Föstudagur 29. mars, 2024
2.8 C
Reykjavik

Fer í blakkát á sviði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hugleikur Dagsson er um þessar mundir að undirbúa sig fyrir sinn stærsta uppistandatúr til þessa, Son of the Day sem verður brot af því besta sem hann hefur verið að gera síðustu fimm ár. Í tilefni af túrnum heldur hann eina sýningu hér heima, á Kex þann 5. apríl næstkomandi.

Líkamsvessar, Tinder, Star Wars og fegurðardrottningar eru á meðal þess sem grínistinn Hugleikur Dagsson ætlar að taka fyrir í uppistandstúr um heiminn. „Við byrjum í Búdapest og tökum restina af Austur-Evrópu. Síðan förum við til Berlínar, Brussel, Amsterdam og Vínar. Við ljúkum ferðinni á Norðurlöndunum með hápunkti í Helsinki þar sem ég verð með þrjár sýningar sem ég mun láta taka upp. Ætlunin er að klippa saman svokallaðan „stand-up special“ og selja hann á einhverja streymisveitur, verða heimsfrægur og deyja ríkur,“ segir Hugleikur um túrinn.

Uppistandinu má lýsa sem broti af því besta sem Hugleikur hefur gert síðastliðin fimm ár, en hann hefur nú fengist við uppstand í tíu ár og segir að upphaflega hafi hann ekki getað hugsað sér að fara út í það. „Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa! Enda er ekkert óhugnanlegra en að standa á sviði og reyna að vera fyndinn. Hvað ef það misheppnast? Það væri mannleg eymd í sinni hreinustu mynd.“ En svo krafðist Ari Eldjárn þess að ég prófaði, sem ég gerði og það tókst. Síðan þá hef ég verið háður þessu frásagnarformi.“

Fyrir svona tíu árum sagði ég: „Uppistand er eitthvað sem ég mun aldrei prófa!“

Hann segir að ekkert sé betra en að vera á sviði og drekka í sig viðbrögðin. Að í raun sé það eini tíminn sem honum finnist hann hafa einhverja stjórn, en að sama skapi kvíði hann fyrir hverju „giggi“. „Mannssálin er bara ekki byggð fyrir þetta kjaftæði. Samt gerir maður þetta út af einhverri viðurkenningarfíkn, því um leið og maður nær fyrsta hlátrinum þá hverfur kvíðinn og maður sörfar hláturinn eins og brimbrettakappi. Þetta er spurning um að halda dampi og trúa á efnið sitt.“

Öfundar engan

Spurður út í eftirminnilegt uppistand, segir hann svolítið erfitt að svara því þar sem hann fari oft hreinlega í blakkát á sviði. „Ég er byrjaður að hljóðrita giggin mín svo ég geti hlustað á það sem ég sagði. Margir góðir brandarar fæðast nefnilega á sviði og það er glatað að muna þá ekki eftir á.“

Við nánari umhugsun segist Hugleikur reyndar muna eftir nokkrum sérkennilegum „giggum“.  „Já, ég lenti til dæmis í því á skemmtun úti á landi að það fór einn að tuða og ég svaraði honum svo svakalega að hann bara lét sig hverfa. Bæjarbúar voru afar ánægðir enda höfðu þeir í nokkur ár hugsað honum þegjandi þörfina.“ Hugleikur segir að uppákomur af þessu tagi tengist oftast árshátíðum þar sem einhver drukkinn karl í salnum fari að reyna að skjóta á hann. „En viðkomandi gleymir þá alveg að ég er bæði atvinnugrínisti og með míkrófón,“ bætir hann við kíminn.

- Auglýsing -

En hvaða eiginleikum þarf góður uppistandari að búa yfir?

„Góður uppistandari þarf að tileinka sér góða vinnusiðfræði,“ svarar hann og segist í því samhengi fara eftir þeirri reglu Conans O’Brien að vera duglegur og góður.

„Ég hef tamið mér að láta aðra grínista ekki fara í taugarnar á mér, það skiptir máli. Og öfundaðu engan. Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur. Það sést langar leiðir þegar grínisti er að reyna að vera eins og einhver annar. Samband grínista við sal skiptir öllu máli. Aldrei fara í vörn ef fólk fattar ekki eitthvað, það er ekki því að kenna heldur þér. Ef maður temur sér ákveðna blöndu af hógværð og kæruleysi verður maður ósigrandi.“

 Notaðu velgengni annarra sem fyrirmynd og vertu þú sjálfur.

- Auglýsing -

22 gigg í 18 borgum

Eins og áður sagði fer Hugleikur bráðlega í einn stærsta uppistandstúr sem Íslendingur hefur farið í. Túrinn ber heitið Son of the Day sem er þýðing á eftirnafni Hugleiks, Dagsson eða sonur Dags, og hefst 11. apríl. „Réttara hefði verið að segja Son of Day en Son of „the“ Day er einhvern veginn tilgerðarlegra og þess vegna valdi ég það. Var í smástund að spá í að kalla sýninguna Mindgame en það hljómar eins og ég sé að reyna að vera kúl. Og það er ekkert minna kúl en að reyna að vera kúl. Það er hins vegar mjög ótilgerðarlegt að reyna að vera tilgerðarlegur.“

Með í för verða vinur hans, ástralski grínistinn Jonathan Duffy, sem hitar upp og Rakel Sævarsdóttir, umboðsmaður Hugleiks. „Ég tilkynnti einfaldlega fylgjendum mínum á Netinu að ég væri ekki bara teiknari heldur uppistandari líka og ef einhver vildi bóka mig mætti endilega hafa samband. Fyrr en varði vorum við búin að bóka 22 gigg í 18 borgum,“ segir hann glaðlega.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -