Laugardagur 20. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Einkaviðtal við séra Skírni: „Ég furða mig á afstöðu Biskups“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég furða mig á afstöðu Biskups til málsins,“ segir séra Skírnir Garðarsson sem í gær var rekinn úr starfi sínu sem héraðsprestur á Suðurlandi. Agnes Sigurðardóttir biskup rak séra Skírni úr embætti sökum þess að presturinn braut trúnað í starf sínu að hennar mati og lauk hann störfum samstundis fyrir íslensku þjóðkirkjuna. Þetta er í annað sinn sem biskupinn hrekur Skírni úr starfi sökum trúnaðarbrots.

Bakvörðurinn réttindalausi, Anna Aurora Óskarsdóttir, hefur reynst séra Skírni Garðarssyni skeinuhætt. Þegar Skírnir þjónaði sem prestur við Lágafellskirkju í Mosfellsbæ sótti Anna um styrk úr neyðarsjóði kirkjunnar. Presturinn grunaði hana um græsku og að hafa ekki þörf fyrir hjálp. Hann hafði samband við félagsmálastjóra Mosfellsbæjar til að spyrjast fyrir um konuna. Þau samskipti urðu til þess að Anna kærði séra Skírni og Mosfellsbæ til Persónuverndar fyrir að rjúfa við sig trúnað. Málið varð til þess að Agnes Sigurðardóttir biskup hrakti hann úr embætti í sókninni og trúnaðarbrot prestsins gagnvart Önnu hafa nú aftur orðið til þess að hann hrökklast úr starfi.

Að þessu sinni fyrir að tjá sig um málefni Önnu Auroru nýverið eftir að hafa séð til bakvarðarins í þyrlu Landhelgisgæslunnar flytja bakverði vestur í Bolungarvík. Skírnir íhugaði að láta lögreglu vita en lét það ógert. Hann talaði þó við Gylfa Ólafsson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og steig síðan fram í fjölmiðlum þar sem hann ræddi um málefni bakvarðarins. Biskup Íslands taldi þar um trúnaðarbrot að ræða og hefur nú rekið prestinn úr starfi.

Í samtali við Mannlíf vonast Skírnir til þess að Agnes biskup endurskoði málið og er sjálfur þeirrar skoðunar að brottvikningin sé of alltof hörð aðgerð. Hann segist aðeins hafa rætt við Gylfa forstjóra því hann hafi tengsl vestur. „Ég þjónaði Bolvíkingum fyrir allnokkrum árum og er staðkunnugur þar. Ykkur fyrir vestan sendi ég góðar kveðjur í baráttunni við veiruvágestinn,“ segir Skírnir.

Presturinn er miður sín vegna brottrekstrarins og segist eiga erfitt með að meðtaka hann sökum eigin veikinda og veirufaraldursins sem gengur yfir landið. Hugur hans er hjá aðstandendum þeirra látnu. „Tímasetningin er ekki góð, ég er í veikindaleyfi fram að mánaðarmótum og hef takmarkað svigrúm af heilsufarsástæðum. Ég tel viðbrögðin langt umfram það sem málavextir gefa tilefni til og vona að þau verði endurskoðuð. Aðstandendum þeirra sem látist hafa votta ég samúð og virðingu. Ég óska landi og þjóð guðsblessunar,“ segir Skírnir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -