Þriðjudagur 4. október, 2022
8.8 C
Reykjavik

Elísabet II. heillaðist af Íslandi – Gaf sig á tal við unga sem aldna

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Elísabet II. Englandsdrottning heimsótti Ísland ásamt Filippusi eiginmanni sínum árið 1990. Heillaði drottningin smávaxna landann upp úr skónum og þóttu þau hjónin mjög alþýðleg. Vigdís Finnbogadóttir forseti tók vel á móti hjónunum en hér á landi skoðuðu þau meðal annars íslensku handritin, málverk eftir íslenska málara og hrossabú, svo eitthvað sé nefnt.

Daman fyrst.

Alþýðublaðið skrifaði meðal annarra blaða um heimsókn Elísabetar og Filippusar:

Drottningin og hertoginn:

Alþýðleg stórmenni í Íslandsheimsókn

Elísabet II. Englandsdrottning og Filippus hertogi komu blaðamanni mjög alþýlega fyrir sjónir er hann hitti þau í breska sendiráðinu í lokuðu hófi að aflokinni heimsókn þeirra í Árnastofnun. Þar höfðu hátignin fengið að handfjatla hinar dýrmætu eignir okkar Íslendinga, handritin, sem loks var samþykkt að skyldu til Íslands árið 1961. Í kjölfar þess sagði drottning eitthvað á þessa leið við blaðamann, sem tjáði henni fyrst að hún skrifaði fyrir blað: „hvernig ætli dagblöðin muni lita út er þau ná aldri íslensku handritanna?“ Blaðamaður svaraði þá að bragði að þau yrðu sennilega gul. Þá brosti drottning sínu tignarlega brosi og svarði: „Já, líklega.“ Drottning kvaðst mjög ánægð með móttöku Íslendinganna.

Glæsilegir þjóðarleiðtogar

Í þessu boði gerði drottning sér far um að tala við fjölmiðlafólkið og Filippus skemmti sér hið besta enda augljóslega húmoristi og léttir örugglega oft andrúmsloftið í svona heimsóknum.

Andstæður klæðnaður þjóðarleiðtoganna

- Auglýsing -

Vigdís forseti og Elísabet íklæddust andstæðum náttúrulitum. Drottningin var í hágrænni kápu og innundir sást glitta í hvítan kjól með grænum laufum, á höfðinu bar hún barðalítinn hvítan hatt með svarti líningu og grænu blómi í stíl við kápuna. Skórnir voru svartir og háglansandi og veskið í stíl. Vigdís, hins vegar, var í skærgulri sumardragt með svartan prinsessuhatt og í svörtum topp. Filippus drottningarmaður var í svargráum jakkafötum með rautt munstrað bindi. Vigdís fylgdi drottningu og hertoganum eftir framan af degi. Eftir hádegisverðarboðið fóru þau í Listasafn Íslands og skoðuðu þar verk eftir íslenska málara. Elísabet var undir leiðsögn Beru Nordal, forstöðumanns Listasafnsins, og virtist líka myndir okkar listamanna vel. Sérstaklega virtist drottning staldra við gömlu meistaranna, enda hafði sá áhugi hennar komið áður í ljós er haldin var sýning á íslenskri list í London á dögunum. Skoðun á verkunum fór nokkuð fram yfir tilætlaðan tíma. Að heimsókninni í Listasafnið lokinni gengu Elísabet og Vigdís í fararbroddi eftir Fríkirkjuveginum þar sem fjöldi manns, ekki síst barna, hafði safnast saman með íslenska og breska fánann til að fagna drottningu og hertoganum. Fólk var prúðbúið og börnin lífguðu upp á bæinn með litríkum klæðnaði sínum. Drottningin gaf sig á tal við fjölda manns, jafnt unga sem aldna sem ýmist skildu eða ekki enska tungu. En allir gerðu sitt besta. Mikið var klappað fyrir drottningu og hertoganum og greinileg hátíðarstemming ríkti á þessum bjarta mánudegi. Og eins og áður segir héldu drottning og hertogi í Árnastofnun til að skoða merkileg íslensk handrit undir leiðsögn Jónasar Krisjánssonar forstöðumanns Árnastofnunnar.

Jónas fræðir Elísabetu um handritin

Fallbyssuskothríð

- Auglýsing -

Þegar drottning kom að snekkju sinni var 21 fallbyssuskoti hleypt af til heiðurs henni. í Brittaníu hélt drottning og hertoginn síðdegisboð fyrir erlenda sendimenn og í gærkvöld hélt forseti Íslands kvöldverðaboð á Hótel Sögu. Í dag mun drottning heimsækja hrossabúið að Dal, þar sem ekki er talið ólíklegt að hún skelli sér á bak, og síðan liggur leiðin til Nesjavalla. Um hádegi halda drottning og hertoginn til Þingvalla þar sem þau skoða sig um og snæða hádegisverð í boði forsetisráðherra í Þingvallabæ. Að því loknu verður Þingvallakirkja skoðuð. Gróðursetning trjáa verður við Kárastaði. Klukkan 16.00 verður móttaka borgarstjórahjónanna við Höfða og um kvöldið heldur drottning kvöldverðarboð um borð í Brittaníu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -