Mánudagur 11. desember, 2023
0.8 C
Reykjavik

Eftirminnileg ummæli sem féllu á árinu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Landinn lá ekki á skoðunum sínum á árinu sem er að líða, ekki frekar en fyrri ár. Mannlíf tók saman nokkur vægast sagt áhugaverð ummæli sem féllu á árinu sem er að líða.

 

„Ég er ekki handtaska mannsins míns, sem má grípa í þegar hann hleypur út um dyrnar og stilla á upp hljóðlega við hlið hans við opinbera viðburði.“
-Eliza Reid, forsetafrú Íslands, um hlutverk sitt sem forsetafrú Íslands í grein í The New York Times í vikunni. Eliza er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum og meistarapróf í sagnfræði. Hún hefur meðal annars starfað við ritstjórn og blaðamennsku, hefur unnið mikið í þágu rithöfunda og er verndari ýmissa samtaka á Íslandi svo fátt eitt sé nefnt.

„Þetta mútuhneyksli Samherja í Afríku, sem hefur þegar kostað tvo ráðherra starfið, ætti að vekja yfirvöld á Íslandi af værum blundi. Nú er komið nóg.“
– Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.

„Þessi karlaklúbbur íslensks viðskiptalífs og stjórnmála mun aldrei deyja og mun aldrei lúffa, þeir standa saman fram í rauðan dauðann, og það skiptir í raun engu máli hvað menn gera mikið af sér, þeir munu alltaf kasta sér á bálið hver fyrir annan.“
– Hallgrímur Helgason rithöfundur um sama mál.

„Vá, fólk er reiðara yfir Samherja en jafnréttisstefnu Íslandsbanka.“
– Margrét Gauja Magnúsdóttir.

„Mér finnst að þessum árásum á ykkur og annað starfsfólk Samherja á Íslandi, sem hefur staðið sig vel, því verði að linna.“
– Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, á starfsmannafundi með starfsmönnum Samherja, um fréttaflutning fjölmiðla um Samherja og Samherjaskjölin svokölluðu.

- Auglýsing -

„Fyrst heimtum við að heimurinn hætti að þagga niður kynferðisofbeldi en nú viljum við hafa réttinn til að þagga sjálfar kynferðisofbeldi í hel og réttinn til að bera menn sökum án þess að þurfa að standa fyrir máli okkar? Það er ofbeldi af verstu skúffu eins og dómsúrskurður í máli Atla ber vitni um.“
– Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona um viðbrögðin við niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns Sigurðssonar gegn Borgarleikhúsinu.

„Orðræða sem þessi sendir alvarleg skilaboð út í samfélagið og hefur að engu trúverðugleika brotaþola kynferðisofbeldis.“
– Yfirlýsing frá tæplega hundrað konum vegna skrifa Steinunnar Ólínu.

„Svívirðilegar aðferðir í valdatafli.“
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri sagði aðför í gangi til að hrekja hann úr embætti ríkislögreglustjóra.

- Auglýsing -

„Það er eins og honum líði eins og hann sé hafður einn úti í horni og enginn vilji lengur leika við hann.“
Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, um ummæli Haralds.

„Ég myndi frekar saga af mér höfuðið en hætta að borða kjöt. Ekki af einhverri stælaástæðu, bara því ég er sælkeri og culinary-ævintýri halda mér gangandi. Hinsvegar þykir mér sjálfsagt að taka kjöt alfarið úr skólum.“
– Halldór Halldórsson, a.k.a. Dóri DNA, um fyrirætlanir meirihlutans í Reykjavík að draga úr framboði dýraafurða í grunnskólum borgarinnar.

„Það er ekki lengur merki um ríkidæmi að borða kjöt heldur eiginlega öfugt; alþýðan lifir á kjötfarsi og kjúklingum á meðan hin betur settu eru vegan, enda kostar það sitt.“
– Gunnar Smári Egilsson athafnamaður og sósíalistaforingi.

„Ég þori að veðja að um helmingur þingmanna myndi frekar stinga höfði í salerni en að andmæla styrkjum til bænda.“
– Guðmundur Steingrímsson um íslenskan landbúnað og Alþingi sem hann uppnefndi hagsmunagæslustofu bænda.

„Hann er sérstök blaðsíða. Án þess að hans ferill hafi verið kannaður sérstaklega mætti auðveldlega ætla að hann hefði átt erfiða æsku.“
– Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hæddist að Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samylkingarinnar, í leiðara sínum. Tilefnið er uppnám sem varð á Alþingi fyrr í vikunni þegar Bjarni Benediktsson fjarmálaráðherra rauk út úr þingsal eftir ásakanir um að hafa brotið lög um opinber fjármál.

„Við keyptan ritstjóra, vil ég segja. Það er betra að vera sérstök blaðsíða sem tekur á slöppum viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í Samherjamálinu en að vera lélegur pappír sem er ætlað að afvegaleiða þá mikilvægu umræðu.“
– Ágúst Ólafur Ágústsson svaraði fyrir sig.

„Hann er náttúrlega bara krakkaskítur úr Garðabæ. Hann er fæddur 1975. Þetta er fáránlegt.“
– Sigurjón Kjartansson, handritshöfundur og annar umsjónarmaður útvarpsþáttarins Tvíhöfði, um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins.

„Það leggur ólykt frá Efstaleiti. Fnyk af spillingu og fyrirfram ákveðinni niðurstöðu.“
– Hólmfríður Gíslasdóttir, fréttastjóri Mannlífs sakaði stjórn RÚV um að vilja velja í stól útvarpsstjóra bak við luktar dyr.

„Nú ætlar ríkisstjórn Íslands að taka á móti Mike Pence, ræða kurteislega við hann um viðskiptasamráð og efla með því tengslin við Bandaríkin. Allar slíkar áætlanir eru hrein og klár vanvirðing við samfélag hinsegin fólks á Íslandi. Við munum ekki sitja undir því þegjandi að hann sé boðinn velkominn hingað til lands.“
– Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78, um komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins en sá hefur leynt og ljóst staðið upp á móti réttindabaráttu hinsegin fólks í Bandaríkjunum.

„Þótt ég sé einlægur stuðningsmaður réttinda samkynhneigðra (og allra annarra einstaklinga) þá er ég hér mjög ósammála þessari ágætis konu. Maður getur ekki kallað eftir opinni umræðu og viljað samtímis þagga niður í þeim sem eru manni mest ósammála.“
– Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, gagnrýndi Þorbjörgu fyrir að mótmæla komu Pence.

„Á Íslandi líðum við ekki heimilisofbeldi.“
– Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

„Nú þykir fínt að reynslulítið fólk, sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.“
– Davíð Oddson, ritstjóri Morgunblaðsins, skaut oft föstum skotum á flokksforystu Sjálfstæðisflokksins á árinu sem er að líða.

„Hlutfall of feitra er hátt á Íslandi og neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu.“
– Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

„Það er sannarlega göfugt markmið að fækka feitabollum þessa heims en tilgangurinn má ekki helga meðalið, ekki í þessu fremur en almennum lyfjarannsóknum. Að auka álögur á fólk vegna neyslu löglegrar vöru er ekki réttlætanleg til að ná þessu markmiði.“
– Stefán Einar Stefánsson blaðamaður um sykurskattinn.

„Miðaldra, hvítur, kristinn karlmaður, helst reffilegur og peningalegur, er formaður. Glæsilegasta konan er varaformaður og sætasti krakkinn ritari. Þetta er afleiðing af valdatilfærslu prófkjöranna.“
– Ragnar Önundarson, fyrrverandi bankastjóri, setti út á flokksforystu Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.

„Það er alveg ljóst að Ragnar Ön hefur einhvern óeðlilegan áhuga á að gramsa í myndum á fb hjá mér.“
– Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi ritari Sjálfstæðisflokksins.

„Það eru c.a. átján mánuðir síðan þér tókst að koma þér í alla fjölmiðla Ragnar, fyrir að velta fyrir þér á þessum vettvangi útliti og ljósmyndum Áslaugar Örnu. Er það virkilega leiðangur sem þú vilt endurtaka?“
– Stefán Pálsson sagnfræðingur.

„Með skrílslátum og húrrahrópum af pöllum, eins og á vel heppnuðum fótboltaleik en ekki atkvæðagreiðslu sem varðar líf og dauða ófæddra barna, var gengið frá þungunarrofsfrumvarpinu í þinginu.“
– Ólína Þorvarðardóttir.

„Það er eins og ég hafi farið inn á mjög heilagt yfirráðarsvæði kvenna þar sem fötlun mín ógnar hugmyndum um yfirburði ófatlaðs kvenlíkama þegar kemur að móðurhlutverkinu.“
– Freyju Haraldsdóttur, þroskaþjálfa og fötlunaraktívista, sem hefur barist fyrir því að fá að gerast fósturforeldri sárnaði að finna ekki fyrir stuðningi úr röðum femínista á Íslandi.

„Þegar við erum að tala um að íslenskum börnum gangi illa í að skilja það sem þau lesa, þá læðist að manni sá grunur að íslenskir krakkar kunni að vera ekki eins vel gefnir og krakkar í öðrum löndum.“
– Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, um niðurstöðu PISA- könnunarinnar.

„Það verður sífellt erfiðara fyrir dýravini, vegna þessa aukna upplýsingaflæðis sem talsmaður FESK kýs að kalla „offramboð af upplýsingum“, að loka augunum fyrir þeim viðbjóði sem fer gjarnan fram í kringum verksmiðjuframleitt kjöt.“
– Guðný Hrönn, blaðamaður á Mannlífi, lét Sigmar Vilhjálmsson heyra það.

„Hvert mannsbarn veit að Sjálfstæðisflokkurinn og fulltrúar hans eru frægir fyrir spillingu og sérhagsmunagæslu.“
– Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn og formanni mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkur, í pistli á Mannlíf.

„Sama Dóra Björt og reynir að gerir löglega og rétt skráða hluti tortryggilega sér ekkert athugavert við að borgin hafi brotið á starfsmönnum.“
– Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn svarar Dóru.

„Nýleg dæmi eru um að í umræðu í samfélaginu sé gert lítið úr andstæðingunum vegna þess að þeir séu „rugluð gamalmenni“. Er ekki nóg að segja að þeir séu ruglaðir, ef velja þarf niðrandi lýsingu?“
– Benedikt Jónsson, stofnandi Viðreisnar, deildi á aldursfordóma.

„Ég neita því ekki að ég hrökk svolítið í kút.“
– Magnúsi Geir Þórðarsyni, þáverandi útvarpsstjóra brá þegar Hatarar veifuðu palestínsku borðunum í Eurovision-keppninni.

„Ef áætlunin var alltaf sú að sniðganga keppnina í Hollandi að ári, misbjóða og móðga almenning, minnka traust skattgreiðenda á þessari ríkisreknu stofnun allra landsmanna og vera Íslandi til skammar – þá virðist allt enn vera samkvæmt áætlun.“
– Fjölmiðlamaðurinn Ívar Halldórsson skammaðist út í útvarpsstjóra fyrir að hafa ekki hlustað á sig og bannað Hatara.

„Ég get ekki annað en litið á leikþátt Hatara sem ekkert annað en enn eina tilraunina til þess að taka fram fyrir hendur Palestínumanna og velja hvenær og hvernig þau mega og eiga að mótmæla.“
– Bryndís Silja Pálmadóttir, varaformaður Félagsins Ísland-Palestína.

„Nennirðu í alvörunni að láta ekki eins og þú sért í Kardashian-fjölskyldunni. Eða Elon Musk. Elíturugl.“
Eva H. Baldursdóttir, pistlahöfundur á man.is, var hneyksluð á Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, fyrir að láta klóna hund sinn Sám.

„Skírskotun í klám og kyrkingar.“
-Sigga Dögg var ekki par hrifin af laginu Freðinn eftir tónlistarmanninn Auð.

„Þessi frétt Mannlífs er röng.“
– Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka, um frétt á man.is þar sem fullyrt var að fyrirhugað væri að segja upp áttatíu starfsmönnum hjá Arion banka fyrir næstu mánaðamót. Fáeinum dögum síðar var 100 starfsmönnum sagt upp hjá bankanum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -