Sunnudagur 5. desember, 2021
-2.3 C
Reykjavik

Forræðisdeila Sophiu Hansen og Halim Al: Sagðist hafa íhugað að ráða hana af dögum

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Forræðisdeila hinnar íslensku Sophiu Hansen og hins tyrkneska Halims Al var eitt stærsta fréttamál tíunda áratugarins.

Barátta Sophiu Hansen fyrir að endurheimta dætur sínar frá Tyrklandi, eftir að Halim Al hafði numið þær á brott, fór vart fram hjá nokkru mannsbarni á Íslandi á sínum tíma. Málið var í hámæli árum saman og barátta Sophiu löng og ströng, en að lokum fyrir bí.

Dætur hennar tvær, Dagbjört og Rúna, fluttu aldrei aftur heim til Íslands og ólust upp hjá föður sínum í Tyrklandi.

Á þessu ári eru liðin 30 ár frá því forræðisdeila Sophiu og Halims Al hófst.

 

Faðirinn fer með dæturnar í frí

Þau Sophia og Halim Al giftu sig árið 1984, en þá höfðu þau þegar eignast dæturnar tvær. Dagbjört fæddist árið 1981 og Rúna árið 1982.

- Auglýsing -

Fjölskyldan bjó á Íslandi og Halim Al hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 1987. Það var svo árið 1991 að Halim Al fór með þær Dagbjörtu og Rúnu í frí til Tyrklands. Fljótlega kom í ljós að hann ætlaði sér ekki að koma með stúlkurnar aftur til Íslands til móður þeirra.

Sophia fór í hart við Halim Al og krafðist forræðis yfir dætrunum og að þeim yrði skilað til Íslands. Því varð hann ekki við. Sophia fékk skilnað frá Halim Al árið 1992 og henni var dæmt fullt forræði hér á landi. Það breytti því þó ekki að systurnar voru enn í Tyrklandi og tyrknesk yfirvöld lyftu varla litla fingri til aðstoðar í málinu, nema að síður væri.

Sophia reyndi ítrekað að sækja málið þar í landi árin á eftir en hafði ekki erindi sem erfiði. Hún krafðist forræðis fyrir tyrkneskum dómstólum á sínum tíma, en þeir dæmdu Halim Al fullt forræði. Sophia fékk þó takmarkaðan umgengnisrétt. Halim Al braut hins vegar umgengnisréttinn og tálmaði umgengni Sophiu við dætur sínar ítrekað árin á eftir. Hún varð að sækja slík brot fyrir tyrkneskum dómstólum, sem voru henni hér um bil gagnslausir.

- Auglýsing -

 

Íhugaði að ráða Sophiu af dögum

Árið 1994 fékk Sophia nóg og í örvæntingu sinni braust hún inn á heimili Halims Al í Istanbúl, með hjálp lásasmiðs. Þar hitti hún fyrir Dagbjörtu. Eftir innbrot Sophiu liðu tvö ár án þess að mæðgurnar hittust. Árið 1996 hittust þær loks á lögreglustöð undir eftirliti. Þá var Dagbjört 15 ára og Rúna 14 ára.

Árið 1997 komu Sophia Hansen og Halim Al fram í sjónvarpsþættinum Arena í Tyrklandi. Þar ræddu þau forræðisdeiluna. Í þættinum kom Halim Al því meðal annars á framfæri að hann hefði íhugað að láta ráða Sophiu af dögum, þannig að hann yrði laus við hana og gæti einn farið með forræði yfir dætrum þeirra.

Segja má að þátturinn hafi verið ákveðinn vendipunktur hvað varðaði almenningsálit á Sophiu í Tyrklandi. Eftir þáttinn kvaðst hún hafa fundið fyrir meiri stuðningi og velvild í sinn garð þar ytra.

Í þættinum stóð til að Dagbjört og Rúna yrðu í sjónvarpssal með foreldrum sínum, en ekki varð úr því. Þess í stað var talað við þær í gegnum síma.

„Þetta var óskaplega erfitt tilfinningalega. Ég byrjaði á því að segja hvað mér þætti vænt um að heyra raddir þeirra og hvað mér þætti vænt um þær. Ég sagði þeim að ég kæmi til að hitta þær á hverjum föstudegi og spurði hvers vegna þær væru ekki heima þegar ég kæmi.

Þá sögðu þær að þær væru hjá vinkonum sínum vegna þess að þær vildu ekki hitta mig, ég hefði ekki verið þeim góð móðir og ég hefði verið vond við föður þeirra, ævinlega úti að skemmta mér á diskótekum með öðrum karlmönnum, þannig að þær vildu ekkert með svona móður hafa.

Þær voru mjög harðar við mig, sérstaklega Dagbjört,“ sagði Sophia í samtali við Morgunblaðið.

„Ég fann að það kom örlítil þögn þegar ég fór að minna þær á gamla daga og þann tíma þegar við hittumst síðast og vorum einar á hótelinu í Bakirköy. Þegar ég fór meira inn á það tilfinningalega og minntist á hvað við hefðum haft það gott þá og okkur þótt vænt hverri um aðra, þá fann ég að það varð erfiðara fyrir þær að tjá sig,“ sagði Sophia.

Faðir stúlknanna tók undir það sem þær sögðu og fagnaði særandi orðum þeirra í garð móður sinnar, á meðan Sophia brast í grát í sjónvarpssal. Þáttastjórnandanum var bersýnilega brugðið og stuttu síðar stöðvaði hann útsendinguna.

Í kjölfarið fjölluðu tyrkneskir fjölmiðlar um málið og í stóru dagblaði þar í landi var meðal annars sagt að „allt Tyrkland hefði fylgst með grimmum föður, tveimur heilaþvegnum dætrum og þjáðri móður.“

Höfundur greinarinnar óskaði þess að „þessi undirförli maður ætti það líf sem hann á skilið“.

 

Mannréttindadómstóllinn og flutningar

Sophia var með annan fótinn í Tyrklandi á þessum árum og baráttan, málaferlin, ferðalögin, atvinnumissirinn og uppihaldið reyndist stór biti. Söfnun var sett af stað til aðstoðar henni hér á landi, fljótlega eftir að baráttan hófst, undir slagorðinu „Börnin heim“.

Þrátt fyrir það endaði Sophia skuldum vafin og þurfti að eigin sögn að lokum að selja húsið sitt til að borga umtalsverðar skuldir við bankann.

Svo fór að Sophia kærði tyrknesk stjórnvöld til Mannréttindadómstóls Evrópu. Málið féll henni í vil árið 2003 og var niðurstaða dómsins sú að tyrkneska ríkið hefði brotið gegn 8. gr. mannréttindasáttmálans með því að tryggja ekki að umgengnisréttur Sophiu væri virtur og að hún gæti hitt dætur sínar og verið í samskiptum við þær eins og hún vildi.

Tyrknesk stjórnvöld voru dæmd til að greiða Sophiu 6,6 milljónir króna í skaðabætur. Á þessum tímapunkti var þó allt orðið um seinan – systurnar voru orðnar 20 og 21 árs.

Í nóvember það sama ár flutti Sophia Hansen til Tyrklands til þess að vera nálægt þeim Dagbjörtu og Rúnu og eiga meiri möguleika á samskiptum við þær.

Árin á eftir fór Sophia að hitta dætur sínar örlítið meira, sem þá gátu stjórnað því sjálfar – enda fullorðnar þegar þar var komið sögu. Hún fékk einnig að hitta syni systranna, barnabörn sín, á þessum árum.

Samskiptin urðu þó aldrei mikil og ekki neitt á við eðlilegt mæðgnasamband – skaðinn var skeður.

 

Rúna kemur til Íslands

Rúna kom til Íslands í fyrsta sinn eftir að faðir hennar rændi systrunum árið 2013. Með henni var eiginmaður hennar og synir þeirra tveir.

Skömmu eftir komuna til Íslands sótti Rúna um íslensk vegabréf fyrir sig og synina, sem þau fengu. Samkvæmt heimildum Fréttatímans á sínum tíma hafði Rúna grátið af gleði þegar hún fékk íslenska vegabréfið sitt í hendurnar.

Fjölskyldan var á Íslandi í þrjár vikur og samkvæmt heimildum nutu mæðgurnar Rúna og Sophia samverunnar við hvor aðra til hins ýtrasta.

Dagbjört og Rúna töpuðu allri íslenskukunnáttu þegar þær voru ungar og Rúna talaði því einungis tyrknesku þegar hún kom til landsins. Sophia talar hins vegar reiprennandi tyrknesku og gat því túlkað allt fyrir dóttur sína og fjölskyldu hennar. Þau gátu því talað við stórfjölskyldu Rúnu.

Hún endurnýjaði kynnin við fjölskyldumeðlimi, heimsótti gamla æskuheimilið sitt og fór með syni sína niður að Tjörn að gefa öndunum brauð, svo fátt eitt sé nefnt. Hún skildi örlitla íslensku, en þegar fjölskyldan hélt aftur heim á leið var Rúna farin að skilja enn meira og gat sagt nokkur orð á íslensku.

 

Systurnar ekki í sambandi við föður sinn

Árið 2013 var samband Dagbjartar og Rúnu við föður þeirra sagt vera ekkert. Sophia og fleiri sökuðu Halim Al um að hafa beitt stúlkurnar ofbeldi og haldið þeim föngnum undir ströngu eftirliti. Hann var einnig sagður hafa logið að þeim um móður þeirra í þeim tilgangi að gera þær afhuga henni.

Þessu hefur Halim Al ávallt vísað á bug. Í viðtali við Mannlíf árið 2007 sagðist hann ekki sjá eftir því að hafa numið dætur sínar, Dagbjörtu og Rúnu, á brott árið 1991. Hugsanlega hafi hann beitt Sophiu ranglæti en hann sagði tilganginn helga meðalið.

„Hafi ég gert rangt þá er það einungis vegna dætra minna og mér tókst að bjarga þeim úr aðstæðum sem hefðu skaðað þær,“ sagði Halim Al meðal annars í viðtalinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -