Fimmtudagur 7. desember, 2023
2.8 C
Reykjavik

Fjórir nemendur reknir úr Garðaskóla eftir mótmælagöngu – Köstuðu eggjum í menntamálaráðherra

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um miðjan febrúar 1992 gengu fleiri hundrað grunnskólanemar í mótmælagöngu frá Miklatúni að Lækjartorgi en þar var Ólafi G. Einarssyni, þáverandi menntamálaráðherra, afhentur undirskriftarlista. Á listanum voru grunnskólanemar sem voru ósáttir við niðurskurði í menntakerfinu.

Þegar ráðherrann hafði tekið við listanum tóku sér nokkrir nemendur sig til og köstuðu eggi í hann. Brugðust aðrir nemendur nokkuð ókvæða við og var Ólafur beðinn afsökunnar. Eggjakastið átti svo eftir að draga dilk á efir sér fyrir þá nemendur sem köstuðu þeim.

Morgunblaðið skrifaði eftirfarandi frétt um eggjakastið og mótmælin en neðar má svo sjá frétt DV um eftirköst eggjakastsins.

Mótmæli grunnskólanemenda á Lækjartorgi:

Eggjum var kastað í menntamálaráðherra

NEMENDUR í 8., 9. og 10. bekkjum grunnskóla í Reykjavík fóru í mótmælagöngu frá Miklatúni að Lækjartorgi í gær, þar sem Ólafi G. Einarssyni, menntamálaráðherra, var afhentur undirskriftalisti vegna mótmæla grunnskólanemenda við niðurskurði í menntakerfinu. Þegar menntamálaráðherra hafði veitt listunum viðtöku varð hann fyrir eggjakasti nokkurra úr hópnum en stjórnendur fundarins báðu hann þegar afsökunar á þessum verknaði. Á milli 500 til 700 manns tóku þátt í mótmælunum.

í bréfi til ráðherra, sem fylgir undirskriftarlistunum, segir m.a. að grunnskólanemendum finnist að í tillögum til breytinga á menntakerfinu felist niðurskurður á þeim mannréttindum sem grunnskólanemendur á íslandi hafi notið og eigi að njóta. Ennfremur segir að nemendur óttist afleiðingar þess ef kennarastöður verði stórlega fækkað og ef sett verði lágmarkseinkunn til inngöngu í framhaldsskóla.

- Auglýsing -

Eftir að skólafólkið hafði óskað eftir nærveru ráðherrans með hrópum í um hálfa klukkustund kom hann til fundarins og voru honum afhentar um 4.000 undirskriftir. Hann sagði að niðurskurðaraðgerðirnar væru ekki eins slæmar og látið væri í ljós, þær væru aðeins tímabundnar og ekki væri hjá þeim komist. Nokkrir einstaklingar úr fjöldanum köstuðu eggjum í menntamálaráðherra er hann vék af fundi. Þorri nemenda virtust þó vera reiðir vegna þessa og var ráðherrann beðinn afsökunar. Á ekki að skera meira niður Þröstur Gestsson, nemandi í 10. bekk Vogaskóla, tók þátt í mótmælunum í gær. Hann sagði að nú þegar væru nemendur í færri tímum en þeir vildu. „Það er mjög lítið val hjá okkur nú og það á eftir að verða miklu verra ástand ef meira er skorið niður, sérstaklega hjá minni skólunum,“ sagði Þröstur. Hann sagði að það ætti frekar að sameina minni skóla í sömu hverfum en að minnka kennslu enn meira. „Nú þegar hefur samræmdum prófum verið fækkað niður í aðeins tvö og við viljum vera betur undirbúin fyrir framhaldsnám en þetta,“ sagði Þröstur.

Ólafur G. Einarsson

Viljum hafa skólann eins og hann er

Lovísa Hannesdóttir og Helga Jónsdóttir eru nemendur í 8. bekk Snælandsskóla. „Okkur fínnst það ekki rétt að niðurskurðurinn bitni á okkur. Við viljum hafa skólann eins og hann er núna,“ sögðu þær. Þær sögðu að ef skóladagurinn yrði styttur myndi heimanám aukast. „Þá væru meiri líkur á að fólk næði ekki nógu góðum einkunnum og menntunin yrði ekki eins góð. Það á að gefa öllum tækifæri á framhaldsnámi. Það er allt í lagi að hafa einhver skilyrði til inngöngu í framhaldsskólanna en þau mega heldur ekki vera of mikil,“ sögðu þær.

- Auglýsing -

Lovísa og Helga tóku jafnframt fram hversu leiðinlegt þeim þótti eggjakastið á menntamálaráðherra. „Svona framkoma er ekki rétt og verður til þess að eyðileggja fyrir öllum hinum. Það voru aðeins örfáir sem stóðu fyrir þessu,“ sögðu þær.

DV fjallaði svo um eftirmála mótmælanna fyrir fjóra nemendur Garðaskóla í Garðabæ. Tveir þeirra játuðu eggjakastið á ráðherrann en Gunnlaugur Sigurðsson, þáverandi skólastjóri Garðaskóla hafði fyrir mótmælafundinn varað unglingana við að fara á mótmælafundinn, sem haldinn var á skólatíma. Rak hann því fjórmenningana úr skólanum.

Mótmælafundurinn: Fjórir reknir

Fjórum unglingum hefur verið vísað úr Garðaskóla í Garðabæ vegna óheimillar fjarveru úr skólanum er þeir sóttu mótmælafund grunnskólanema 13. febrúar sl. Tveir hinna brottreknu hafa játað að hafa kastað eggjum í Ólaf G. Einarsson menntamálaráðherra. Skólastjórinn í Garðaskóla, Gunnlaugur Sigurðsson, hafði fyrir mótmælafundinn varað unglingana í skólanum við og sagt þeim að færu þeir á fundinn á skólatíma yrði tekið hart á því. Nokkrir nemendur skelltu skollaeyrum við þessum tilmælum skólastjóra og fóru á fundinn. Strax daginn eftir voru allir, sem skráðir höfðu verið fjarverandi úr tímum daginn áður, kallaðir á fund skólastjóra. Þá játuðu piltur og stúlka í hópnum að hafa hent eggjum í menntamálaráðherrann. Var þeim, ásamt tveim öðrum, vikið úr skólanum. Þessir nemendur höfðu allir verið áminntir áður.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -