segir:
„Saga Eyetech er danskt/íslenskt fyrirtæki stofnað árið 2022. Við erum ástríðufullir frumkvöðlar, með bakgrunn í heilbrigðisfræðum, sem sjúkraþjálfari og BSc í íþróttafræði. Okkur hefur lengi dreymt um að hjálpa fólki sem þjáist af verkjum í daglegu lífi.“

- Auglýsing -

Þess ber að geta að á síðunni má finna 20 umsagnir sem allar hljóða upp á fimm stjörnur.

 

Sláandi líkt vöru Ali Express

Einstaklingur sem ræddi við blaðamann Mannlífs sagðist hafa orðið tortryggin þegar hún sá vöruna auglýsta á Instagram með 10 prósenta afsláttarkóða nýverið.

- Auglýsing -

„Eftir að hafa skoðað heimasíðu fyrirtækisins ákvað ég að kíkja á Ali Express því ég er ógeðslega gagnrýnin á allt svona og mér fannst „um okkur“ textinn voða loðinn, ég var engu nær um hvaðan varan sjálf kom.“

Textinn lætur hinn almenna neytanda sem les þennan texta ógagnrýnum augum halda að hann sé að kaupa dansk/íslenska vöru þegar hún kemur beint frá dropshipping fyrirtæki í kína. Það er eitt að droppshippa, það er annað að blekkja neytandann vísvitandi,“ segir einstaklingurinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, í samtali við Mannlíf.

Mannlíf fjallaði nýverið um hugtakið „dropshipping“ hér.

Vörur sem koma upp við leit á Ali Express eru óneitanlega líkar þeirri sem Saga Eyetech selur. Enginn sjáanlegur munur er á augnnuddtækjunum sjálfum af myndunum að dæma, en einnig virðist um sömu umbúðir að ræða – fyrir utan það að merki Saga Eyetech hefur verið bætt við á þeirra umbúðir.

Á Ali Express kostar slíkt augnnuddtæki einungis tæpar 3.000 krónur. Verðmunurinn er því um 16.000 krónur, að undanskildum sendingarkostnaði.

Augnnuddtæki Saga Eyetech.
Augnnuddtæki Saga Eyetech.
Augnnuddtæki frá Ali Express.
Augnnuddtæki frá Ali Express.

„Skrítin spurning hjá þér“

Blaðamaður Mannlífs hafði samband við Saga Eyetech vegna málsins. Þegar söluaðilinn var spurður um uppruna vörunnar og framleiðanda hennar var lítið um svör. „Við pöntum þessa vöru frá framleiðanda“ og svo „Við pöntum frá viðurkenndum aðila,“ þegar spurningin var ítrekuð.

Aðspurður sagðist söluaðilinn ekki stunda svokallað „dropshipping“, en það er þegar verslun gerir samning við framleiðanda þess efnis að vörur sendist beint frá framleiðanda til viðskiptavina söluaðilans, án milligöngu. Söluaðilinn merkir sér vöruna, smíðar nýtt kynnisefni fyrir sína verslun og verðleggur vöruna síðan eftir eigin höfði. Þegar neytandi pantar síðan vöruna er hann í raun og veru að eiga  viðskipti við vöruhús úti í heimi, til að mynda Ali Express, en vefverslunin sem um ræðir fær verðmismuninn.

„Við pöntum frá viðurkenndum aðila“

Sá sem svaraði fyrir hönd Saga Eyetech sagðist panta vöruna beint frá framleiðanda til Íslands. „Við erum með lager á Íslandi og sendum með Dropp á Íslandi.“ Viðkomandi reyndi því næst að ljúka samtalinu.

Blaðamaður spurði þá út í líkindi milli vöru þeirra og vöru á Ali Express. Eftir að hafa sent versluninni hlekk á vöruna á Ali Express var svarið á þá leið að ekki væri um sömu vöru að ræða.

Augnnuddtæki frá Ali Express.

„Þetta er ekki tækið okkar, þótt það líkist því. Þú getur til dæmis séð það á stærð batterísins.“

Blaðamaður spurði þá hvort tækin væru að öðru leyti sambærileg, og hvernig tækið sem Saga Eyetech selur væri samsett. Þá væri ef til vill hægt að bera tækin betur saman. Verslunin tók ekki vel í þær spurningar.

„Við fórum í mikla rannsóknarvinnu þegar við vorum að velja tæki og tækið okkar kom langbest út. Þessi tæki eru ekki sambærileg en ef fólk vill kaupa þetta tæki, þá er öllum frjálst að gera það.

Skrítin spurning hjá þér, prófaðu að spyrja hvernig iphone-inn er samsettur niðri í Elko, held þú fáir ekki svar við því.“

Þegar blaðamaður sagði það verða að teljast eðlilegt að neytendur geti fengið að vita hvaðan vörur sem íslenskar verslanir selji þeim komi, var svarið einfalt:

„Nei, það er ekki eðlilegt.“

Tæki og umbúðir frá Ali Express.
Tæki og umbúðir frá Saga Eyetech. Eini sjáanlegi munurinn er að merki „saga“ er neðst á umbúðunum, sem og á augnnuddtækinu.

Miðað við fögur fyrirheit um ávinning tækisins, auk þeirrar staðreyndar að um raftæki sem fer ofan á augu er að ræða, verður að teljast enn brýnna að neytendur geti rakið uppruna tækisins og frætt sig sjálfir um framleiðanda þess og metið hvort þeir kjósi að treysta honum eða ekki. Fæstum er sama um það hvers konar tæki fara nálægt viðkvæmum svæðum eins og augum.

 

„Ætti ekki að vera neitt leyndarmál“

Mannlíf ræddi við Brynhildi Pétursdóttur, framkvæmdastjóra Neytendasamtakanna, vegna málsins. Þótt verslunum beri ekki lagaleg skylda til þess að upprunamerkja vörur má segja að það stingi bæði í stúf við aukna neytendavitund og svo samvisku og stolt fyrirtækja að neita að upplýsa um framleiðanda vara sinna.

„Það er mjög óeðlilegt að seljandi vilji ekki upplýsa um uppruna vörunnar; til dæmis nafnið á framleiðandanum. Seljandi ætti bara að vera stoltur af þeim vörum sem hann er að selja og það ætti ekki að vera neitt leyndarmál.“

„Mjög óeðlilegt að seljandi vilji ekki upplýsa um uppruna vörunnar“

Hún undirstrikar mikilvægi þess að neytendur séu vel á verði, í þeim frumskógi vefverslana og framboðs sem nú er til staðar.

„Það er gott að neytendur séu á varðbergi, séu gagnrýnir og spyrji spurninga. Sér í lagi ef það er verið að kaupa einhverjar vörur sem eru ekki sokkapar. Þetta er eitthvað sem er á mörkunum að vera lækningatæki. Þá verða neytendur að vera vissir um að þeir séu ekki að kaupa köttinn í sekknum.“

 

Segja vöruna vottaða sem lækningatæki

Þeir ávinningar sem sagðir eru geta fengist við notkun augnnuddtækis Saga Eyetech gera það að verkum að hugsanlega sé um svokallað lækningatæki að ræða, en um slík tæki gilda evrópskir staðlar. Uppfylli tækið skilyrði lækningatækja skal það bera svokallaða CE merkingu. Samkvæmt upplýsingum á síðu Saga Eyetech ber augnnuddtækið CE vottun. Lyfjastofnun hefur eftirlit með slíku hér á landi og því getur aðeins Lyfjastofnun sannreynt þá fullyrðingu verslunarinnar.

Í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn blaðamanns kemur fram að samkvæmt lögum um lækningatæki séu slík tæki skilgreind á eftirfarandi hátt:

„Hvert það verkfæri, búnaður, áhald, hugbúnaður, ígræði, prófefni, efniviður eða annar hlutur sem framleiðandi ætlar til notkunar fyrir fólk, eitt og sér eða í samsetningu með öðru, í a.m.k. einum af eftirfarandi, tilteknum læknisfræðilegum tilgangi:

  1. að greina, hindra, vakta, spá fyrir um, meta horfur, meðhöndla eða lina sjúkdóma,
  2. að greina, vakta, meðhöndla, lina eða bæta meiðsli eða fötlun,
  3. að rannsaka, koma í stað eða breyta líffæri eða lífeðlislegri eða meinafræðilegri starfsemi eða ástandi,
  4. að veita upplýsingar með rannsókn í glasi á sýnishornum sem fengin eru úr mannslíkamanum, þ.m.t. úr líffæra-, blóð- og vefjagjöfum, og sem ekki gegnir ætluðu meginhlutverki sínu með aðferðum er varða lyfjafræði, ónæmisfræði eða efnaskipti, í eða á mannslíkamanum, en styðja má verkun þess með slíkum aðferðum.“

Í sömu lögum segir um auglýsingar lækningatækja að auglýsing skuli „ávallt sett fram með hlutlægum hætti og veita fullnægjandi upplýsingar um lækningatækið, eiginleika þess og notkun. Upplýsa skal notanda eða sjúkling um hugsanlega áhættu sem tengist notkun tækisins í samræmi við ætlaðan tilgang þess.“

Í svari Lyfjastofnunar segir jafnframt:

„Almennt um lækningatæki: Innan Evrópu er mikill fjöldi lækningatækja á markaði og er markaðurinn frjáls (þ.e. ekki þarf sérstakt leyfi til að markaðsetja lækningatæki innan Evrópu). Engu að síður þarf vara sem skilgreind sem lækningatæki að vera CE merkt, og vottuð ef um ákveðna áhættuflokkanir tækja er að ræða.

Þá þarf að liggja fyrir samræmisyfirlýsing frá framleiðanda til staðfestu CE merkingar. Á þeirri yfirlýsingu þarf tilkynntur aðili (e. Notified Body) að vera tilgreindur, ef um ákveðna áhættuflokka er að ræða. Þau dæmi eru til að upp hafa komið tilvik þar sem söluaðilar lækningatækja hafa haldið fram röngum staðhæfingum og markaðsett tækin með óábyrgum hætti. Það er þá í höndum eftirlitsstofnana í hverju landi (í tilviki Íslands er það Lyfjastofnun) að rannsaka og grípa inn í, sé þess þörf.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -