Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Drífa gerir upp andlát Halla á Tenerife: „Einn dagur í einu og bara vona það besta“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Drífa Björk Linnet hefur fundið sig knúna til að segja frá því hvernig andlát eiginmanns hennar, Haraldar Loga Hrafnkelssonar, bar að en hann lést í eldsvoða á Tenerife fyrr á árinu.

Drífa útskýrir í löngu máli á Instagram-reikningi sínum, hvernig andlátið bar að og af hverju það hefur gengið svona hægt að fá almennileg svör frá yfirvöldum á eyjunni. Segir Drífa að fólk hafi síðan slysið varð, búið til allskonar ósmekklegar útgáfur af málinu og það sé sérlega leiðinlegt í ljósi þess að börn séu á heimilinu sem mega ekki við því að heyra upplognar sögur af látnum pabba þeirra. Því hafi hún ákveðið að segja frá því hvað gerðist. Drífa gaf Mannlífi góðfúslegt leyfi til að fjalla um málið.

6. febrúar 2022

„Fréttirnar eru einfaldlega þær að það eru engar endanlegar fréttir enn sem komið er en það sem hefur gerst sl. 6 mánuði er í grófum þetta,“ skrifar Drífa og lýsir svo þessum afdrífaríka degi á Tenerife, þann 6. febrúar 2022.

„Við fjölskyldan vöknum á sunnudagsmorgun við að það er komin upp eldur í húsinu okkar á Tenerife. Eftir að Sara Jasmín elsta dóttir mín vaknar og hleypur í panikki út og nánast inní eldinn – kallar hún á mig að það sé kviknað í. Ég hringi í geðshræringu á 112 og lögregla og slökkvilið mæta, koma okkur út og fara að ráða niðurlögum eldsins. Þegar það er búið, koma þeir til mín og segjast hafa fundið manninn minn í einni af tveimur bifreiðum í bílskúrnum og hafi hann strax verið úrskurðaður látinn. Ég fer strax uppá lögreglustöð þar sem skýrsla er tekin af okkur öllum og fer svo að reyna að finna hótelherbergi fyrir okkur, enda var bæði húsið óíbúðarhæft og báðir bílarnir ónýtir. Á meðan ég er að reyna að finna hótel, vissu börnin ekkert og spurðu í sífellu hvort ég ætlaði ekki að hringja í pabba þeirra og segja honum að það hafi kviknað í. Eftir að ég er búin að innrita mig á hótelið segi ég börnunum fréttirnar um að pabbi þeirra sé dáinn.“

Við tók bið eftir að skýrsla lögreglu um bráðabirgða niðurstöðu í málinu yrði lesin af dómara og þá annaðhvort samþykkt eða ekki en þá þyrfti að rannsaka eitthvað betur. „Skýrslan beið í einhverjar vikur/mánuði á borði dómara þangað til að hún var lesin enda fer málið bara í röðina eins og önnur mál.“

- Auglýsing -

Næstu þrjá mánuði dvaldi fjölskyldan á hótelinu en Drífa, ásamt móður hennar, lágu á spænskum yfirvöldum um það hvað hefði gerst og hvenær hún gæti fengið manninn sinn aftur og veitt honum jarðaför. „Að þessum 3 mánuðum loknum var ég komin með nokkurnvegin mynd á hvað hefði gerst þessa nótt en þó ekki komin með fullnægjandi svör hvort ég mætti taka hann með mér og því gat ég ekki gert börnunum það lengur að búa við þessar aðstæður og ákveð að bóka okkur til Íslands.“

Á Íslandi hélt Drífa svo áfram að reyna að knýja fram svör frá yfirvöldum á Spáni. „Dómstóll götunnar passaði að vera alltaf á vaktinni til að gera harmleikinn okkar enn sorglegri á meðan ég reyndi að gera allt sem ég gæti í að kalla fram bros eins oft og ég gæti á lítil hjörtu sem enn voru í sjokki.“

Hvorki saknæmt né sjálfsvíg

- Auglýsing -

Drífa segir svo frá því sem vitað er um andlátið.

