Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Dimmur dagur í íslenskri íþróttasögu: „Þurftum að fara út að borða með danska liðinu um kvöldið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

23. ágúst árið 1967 var dimmur dagur í íslenskri íþróttasögu. Raunar svo dimmur, að ólíklegt er að hann muni nokkurn tíma gleymast.

Þetta var dagurinn þegar danska karlalandsliðið í knattspyrnu hreinlega át það íslenska með kjafti og klóm – með fjórtán mörkum gegn tveimur.

Leikurinn fór fram á Idrætsparken í Kaupmannahöfn, en umfjöllun Morgunblaðsins daginn eftir leikinn hófst á orðunum:

„Íslenzka landsliðið var leikið sundur og saman af hrattleikandi dönsku landsliði, sem gersigraði með fjórtán mörkum gegn tveim.“

 

Fyrsta mark á fjórðu mínútu og ekki aftur snúið

Leikurinn var Dönum í vil strax í upphafi. Mótherjar okkar og frændur skoruðu sitt fyrsta mark á fjórðu mínútu leiksins, en það var John Steen Olsen sem kom þeim yfir.

Það liðu einungis þrjár mínútur þar til Finn Laudrup jók muninn í 2-0. Næstu mörk komu á 13., 15., 28. og 40. mínútu. Íslenska liðið var markalaust allan fyrri hálfleikinn og staðan í hálfleik því 6-0.

- Auglýsing -

Það var hinsvegar í seinni hálfleik að Helgi Númason minnkaði muninn í 6-1 með fyrsta marki Íslands á 51. mínútu. Það liðu þó einungis nokkrar mínútur þar til Ulrik Le Fevre skoraði sjöunda mark Danmerkur og á 60. mínútu kom svo áttunda markið, Íslendingum til mikillar skelfingar.

Mörkin héldu áfram að hrúgast inn hjá Dönum, en eftir níunda markið á 61. mínútu tóku Íslendingar miðju og sáu þá loks örlítið til sólar.

Það var Hermann Gunnarsson, fótbolta- og sjónvarpsmaðurinn ástsæli, sem keyrði fram völlinn og kom boltanum fimlega í mark Dana. Þarna var staðan því orðin 9-2, á 62. mínútu leiksins.

- Auglýsing -

Íslenska liðið sá ekki fleiri sólargeisla þennan leikinn. Enn áttu eftir að bætast við fimm mörk frá Dönum, en þau röðuðust inn þar til Finn Laudrup fullkomnaði niðurlægingu Íslendinga með fjórtánda markinu á 85. mínútu.

Þetta er stærsta tap í sögu íslenska karlalandsliðsins í fótbolta hingað til. Áfallið var algjört.

Björgvin Schram, þáverandi formaður KSÍ, var ómyrkur í máli í viðtali við Vísi daginn eftir leikinn:

„Ég er næstum orðlaus. Leikur þessi lagðist mjög illa í mig þegar í byrjun og ég bjóst við að Danir myndu sigra með 4-5 marka mun. En að þeir skoruðu 14 mörk tekur út yfir allan þjófabálk. Lið sem hefur fengið á sig sex mörk í fyrri hálfleik hefur ekki leyfi til að fá á sig átta í þeim síðari.“ Björgvin sagði einnig að úrslitin væru mesta hneyksli íslenskrar íþróttasögu.

Raunar er það svo að þessi martraðakenndi leikur er oft rifjaður upp þegar Íslendingar og Danir mætast á fótboltavellinum.

 

„Við leikmennirnir vorum virkilega sigurvissir“

Hermann Gunnarsson heitinn, eða Hemmi Gunn eins og hann var yfirleitt kallaður, var einn fremsti knattspyrnumaður Íslands um árabil, áður en hann lagði skóna á hilluna og sneri sér að vinnu í fjölmiðlum. Það kemur því kannski ekki á óvart að það hafi verið Hemmi heitinn sem skoraði annað þessara tveggja íslensku marka í leiknum gegn Dönum árið 1967.

Í viðtali við Fréttablaðið árið 2006 sagði Hemmi að liðið hefði getað sloppið betur ef það hefði ákveðið að hanga í vörn. Það hafi hinsvegar einfaldlega ekki verið hugsunarháttur íslenska liðsins á þessum tíma.

Hemmi var einungis tvítugur þegar leikurinn fór fram og ein skærasta stjarna liðsins. Liðinu hafði raunar gengið nokkuð vel í leikjunum á undan viðureigninni við Dani. Það hafði naumlega tapað fyrir Svíum á Norðurlandamóti U-23 landsliða og verið nálægt því að komast á Ólympíuleikana í Mexíkó.

Hemmi sagði í viðtalinu við Fréttablaðið að stemningin hefði verið góð og að þarna hafi svo sannarlega átt að taka Danina í nefið.

„Við leikmennirnir vorum virkilega sigurvissir og eftir á að hyggja voru það okkar stærstu mistök,“ sagði Hemmi hlæjandi í viðtalinu, eins og honum einum var lagið.

„Þetta var náttúrulega einstakt lið sem Danir voru með á þessum tíma, skipað eintómum snillingum þar sem fremstur fór í flokki Finn Laudrup,“ sagði Hemmi, en það var einmitt Finn Laudrup sem skoraði þrennu í leiknum og síðasta markið áður en leikurinn var flautaður af. Auk þess lagði Daninn knái upp fleiri mörk.

 

Ógæfan dundi yfir þegar Elmar rotaðist

Hemmi sagði frá því í viðtalinu hvernig óheppni íslenska liðsins hafi strax skollið á, bókstaflega, í klefanum fyrir leik. Bakvörðurinn Jóhannes Atlason var þar að leika sér með bolta, sem venjulega væri ekki í frásögur færandi. Nema að í þessu tilfelli féll Jóhannes við og skall beint á höfuð Elmars Geirssonar, sem átti að vera í byrjunarliðinu. Það fór ekki betur en svo að Elmar steinrotaðist og gat ekki spilað leikinn.

„Þetta gaf tóninn að því sem koma skyldi,“ sagði Hemmi. „Þeir rúlluðu yfir okkur frá fyrstu mínútu og við áttum við algjört ofurefli að etja.“

Hemmi sagði þó að markið langþráða sem hann skoraði í kjölfar níunda marks danska liðsins hafi verið eitt besta markið á hans ferli, þrumuskot langt utan af velli sem hafnaði í horni danska marksins.

„Við fögnuðum eins og við hefðum verið að tryggja okkur heimsmeistaratitilinn. Ég man að Eyleifur Hafsteinsson fyrirliði kom hlaupandi til mín og lét þau fleygu orð falla: „Strákar, nú tökum við á því. Þeir eru gjörsamlega búnir á því,“ sagði Hemmi þegar hann rifjaði upp þessa mikilvægu stund í leiknum.

Eins og frægt er orðið voru Danirnir hinsvegar langt frá því að vera búnir á því og áttu eftir að halda áfram að raða inn mörkum.

 

Þurftu að fara út að borða með danska liðinu

„Við vorum náttúrulega algjörlega miður okkar eftir leikinn og ekki bætti úr skák að við þurftum að fara út að borða með danska liðinu um kvöldið. Stemningin þar var sérstök, svo ekki sé meira sagt,“ sagði Hemmi í samtalinu við Fréttablaðið.

Hemmi horfði samt jákvæðum augum til þessa sögulega dags í íslenskri fótboltasögu. Hann sagðist aldrei hefðu viljað sleppa því að taka þátt í leiknum.

„Þetta var mjög skemmtileg reynsla sem skilur eftir sig margar minningar og mér þykir mjög gaman að hafa tekið þátt í þessu. Svo er ég náttúrulega mjög stoltur af því að hafa skorað helming marka íslenska liðsins,“ sagði Hemmi heitinn, jákvæður og léttur í bragði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -