Föstudagur 19. ágúst, 2022
9.8 C
Reykjavik

Fékk á sig 129 mörk í 16 leikjum: „Ég er mjög æfður og löngu hættur að flækja mig í netinu“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Huginn Fellum er fornfrægt knattspyrnulið frá Fellabæ á Héraði. Liðið lék mestan part í utandeildinni fyrir austan en árið 1992 lék Huginn í fjórðu deildinni með skelfilegum árangri en liðsmenn héldu þó ávalt í húmorinn og nutu sín á vellinum. Liðið samanstóð að mestu af bændum úr Fellasveitinni og síðhærðum unglingspiltum frá Fellabæ en sennilega var þekktasti leikmaður liðsins hæstaréttardómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson en hann þótti afar góður í föstum leikatriðum.

Hið fagra merki Hugins Fellum

Hinu Fellbæska liði gekk vægast sagt illa í fjórðu deildinni árið 1992 en þegar tvær umferðir voru eftir var liðið með 1 stig og höfðu fengið á sig 129 mörk í 16 leikjum. Pressan tók stórskemmtilegt viðtal við markmann liðsins, Arnfinn Bragason:

Átta mörk í leik

Markvörður sá sem hefur fengið flest mörk á sig á þessu knattspyrnutímabili heitir Arnfinnur Bragason og leikur með íþróttafélaginu Huginn, Fellum, í fjórðu deildinni. Fyrir þá sem ekki þekkja til er Fellabær staðsettur rétt utan við Egilsstaði og erkifjendurnir því Höttur á Egilsstöðum.

Arnfinnur hefur fengið á sig 129 mörk í sextán leikjum eða um átta mörk i leik. PRESSAN hafði samband við markvörðinn fima og spurði hann hvernig tílfinning það væri að þurfa sífellt að hirða boltann úr netinu. Arnfinnur kvaðst alls ekki taka það nærri sér þótt boltinn væri oftar fyrir aftan hann í netinu en fyrir framan hann á vellinum. „Ég er mjög æfður og löngu hættur að flækja mig í netinu þegar ég sæki boltann,“ sagði Arnfinnur.

Huginn er nú í neðsta sæti D-riðils í fjórðu deildinni, með eitt stig, en efsta liðið í riðlinum er sem oft áður Höttur, með 42 stig, og ljóst að þeir munu leika til úrslita í deildinni. Stærsta tap Hugins í sumar var gegn Hetti 12:0. Þrátt fyrir það voru þeir Huginsmenn ánægðir með frammistöðuna og þótti það helst til baga í leiknum, að dómarinn hafði dæmt tvö mörk af Hetti vegna rangstöðu. Þrátt fyrir heldur dapurlega stöðu er Arnfinnur hvergi banginn og segir þá félaga stefna beint á toppinn. „Við höfum fimm ára áætlun sem miðar að því að verða á undan Hetti upp í aðra deild. Þeir hafa verið að baksa við þetta í mörg ár, nær alltaf verið í úrslitum en aldrei komist upp.

Í bókinni Íslensk knattspyrna 1992 eftir Víði Sigurðsson kemur fram að að markatala liðsins í lok móts hafi verið 8-153 sem þýðir að Huginn fékk á sig 24 mörk til viðbótar í síðustu tveimur leikjunum en stærsta tap þeirra var gegn Huginn Seyðisfirði en sá leikur fór 0-18. Það var Íslandsmet í þó nokkur ár eða þar til lið Skallagríms bætti það. Bjarni Fel, íþróttafréttamaðurinn goðsagnakenndi, hafði einstaka unun af því að lesa upp úrslit leikja Hugins Fellum sem heyrðist vel á glaðhlakkanlegri rödd hans er hann las upp nýjustu úrslitin. Fimm ára takmarkinu náði Huginn Fellum aldrei en liðið æfir enn innandyra á veturnar og keppir á árlegu pollamóti á Akureyri á sumrin, oft með góðum árangri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -