Almenningssamgöngur hafa verið í mikilli umræðu undanfarin ár og hefur borgarlínan verið lykilatriði í þeirri umræðu en hún er í raun annað nafn yfir betri strætósamgöngur. Félag íslenskra bifreiðaeigenda er reglulega þátttakandi í þeirra umræðu en í grein sem félagið birti í dag er því haldið fram að bílar séu níu sinnum afkastameiri en strætó.
„Því er oft haldið fram að fullur strætisvagn afkasti meiru en einkabíllinn vegna þess að strætóinn tekur aðeins brot af plássinu á götunum sem einkabílar taka með jafn marga farþega. En þá gleymist að taka með í reikninginn að bílarnir eru allir á ferð og nota plássið því í afar skamman tíma,“ segir í grein FÍB um málið og leggur fram dæmi sér til stuðnings.
Segja stærðfræði styðja einkabíla
„Einfalt reikningsdæmi sýnir að einkabíllinn hefur vinninginn yfir strætisvagninn.
Gefum okkur tveggja akreina götu með 40 km hámarkshraða og að allir keyri á þeim hraða í eina mínútu. Segjum að strætó aki þessa götu með 50 farþega á einni mínútu. Á sömu einu mínútunni geta 450 einkabílar farið þessa leið á 40 km hraða. Þó aðeins einn farþegi sé í hverjum einkabíl, þá er bíllinn samt níu sinnum afkastameiri en strætóinn. Til að strætó nái einkabílnum í afköstum þyrftu níu strætisvagnar með 50 farþega hver að vera á ferðinni þessa einu mínútu.“
Óhætt er að segja að fullyrðingarnar sem settar eru fram þyki umdeildar og úr takti við ríkjandi hugsun í skipulagningu flestra borga í heiminum.