Egill Ólafsson, einn allra besti söng- og leikari Íslandssögunnar, er með Parkinsonssjúkdóminn.
Stuðmenn aflýstu í dag „Með allt á hreinu“ kvikmyndatónleika sem halda átti í Hörpu 11. nóvember næstkomandi. Fram kemur í frétt Rúv að hljómsveitin hafi sent miðakaupendum tölvupóst þar sem ástæðan er sögð sú að Egill Ólafsson, aðalsöngvari Stuðmanna sé með Parkinsons.
„en þar sem hann getur ekki lengur stólað á röddina vegna Parkinsonsjúkdóms, telur hann best að koma hreint fram og játa sig vanmáttugan,“ stendur meðal annars í tölvupóstinum.
Fyrr á árinu tók Mannlíf við hann viðtal í tilefni afmælis hans. Þar sagði Egill blaðamanni að hann væri að taka upp plötu sem yrði hans síðasta á ferlinum.
Þar kom eftirfarandi fram:
„Það liggur bara vel á mér, ég er bara ánægður. Ég er að fara að taka upp síðustu plötuna mína held ég. Við byrjum á laugardaginn, með tveimur Kúbverjum, einum Svía og tveimur Íslendingum.“
Aðspurður hvort þetti verði hans allra síðasta plata svarar Egill; „Já, ég hef ekki trú á öðru.“
Sjá einnig: Egill Ólafsson með sína síðustu plötu: „Það liggur bara vel á mér, ég er bara ánægður“