„Fyrst var skoðað hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað eða hvort um sjálfsvíg hafi verið að ræða. Það var staðfest eftir 2 vikur frá slysinu að hvorugt þetta átti sér stað. Enda allt morandi í myndavélum og auðvelt að sjá hvað gekk á. Það var enginn annar en Halli á staðnum og ekkert sem hann gerði sem benti til þess heldur að þetta hafi verið hans eigin vilji. Svo nú er verið að rannsaka upptök eldsins. Hvaðan kom eldurinn ef Halli kveikti ekki í sjálfur, né einhver annar? Getur það verið vindill eða ofhitnaði bíllinn? Þeir eru einfaldlega ekki búnir enn að átta sig á því og því er málið enn til rannsóknar. Búið er að rannsaka lifrina í honum til að athuga hvort honum hafi verið byrlað í drykk á einhverjum stað því þá hefði verið hægt að draga viðkomandi til saka og hægt væri að kenna viðkomandi um að Halli hafi ekki vaknað við eldinn. En það fannst ekkert í lifrinni… annað en dass af rauðvíni hjá okkar manni enda vorum við í afmæli hjá góðum vini okkar um kvöldið og ekkert óeðlilegt við það. Öryggismyndavélar voru skoðaðar bæði sem eru allstaðar á húsinu okkar og í götunni okkar og þar sést mjög greinilega að Halli kom einn heim seint um nóttina, lyklalaus og vildi sennilega ekki vekja okkur og hann sest inn í bíl, ræsir vélina, kemur sér fyrir í sætinu og leggur sig. 20 mínútum síðar fer hann að húsinu til að athuga hvort einhver sé vaknaður en allir eru sofandi svo hann sest aftur inn í bílinn og sofnar. Tæplega 2 klukkustundum seinna byrjar reykur að koma frá bílnum, svo eldur og síðan sprenging og þá vöknum við öll og martröðin hefst sem við erum enn í.“

Púslar fjölskyldunni saman

Segist Drífa vera búin að draga sex lögfræðistofur í málið, bæði á Spáni og á Íslandi en einnig hefur hún verið í sambandi við ræðismenn úti sem og dómsmálaráðuneytið. Þá hefur yfirmaður rannsóknarinnar reynst henni mjög vel. Segir hún alla vera að gera sitt besta og séu með alla anga úti í tilraun til að flýta fyrir málinu. „Svörin eru bara „þetta tekur tíma“ ég hef ekki geta sætt mig við það en núna er svo komið að ég verð geðheilsu minnar og barnanna vegna að sætta mig við það svar og bíða bara. Ég nota tímann á meðan ég bíð í að púsla okkur saman og byggja okkar litlu fjölskylduna upp og vonast ég að með þessum pósti geti ég takmarkað spurningarflóðið úr öllum áttum og fengið andrými til að tala um eitthvað annað í smá stund þangað til fleiri fréttir koma.“

Þá segist Drífa hafa krafist þess nú að fá jarðneskar leifar eiginmannsins til Íslands svo hægt verði að halda jarðaför en í tvo mánuði hefur hún heyrt að hún ætti að geta fengið hann fljótlega en svo hefur ekkert orðið úr því ennþá. „Ég er núna í Madríd og fer til Tenerife í næstu viku. Kannski fæ ég að taka hann með mér heim. Vonandi. Einn dagur í einu og bara vona það besta er eina sem hægt er að vinna með í stöðunni.“

Halli vildi ekkert drama, bara hlátur og gott rauðvín

Að sögn Drífu er búið að staðfesta að minningarathöfn og jarðaför verði haldin á Íslandi 23. ágúst næstkomandi en það er afmælisdagur Halla. „Hann var mjög spenntur fyrir þessum degi og hlakkaði mikið til að halda uppá fimmtugsafmælið sitt. Ég bið ykkur af öllu hjarta að koma og vera með mér þennan dag svo við getum öll kvatt þennan eðalmann sem við elskuðum öll svo heitt.“ Bætti hún því við að Halli hafi oft rætt við hana um það hvernig jarðaför hans ætti að vera, ef hann myndi deyja á undan henni. „Ekkert drama, bara hlátur, mikið af músík og gott rauðvín til að skála fyrir lífinu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -