Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Draugagangur á Hvanneyri: „Vildi meina að einhverjir fleiri hefðu flutt hingað inn með okkur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nemendur og kennarar við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri hafa af og til orðið varir við undarlega atburði á svæðinu síðustu ár, eða eftir að flutt var inn í ný húsakynni á svæðinu árin 2003 og 2004. Truflun var þónokkur fljótlega eftir að húsin voru tekin í notkun og að endingu var talið að eitthvað hlyti að vera að rafmagninu þar. Aðili var fenginn á svæðið til þess að mæla rafsegulsvið en ekkert reyndist ama að rafmagninu né öðru tæknilegu.

„Draugagangur hefur ítrekað raskað næturró íbúa á nýjum nemendagörðum á Hvanneyri samkvæmt heimildum Skessuhorns. Reimleikanna hefur orðið vart í tveimur nýjustu húsum nemendagarðanna, Skólaflöt 4 og 8 en annað húsið var tekið í notkun í janúar á síðasta ári en hitt um síðustu áramót.“

Svo segir í frétt Skessuhornsins frá apríl 2004. Í fréttinni segir ennfremur að íbúar hafi orðið fyrir ónæði allt frá því að fyrst var flutt inn í húsin. Á þessum tíma hafði ónæðið þó ágerst töluvert.

 

Rafmagnið talið sökudólgurinn

Fyrst var talið að eitthvað hlyti að ama að rafmagninu í húsunum. Það var vegna þess að eitt af því sem ábúendur höfðu tekið eftir var að ljósaperur entust afar illa í þeim. Björg Harðardóttir, sem átti sæti í stjórn nemendagarða Landsbúnaðarháskólans, sagði að í ljósi þess hefðu getgátur um rafmagnið verið nærtækasta skýringin.

„Við leituðum til áhugamanns um rannsóknir á rafsegulsviði sem býr hér í nágrenninu og hann kom og mældi þetta fyrir okkur. Það kom hins vegar í ljós að húsið virtist vera í fullkomnu lagi en hins vegar vildi hann meina að einhverjir fleiri hefðu flutt hingað inn með okkur,“ sagði Björk í samtali við Skessuhorn vegna málsins á sínum tíma.

- Auglýsing -

Því var haldið fram að við nánari eftirgrennslan hefði það komið í ljós að tuttugu ósýnilegir íbúar, eða draugar, hefðu tekið sér bólfestu í nemendagörðunum.

Allt getur orðið draugalegt ef viljinn er fyrir hendi.
Mynd: Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri.

 

Getgátur um fylgjur

Það sem vakti þó sérstaka athygli í þessu máli var að húsin sem hinna ósýnilegu gesta varð vart í voru ný. Yfirleitt er draugagangur talinn tengjast gömlum húsum, sem hafi sögu um fyrri íbúa eða þess háttar.

- Auglýsing -

Í samtali við Skessuhorn sagði Björk kenningar uppi um að truflunin tengdist í raun ekki húsunum sjálfum, heldur væri þarna um að ræða fylgjur sem tengdust fólkinu sem hafðist þar við.

„Við vonum samt að þetta fari að róast svo fólk fái almennt svefnfrið. Ég þarf að vísu ekki að kvarta því ég hef fengið að vera í friði sjálf, en markmiðið er að hér geti öllum liðið vel, bæði þessa heims og annars. Við erum að vinna í þessu máli og það verður væntanlega kannað til þrautar hvort sá grunur reynist réttur að hér sé eitthvað á sveimi úr öðrum heimi,“ sagði Björk.

Hún tók það fram að það væri vissulega góður andi, eða öllu heldur andar, í húsunum. Þó virtust einnig hafa sótt þangað aðrir ívið órólegri aðilar sem væru á sveimi. Því væri haldið fram vegna þess að margir íbúanna í húsunum hefðu sofið illa, meðal annars vegna umgangs sem ekki reyndist unnt að finna eðlilegar skýringar á.

 

Skóla-Jóna

Blaðamaður Mannlífs fór á stúfana í dag og spurði Elsu Rut Jóhönnudóttur, konu sem stundaði nám við skólann á síðustu árum, hvort hún kannaðist við draugagang eða annað dularfullt á svæðinu. Hún segist sjálf hafa orðið vör við einhvers konar nærveru.

„Það sem ég man eftir í fljótu bragði er Skóla-Jóna, sem býr uppi á þriðju hæðinni held ég, í gamla skólanum. Hún gerir einhvern óskunda af sér þar. Ég man ekki af hverju hún varð eftir þarna í skólanum en hún er allavega búin að hrella nemendur þarna í áratugi,“ segir hún.

Elsa heldur áfram: „Ég hef verið ein þarna úti í gamla skóla og það er ekkert gaman. Ég var meira að segja búin að steingleyma Skóla-Jónu þangað til ég fór að kvarta yfir því við félaga minn að það væri svo óþægilegt að vera ein þarna. Þá sagði hann: Þú ert aldrei ein í gamla skóla. Skóla-Jóna er alltaf með þér. Já, alveg rétt. Takk fyrir það.“

 

Heimildir: Skessuhorn

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -