Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Þorbjörn bjargaði 42 mönnum frá bráðum dauða

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðfaranótt 31. mars árið 1955 vann Grindvíska björgunarsveitin Þorbjörn fáheyrt afrek er hún bjargaði heilli áhöfn togarans Jóns Baldvinssonar, alls 42 manns. Er um að ræða stærstu björgun áhafnar á vegum björgunarsveitar Slysavarnarfélags Íslands í sögu félagsins. Jón Baldvinsson hafði strandað við Reykjanes á leið sinni vestur á Eldeyjarbanka, klyfjaður af saltfiski. Báturinn gjöreyðilagðist en ekki einn maður beið bana.

Blaðið Fálkinn sagði svo frá strandinu:

Togarinn Jón Baldvinsson strandar við Reykjanes

Aðfaranótt fimmtudagsins 31. mars strandaði togarinn Jón Baldvinsson við Reykjanes og gjöreyðilagðist. Björgunarsveit slysavarnardeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík bjargaði allri áhöfn skipsins, 42 mönnum. Með þessu er enn á ný höggvið skarð í hinn íslenska togaraflota á þessum vetri, þó að svo giftusamlega tækist til, að manntjón yrði ekkert við skipsskaða þennan. Togarinn var að koma af Selvogsbanka með talsvert af saltfiski innanborðs og ætlaði að fara vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul. Nokkru fyrir klukkan fjögur um nóttina strandaði togarinn og sendi út neyðarskeyti. Var björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“ í Grindavík kvödd á vettvang, en á strandstaðinn er 10—15 kílómetra leið, sem víða er mjög seinfarin. Vitavörðurinn á Reykjanesi, Sigurjón Ólafsson, hafði séð neyðarblys frá skipinu, og varð liann fyrstur á strandstaðinn. Togarinn hafði siglt upp í brimgarðinn undir Hrafnkelsstaðabergi, rétt hjá litla vitanum á Reykjanesi, en skammt þar frá strandaði oliuskipið Clam, eins og mönnum er ennþá í fersku minni. Nokkru fyrir klukkan 7 um morguninn var björgunarsveitin komin á strandstaðinn, og kl. 20 mín. fyrir 9 var búið að bjarga allri áhöfninni í land. Skipstjórinn, Þórður Hjörleifsson, fór síðastur frá borði. Björgunarstarfið gekk mjög greiðlega og áfallalaust, enda er sveitin skipuð vönum björgunarmönnum. Formaður hennar er Tómas Þorvaldsson, en Sigurður Þorleifsson er formaður Slysavarnadeildarinnar „Þorbjörns“. Skipbrotsmenn nutu hinnar bestu aðhlynningar hjá vitavarðarhjónunum á Reykjanesi, og þegar til Grindavíkur kom, bauð kvenfélagið á staðnum öllum til hádegisverðar. Að því búnu héldu skipbrotsmennirnir til Reykjavíkur. Þegar þetta er ritað, standa sjópróf enn yfir, svo að ekki er fullvíst um orsök slyssins.

Jón Baldvinsson við strandstað

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -