Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Fólk lendir í ruslflokki hjá Creditinfo þrátt fyrir vafamál hjá Motus: „Ég er bara manneskja, sko“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lánshæfismat einstaklings hrapar hjá Creditinfo þegar viðkomandi fær rukkun frá innheimtufyrirtæki á borð við Motus og er settur í vöktun. Þetta er óháð því hvort deilur séu um réttmæti reikningsins. Fólk getur því lent í skertu lánshæfismati vegna tilhæfulausra reikninga. Þetta getur haft mikil áhrif ef fólk er að reyna að kaupa fasteign, að endurfjármagna eign eða í annars konar viðskiptum.

Blaðamaður Mannlífs sendi fyrirspurn á Motus um verkferla varðandi innheimtu og vaktanir sem settar eru á þegar fólk greiðir ekki reikningana fljótt og örugglega. Blaðamaður spurði meðal annars hvort hægt væri að senda reikning á hvern sem er, fyrir hverju sem er, og fá Motus til að sjá um innheimtuna, án þess að Motus kannaði sérstaklega réttmæti reiknings.

Tilgreint var dæmi þar sem reikningur fór í innheimtu hjá Motus en sá sem fékk kröfuna taldi reikninginn ekki eiga rétt á sér og fór með málið fyrir Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa. Þrátt fyrir að hafa greint Motus frá því var viðkomandi aðili settur í vöktun og hrapaði niður flokka í lánshæfismati hjá Creditinfo. Þegar viðkomandi spurði hvort hægt væri að greiða kröfuna og fá hana svo endurgreidda ef kærunefndin úrskurðaði honum í vil, voru svörin á þá leið að ekki væri hægt að ábyrgjast það; með því að greiða reikninginn væri viðkomandi að staðfesta réttmæti hans.

Þess ber að geta að nokkuð basl er að komast í samband við Motus símleiðis. Símsvarinn er langur og flókinn, og nánast óskiljanlegt hvað skal velja til þess að komast í samband við lifandi manneskju. Aldrei er bent á skiptiborð og fólki ítrekað vísað á heimasíðuna. Mannlíf hefur áður unnið fréttir sem tengjast fyrirtækinu og afar langan tíma tók að komast í samband við einhvern, þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta og símtöl.

Fljótlega eftir að blaðamaður sendi tölvupóst á stjórnanda innan Motus barst hins vegar símtal frá lögmanni vegna fyrirspurnarinnar.

 

- Auglýsing -

Motus bendir á Creditinfo

Lögmaðurinn byrjaði á því að segja að starf lögmanna væri að vera á milli aðila sem ættu í deilum. „Flest okkar eru að reyna að leysa hluti en svo gengur það svona mismunandi,“ sagði hann.

„Þegar það er ágreiningur og við erum með mál í fanginu þá þurfum við að fylgjast með hlutum eins og því sem er að gerast hjá Creditinfo. Ef ágreiningur er uppi, þá er látið vita af því til Creditinfo. Engu að síður láta þeir það hafa áhrif á lánshæfismatið.“

Lögmaðurinn sagði að einhvern veginn yrði innheimtufyrirtækið að vinna sína vinnu.

- Auglýsing -

„Ef við gerum þetta ekki, þá erum við að bregðast okkar skjólstæðingum. Það að við séum með einhvern á vakt er eitthvað sem Creditinfo ákveður að skipti máli.“

Hann sagði að í málum sem þessum fái Creditinfo að vita að um ágreining sé að ræða. „Af hverju eru þeir að láta það hafa áhrif á lánshæfismatið ef tveir einstaklingar eru að rífast um það?“

Hann sagði að innheimtufyrirtæki eigi að láta Creditinfo vita ef um ágreiningsmál sé að ræða. Það séu ákveðnar aðferðir sem séu í verkferlum. „Við megum skrá viðkomandi á vanskilaskrá þegar við erum búin að birta greiðsluáskorun eða birta stefnu, eða þegar kominn er dómur. En síðan, þegar það er ágreiningur, þá tökum við þá skráningu út. Þá á það ekki að hafa áhrif lengur, skráningin sem slík. Hins vegar er vöktunin ennþá til staðar, vegna þess að ef við vöktum ekki þá vitum við ekkert hvað er að gerast, hvort það kemur innköllun eða eitthvað annað. En aftur á móti ákvörðunin að það sé síðan að markera fólk, það er Creditinfo, ekki í sjálfu sér okkar.“ 

Hvað varðar fyrirspurn um það hvort hvað sem er sé tekið til innheimtu sagði hann að reynt sé að flokka það. „Því ekki vill maður alltaf vera með glataðan málstað heldur vill maður frekar vera í vinningsliðinu. En auðvitað getum við ekki alveg stimplað það út að við séum ekki stundum með eitthvað sem er ekki gott og ef þú fylgist með heimasíðu dómanna, þá eru þetta miklar sveiflur. Maður veit aldrei hvort maður er með góðan málstað. En við auðvitað reynum að taka ekki einhverja dellu í innheimtu vegna þess að við viljum vera að vinna vinnu sem skilar árangri en ágreiningurinn getur átt fullkominn rétt á sér.“

Mynd: LinkedIn

 

Motus og Lögheimtan

Blaðamaður spurði næst út í tengsl Motus og Lögheimtunnar. Mörg dæmi eru um að mál byrji í innheimtu hjá Motus en séu síðan flutt yfir til Lögheimtunnar. Aðspurður sagði lögmaðurinn að ekki væri um að ræða sama fyrirtækið heldur vinni fyrirtækin tvö saman. Hann útskýrði að Lögheimtan væri lögfræðifyrirtæki en Motus milliinnheimtufyrirtæki. Þannig flytjist reikningar frekar yfir til Lögheimtunnar sem stefni ef til vill í dómsmál. „Lögheimtan sinnir innheimtum fyrir dómstólum og sýslumönnum.“

Þegar þarna var komið sögu kom í ljós að lögmaðurinn starfar hjá Lögheimtunni, ekki Motus. „Fólk samsamar þetta oft mikið, enda erum við á sama staðnum.“ Þegar blaðamaður furðaði sig á því að hafa sent tölvupóst á stjórnanda hjá Motus en fengið símtal frá starfsmanni Lögheimtunnar var svar hans: „Þú færð símtal frá mér. Ég er bara manneskja, sko.“ Aðspurður frekar um það hvernig þetta fyrirkomulag virkaði hjá þeim sagði hann fyrirtækin einfaldlega vinna saman. „Við erum hér í sama húsi og ég tók ákvörðun um að hringja í þig vegna þess að ég hélt að þig vantaði upplýsingar. Mér fannst það ekki flókið í sjálfu sér.“ Þegar honum var bent á að ef til vill væri erfitt fyrir leikmann að átta sig á fyrirkomulagi fyrirtækjanna þegar tölvupóstur væri sendur á Motus og símtal bærist frá Lögheimtunni, þrátt fyrir að ekki væri um að ræða sama fyrirtæki sagðist hann líka starfa fyrir Motus. „Ég starfa fyrir bæði félögin.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -