Miðvikudagur 6. desember, 2023
0.1 C
Reykjavik

Doktor Henry: „Hefði ekki verið betra að ráðherra hefði strax vikið til hliðar?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Henry Alexander Henrysson, doktor í heimspeki, telur að fjármálaráðherra landsins og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, skilji ekki hugtakið „pólitísk ábyrgð“. Raunar heldur heimspekingurinn því fram að hið sama sé að segja um ráðherrana Katrínu Jakobsdóttur og Lilju Alfreðsdóttur.

Henry hefur fylgst vel með viðbrögðum ráðherra ríkisstjórnarinnar við skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Í svörum þeirra, og þá sér í lagi Bjarna fjármálaráðherra sem ber ábyrgð á viðkomandi málaflokki, megi sjá að þau skilji ekki hvað pólitísk ábyrgð sé.

„Grunnskiptingin í hugtakinu er á milli þess að stundum berum við ábyrgð á einhverju að því leyti að okkur er falið verkefni. Þá berum við ábyrgð á því að úr því sé unnið. En þetta er kannski ekki að bera ábyrgð eða axla ábyrgð í þeim skilningi sem fólk hefur verið að tala um. Það er tengdara síðari merkingunni þar sem maður þarf að vera ábyrgur fyrir því sem gert hefur verið. Fatan stoppar hjá manni, svo maður grípi til orðalags sem er þekkt úr ensku,“ segir doktorinn í heimspeki í samtali við Vísi.

Henry telur að þessi ólíka merking flækist fyrir fólki og þá sér í lagi íslenskum stjórnmálamönnum. „Til dæmis var vitnað í tvo ráðherra ríkistjórnarinnar í vikunni varðandi slíka ábyrgð og getur maður ekki annað en vonað að rangt hafi verið eftir þeim haft. Viðbrögð þeirra voru óskiljanleg,“ segir Henry, og á þar við svör Katrínar og Lilju:

„Þar segja þær eitthvað á þá leið að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi þegar axlað ábyrgð með því að hafa kallað eftir skýrslu ríkisendurskoðanda?! Pólitísk ábyrgð felst í eðli þess hlutverks sem maður tekur sér fyrir hendur sem kjörinn fulltrúi. Ráðherra sem hluti framkvæmdavalds ber aukna ábyrgð umfram aðra því segja má að sá hluti framkvæmdavaldsins sem starfar undir viðkomandi starfi á ábyrgð hans eða hennar. Fatan stoppar þar, eins og ég nefndi áður.“

Að mati Henrys felst pólitísk ábyrgð að „maður geti svarað fyrir – fært rök fyrir – þeim ákvörðunum sem maður ber ábyrgð á. Hér skipta „armlengdarsjónarmið“ engu því að ábyrgðinni er ekki útvistað. Ekki þá nema sannað sé að reynt hafi verið skipulega að blekkja viðkomandi ráðherra. Ef maður getur ekki svarað fyrir öðruvísi en að draga fram atriði sem eru ekki viðeigandi, til dæmis þegar þau snerta annars konar ábyrgð eða maður virðist ekki skilja eðli hlutverks síns, þá er maður ekki að bera/axla pólitíska ábyrgð.“

- Auglýsing -

Og Henry vill að því fylgi einfaldlega aðgerðir þegar íslenskt stjórnmálafólk taki ábyrgð á gjörðum sínum.

„Það er einfaldlega þannig – og sem hefur oft gerst á undanförnum árum – að ef svörin eru ekki til staðar, þá er ekkert annað að gera en að segja sig frá hlutverkinu. Það gerist vissulega ekki reglulega á Íslandi. Hversu oft höfum við séð ráðherra hangi í hlutverki sínu, rúna tiltrú og trúverðugleika, fram að kosningum og svo leitað á önnur mið eftir kosningar?Hefði ekki verið betra í ljósi almannahagsmuna að viðkomandi ráðherrar hefðu strax vikið til hliðar í stað þess að láta málaflokk sinn drabbast niður út kjörtímabilið þar sem veik staða þeirra gerir það að verkum að ekki er hægt að koma mikilvægum málum í gegn?,“ spyr Henry.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -