Fimmtudagur 6. október, 2022
4.8 C
Reykjavik

Formaður Blaðamannafélagsins: „Bjarni Benediktsson reiðir enn til höggs gegn blaðamönnum“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Sigríður Dögg Auðnsdóttir, formaður BÍ, er ekki sátt við Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. og segir:

„Bjarni Benediktsson reiðir enn til höggs gegn blaðamönnum í færslu á Facebook-síðu sinni í gær. Hann víkur meðal annars að ályktun sem Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna stóðu saman að í febrúar í tengslum við ákvörðun lögreglunnar á Norðurlandi Eystra að kalla fjóra blaðamenn til yfirheyrslu vegna skrifa um skæruliðadeild Samherja.“

Hún segir að „tilefni skrifa Bjarna að þessu sinni er grein Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans og eins fjórmenninganna, sem birtist í gær. Mér þykir miður að þurfa að standa í ritdeilum við formann stærsta stjórnmálaflokks landsins, en lít á það sem skyldu mína að standa vörð um rétt blaðamanna til þess að vinna vinnu sína í þágu almennings, en ekki síður að leiðrétta alvarlegar rangfærslur í fullyrðingum Bjarna.“

Sigríður Dögg nefnir að „í fyrrnefndri færslu segir Bjarni að ályktun blaðamanna og fréttamanna hafi verið byggð á getgátum og röngum forsendum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bjarni heldur því ranglega fram að gagnrýni Blaðamannafélagsins á ákvörðun lögreglu að kalla fjóra blaðamenn til yfirheyrslu sé byggð á röngum forsendum. Í Facebook-færslu hans frá því í febrúar lætur hann að því liggja að önnur ástæða hafi verið fyrir yfirheyrslunum en að blaðamennirnir hafi nýtt gögn til að skrifa fréttir – líkt og blaðamenn hafi haft „getgátur“ um.

„Þeir segja okkur að þeim sé gefið að sök að hafa nýtt gögn til að skrifa fréttir. En hvað vita þeir svo sem um það á þessu stigi máls?“ spurði Bjarni.

- Auglýsing -

Það sem blaðamenn vissu á því stigi máls var byggt á upplýsingum frá lögreglu og staðfest í yfirheyrslum yfir fjórmenningunum, líkt og fram kemur í grein Þórðar Snæs í gær, sem og grein Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni og varaformanns Blaðamannafélags Íslands, sem hann birti einnig í gær. Þeir lýsa því báðir að yfirheyrsla lögreglu hafi einvörðungu snúist um að afla upplýsinga um heimildarmenn, umfjöllunarefni fréttanna, og fréttamat blaðamannanna og þeirra ritstjórna sem þeir starfa á. Með öðrum orðum: Þeir voru – þótt Bjarni neiti að trúa því – færðir til yfirheyrslu fyrir það eitt að vinna vinnuna sína.“

Og það er að mati Sigríðar Daggar „einmitt kjarni þess sem Blaðamannafélagið hefur gagnrýnt. Í millitíðinni hafa fjölmiðlar einnig bent á – og Þórður fjallar um það í grein sinni, sem er tilefni skrifa Bjarna – að saksóknari í málinu segir í greinargerð sinni „mikilvægt að lögregla rannsaki mál þar sem reyni á þessi mörk [friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsisins] þannig að dómstólum verði gert fært að fjalla efnislega um þessi mörk”.

En kannski er skiljanlegt að Bjarni neiti að trúa því að ástæða yfirheyrslanna sé raunverulega þessi: að blaðamennirnir hafi stöðu sakborninga fyrir það eitt að hafa unnið vinnuna sína. Því auðvitað er það fráleitt. Slíkt þekkist ekki í þeim lýðræðisríkjum sem við viljum bera okkur saman við, þar sem litið er á vernd heimildarmanna sem hornstein fjölmiðlafrelsis, og þar með lýðræðisins.“

- Auglýsing -

Hún bætir við:

„Við höfum innleitt slíka vernd í lög hér, þar sem blaðamönnum er beinlínis bannað með lögum að veita upplýsingar um heimildarmenn. Engu að síður hefur lögreglan á Norðurlandi eystra kallað blaðamenn til yfirheyrslu til þess að reyna að fá þá til að brjóta þessi grundvallarlög fjölmiðla- og tjáningarfrelsisins. Því eins og Þórður segir frá í grein sinni hefur Blaðamannafélag Íslands nú fengið í hendur öll þau gögn sem lögreglan hefur afhent sakborningum í þessu máli þessu máli. Og þau sýna svart á hvítu, líkt og sakborningar hafa margoft sjálfir haldið fram, að meginástæður yfirheyrslna yfir Þórði Snæ eru þessar:

„Opinberlega skýrt frá einkamálefnum án þess að ástæður séu fyrir hendi“ (228. grein hegningarlaga), og einnig: „Brot gegn friðhelgi einkalífs annars með því að hnýsast í, útbúa, afla afrita…“ (229. grein hegningarlaga).

Þetta eru nákvæmlega sömu greinar og vísað var til í sameiginlegri yfirlýsingu fagfélaga blaðamanna. Bjarni hefði ef til vill gagn af því að lesa þá yfirlýsingu aftur, því í henni er farið vandlega yfir ástæður þess að það er áhyggjuefni í lýðræðisríki að lögregla kalli blaðamenn til yfirheyrslu vegna meintra brota á þessum greinum, einkum þar sem Alþingi hefur bætt við lögin sérstökum ákvæðum til að tryggja refsileysi blaðamanna þar sem almannahagsmunir eru taldir brýnir. Þetta veit Bjarni að sjálfsögðu, og dómstólar hafa fellt marga dóma um þetta – íslenskir sem alþjóðlegir. Sjálf þekki ég þessi ákvæði vel, þar sem ég átti hlut í einu þessara mála, þar sem unnar voru fréttir upp úr persónulegum tölvupóstum milli einstaklinga, sem haldið var fram að hafi verið fengnir með ólögmætum hætti úr einkatölvu eins þeirra – tölvupóstamálinu svokallaða.“

Hún bendir á að „málið varðaði þessar sömu tvær greinar hegningarlaganna (þeim hefur lítillega verið breytt síðan) og fór fyrir bæði dómstig hér á landi og að lokum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Alls staðar var niðurstaðan sú sama: að taka skuli mið af meginreglum varðandi frelsi fjölmiðla til þess að miðla upplýsingum um mál sem erindi eiga til almennings og rétt almennings til aðgangs að slíkum upplýsingum.

Þetta er málið í hnotskurn: Réttur almennings til aðgangs að upplýsingum og frelsi fjölmiðla til þess að miðla þeim.“

Sigríður Dögg bendir á að „Alþingi hefur meira að segja hnykkt á refsileysi blaðamanna eftir að dómur féll í tölvupóstamálinu með því að bæta ákvæðunum við þessar tvær lagagreinar. Það sem Bjarni virðist einnig neita að skilja er að hér er ekki um að ræða mál sem ástæða er til að gera blaðamenn að sakborningum í og kalla þá til yfirheyrslu. Telji einhver á sér brotið í þeim fréttum sem til rannsóknar eru hjá lögreglu, er sjálfsagt að dómstólar skeri úr um lögmæti þess að birta fréttirnar. Þær voru byggðar á upplýsingum sem sannarlega voru einkagögn, líkt og blaðamennirnir hafa margoft skýrt frá. Sjálfsagt er að dómstólar skeri úr um hvort almenningur hafi átt rétt á þeim upplýsingum sem þar komu fram og hvort hagsmunir almennings af því að fá þær upplýsingar vegi þyngra en hagsmunir þeirra einstaklinga sem fjallað var um í fréttunum. Til þess að skera úr um það er einfaldlega hægt að meta fréttirnar sjálfar – og óþarfi – og beinlínis skaðlegt, líkt og Evrópuráðið hefur meðal annars bent á – að kalla blaðamenn til yfirheyrslu, hvað þá að veita þeim stöðu sakbornings fyrir að vinna vinnuna sína – sem er að gæta hagsmuna almennings og veita stjórnmálamönnum og stórfyrirtækjum aðhald.“

Segir að lokum:

„Stjórnmálaleiðtogar í lýðræðisríkjum hafa á undanförnum mánuðum verið óþyrmilega minntir á nauðsyn frjálsrar, faglegrar blaðamennsku, á meðan valdamenn í þeim ríkjum sem hneigjast til ólýðræðislegra stjórnarhátta leggja stein í götu frjálsra fjölmiðla, takmarka athafnafrelsi þeirra og ofsækja blaðamenn, meðal annars með hjálp lögreglu. Íslenskir stjórnmálamenn standa ekki fyrir utan þessi átök. Ég vona að þeir beri gæfu til að standa með blaðamönnum þjóðarinnar í baráttunni fyrir fjölmiðlafrelsi, tjáningarfrelsi og lýðræði.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -