• Orðrómur

Furðulegt fréttamál: Jakob Frímann, liprunarbréfið, barnið og DV

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Í byrjun árs 2020 barst utanríkisráðuneytinu beiðni frá Jakobi Frímanni Magnússyni, tónlistarmanni og oddvita Flokks fólksins í komandi kosningum. Beiðnin snerist um að fá ráðuneytið til að útbúa bréf fyrir ólögráða ungling, sem átti að auðvelda barninu að ferðast til föður síns, sem búsettur er erlendis.

Á þessum tíma var Covidsjúkdómurinn farinn að geisa og landamæri víða um heim því að þrengjast. Utanríkisráðuneytið útbjó á þessum tíma ótal liprunarbréf fyrir ferðalanga sem þurftu nauðsynlega að komast til landa þar sem flókið var að fá landvistarleyfi. Að beiðni föður barnsins útbjó Jakob Frímann uppkast að liprunarbréfi og óskaði eftir því að málið yrði afgreitt með hraði, en hann sagði barnið ekki geta fengið landvist í búsetulandi föðurins nema að utanríkisráðuneytið aðstoðaði við málið. Faðir barnsins er náinn vinur Jakobs Frímanns. Í erindinu var tekið fram að móðir barnsins væri för þess samþykk.

„Einbeittur brotavilji“

Að sögn móðurinnar hafði hún upphaflega heimilað för tveggja barna sinna til föður síns, en hafi nokkru síðar afturkallað það vegna ástands faraldursins í heiminum. Hún hafi ekki verið samþykk gerð liprunarbréfsins og ekki haft vitneskju um aðkomu Jakobs Frímanns að málinu fyrr en eftir að hún leitaði sér lögfræðiaðstoðar vegna málsins. Að sögn móðurinnar hafi verið um að ræða einbeittan brotavilja og að Jakob Frímann hafi aðstoðað föðurinn við að reyna að koma öðru barni hennar ólöglega úr landi. Lögheimili barnsins var hjá móðurinni á þessum tíma. Hún segir Jakob Frímann auk þess hafa farið vísvitandi með ótal rangfærslur í bréfi sínu til utanríkisráðuneytisins. Liprunarbréfið var að lokum afturkallað og móðirin beðin afsökunar af utanríkisráðuneytinu.

Móðurfjölskyldu barnsins þótti Jakob Frímann augljóslega hafa misnotað stöðu sína sem fyrrum starfsmaður utanríkisráðuneytisins og þjóðþekktur einstaklingur, til þess að ná málinu í gegn. Fjölskyldan hafði samband við DV þegar ljóst varð að Jakob Frímann ætlaði sér að taka oddvitasæti fyrir Flokk fólksins í komandi kosningum, en að sögn voru þau uggandi yfir hugsanlegum spottakippingum hans ef hann kæmist inn á Alþingi.

Við vinnslu fréttarinnar hafði blaðamaður DV, Erla Hlynsdóttir, samband við Jakob Frímann. Í kjölfarið lýsa þau Björn Þorfinnsson, ritstjóri DV, að þau hafi mátt þola tveggja sólarhringa áreitni, andlegt ofbeldi og hótanir frá fólki í kringum Jakob Frímann. Sömuleiðis segja þau barninu hafa verið beitt gegn þeim svo þau myndu hætta við birtingu fréttarinnar.

- Auglýsing -

Vildi bara hjálpa

Jakob Frímann hafnar því að nokkuð misjafnt hafi átt sér stað. Hann hafi einungis verið að reyna að aðstoða barnið, sem hafi verið fast í harðvítugri forræðisdeilu. Andleg heilsa barnsins hafi verið í hættu og það viljað ferðast til föður síns. Jakob segir móðurina hafa verið samþykka för barnsins í upphafi og hann hafi ekki haft neina ástæðu til þess að halda að það samþykki yrði afturkallað. Hann tjáir sig ekki sérstaklega um áreitnina frá hans innsta hring, sem blaðamenn DV lýsa.

Faðir barnsins, sem er sextán ára drengur, hefur nú gefið út yfirlýsingu vegna málsins. Faðirinn, Jón Ósmann, vísar þar á bug ásökunum um nokkuð misjafnt af hálfu Jakobs Frímanns. Ennfremur sakar hann DV um einhliða og særandi umfjöllun. Hann segir son sinn nú vera hjá sér, eftir að hafa hlaupist á brott frá móður sinni eftir erfið samskipti þeirra á milli. Jón segir son sinn ekki hafa verið notaðan í deilum við DV, þvert á móti hafi sonurinn sjálfur tekið umfjöllunina nærri sér og haft samband við blaðið að eigin frumkvæði. Hann hafnar því sömuleiðis að hafa áreitt blaðamennina og segir sín samskipti við viðkomandi hafa verið á kurteisum nótum.

- Auglýsing -

Aðeins hefur hluti gagna í málinu verið birtur, aðallega gögn frá utanríkisráðuneytinu og liprunarbréfið. Í gögnum frá utanríkisráðuneytinu segir að afturköllun liprunarbréfsins og afsökunarbeiðni ráðuneytisins til móðurinnar hafi ekkert með Jakob Frímann eða hans aðkomu að málinu að gera. Ráðuneytið taki hinsvegar ábyrgð á að hafa ekki kannað málið nægilega vel, til dæmis hvort samþykki móður lægi raunverulega fyrir.

Bæði blaðamenn DV og Jón Ósmann segjast búa yfir fleiri gögnum máli sínu til stuðnings og að þau verði birt ef þurfa þyki.

 

Nánar um málið

8. september 2021 

Upphafleg frétt DV kemur út með titlinum „Jakob Frímann sakaður um að beita blekkingum til að koma barni úr landi“.

Í fréttinni segir að Jakob Frímann sé til skoðunar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eftir að hafa verið sakaður um að beita blekkingum í þeim tilgangi að koma barni úr landi til föður síns, en faðirinn er búsettur erlendis og er vinur Jakobs Frímanns. Samkvæmt DV var það móðir barnsins sem tilkynnti málið til lögreglu.

Í frétt DV var Jakob Frímann sagður hafa sett sig í samband við utanríkisráðuneytið og óskað eftir því að ráðuneytið gæfi út svokallað liprunarbréf, til að auðvelda barni náins vinar Jakobs að komast utan til föður síns.

DV birti bréf Jakobs Frímanns til utanríkisráðuneytisins, en þar segir meðal annars að barnið þurfi nauðsynlega að komast til föður síns, málið sé barnaverndarmál og viðkomandi barn sé í miklum sálarháska. Þar segir einnig að barnið eigi bókað flug til föður síns nokkrum dögum síðar, en að forsenda þess að barnið fái landvistarleyfi í viðkomandi landi sé að utanríkisráðuneytið greiði götu feðganna og riti liprunarbréf þess efnis að mikið liggi við. Jakob Frímann skrifar neðar í tölvupóstinum tillögu að liprunarbréfi.

Neðst í bréfinu segir Jakob að allt sé þetta gert með fullu samþykki móður. Jakob Frímann skrifar svo undir bréfið sem fjölskylduvinur og ættingi.

Það var móðir barnsins sem hafði samband við DV og upplýsti um málið. Það kom á daginn að móðirin hafði ekki gefið leyfi fyrir málinu og var það allt sótt án hennar vitneskju. Á þessum tíma átti barnið lögheimili hjá móður sinni.

Það tók utanríkisráðuneytið aðeins nokkra klukkutíma að vinna liprunarbréfið og senda Jakobi Frímanni það, með opinberum stimpli. Þetta gerði ráðuneytið alfarið án þess að kanna sannleiksgildi bréfsins; það athugaði til að mynda ekki hvort málið og för barnsins utan væri með samþykki móður þess.

Ráðuneytið leiðrétti málið að lokum, afturkallaði liprunarbréfið og baðst afsökunar.

Forsvarsmenn utanríkisráðuneytisins tjáðu móðurinni að ekki væri hægt að kæra Jakob Frímann fyrir skjalafals þar sem hann hefði ekki falsað undirskrift hennar í bréfinu, heldur einungis sagt ósatt um vitneskju hennar og samþykki fyrir ferð barnsins.

DV birti í fréttinni afrit af fundargerð utanríkisráðuneytisins frá fundi þess með móðurinni þar sem farið er yfir málið.

Jakob Frímann er fyrrum starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Móðirin taldi að í málinu hefði hann notfært sér fyrrum stöðu sína og sambönd, sem og persónu sína sem þjóðþekktur einstaklingur.

17. september 2021

DV birtir yfirlýsingu frá Birni Þorfinnssyni, ritstjóra blaðsins og Erlu Hlynsdóttur, aðstoðarritstjóra. Það var sú síðarnefnda sem var skráð fyrir upphaflegu fréttinni þann 8. september.

Í yfirlýsingunni segjast þau, í kjölfar vinnu sinnar við fréttina, hafa mátt þola áreitni, hótanir og andlegt ofbeldi af hálfu fólks tengdu Jakobi Frímanni.

Að sögn hafi tveggja sólarhringa áreitni hafist stuttu eftir að Erla hafði samband við Jakob Frímann vegna fréttarinnar. Þau Björn hafi verið beitt miklum þrýstingi og kúgun til þess að hætta vinnu sinni við fréttina og þeim gert að sök að vilja eyðileggja stjórnmálaferil Jakobs Frímanns. Þau segja sömuleiðis að æðstu stjórnendur útgáfufyrirtækisins hafi verið beittir þrýstingi og blekkingum til þess að birting fréttarinnar yrði stöðvuð. Þau segja umræddu barni sömuleiðis hafa verið beitt í þessari herferð, en barnið hafi verið látið hringja í Erlu og senda pósta á stjórnendur fyrirtækisins. Blaðamönnunum var gefið að sök að ætla að velta sér upp úr forræðismálinu og eyðileggja líf barnsins. Að sögn var blaðamönnunum líka hótað því að birting fréttarinnar myndi hafa afleiðingar fyrir þau persónulega.

17. september 2021

Stuttu eftir að yfirlýsing DV kom út, sendi Jakob Frímann frá sér sína eigin yfirlýsingu. Þar segist hann hafna fullyrðingum blaðsins um greiðasemi sína og tilurð liprunarbréfsins.

Jakob Frímann segir í yfirlýsingu sinni að móðir barnsins hafi vitað af málinu og allt hafi það verið með hennar samþykki. Hann segir að lagt hafi verið fyrir hann bréf þess efnis í febrúarlok 2020.

Í yfirlýsingunni segir að vegna covid-tengdrar óvissu hafi förinni verið seinkað lítillega, en hann hafi svarað kallinu um leið og honum var tjáð að barnið væri komið með vegabréfið sitt, brottfarardag og farseðil í hendur. Hann hefði ekki haft neina ástæðu til að áætla að áður útgefin ferðaheimild móðurinnar yrði dregin til baka

Jakob Frímann segist ekkert hafa vitað um reiði móðurinnar í sinn garð fyrr en hann fékk fyrrnefnt símtal frá DV. Hann segir gögn liggja fyrir með upphaflegri ferðaheimild móðurinnar. Með yfirlýsingu sinni birtir hann einnig bréf utanríkisráðuneytisins til föðurins, en þar segir að afsökunarbeiðni ráðuneytisins hafi ekkert með aðstoð Jakobs Frímanns að gera, heldur það að ráðuneytið hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni nægilega vel í málinu. Ennfremur segir að enginn hafi verið vændur um ósannindi, falsanir eða slíkt af hálfu ráðuneytisins.

19. september

Yfirlýsing föðurins, Jóns Ósmanns, birtist í Mannlífi. Þar segir meðal annars að ferðaheimild hafi verið fyrir hendi þegar liprunarbréfið hafi verið gefið út og að móðirin hafi fengið bréfið í hendurnar á sama tíma og faðirinn og að í því hafi allt verið satt og rétt. Hann segir ennfremur að engin sérstök sambönd hafi þurft til þess að fá liprunarbréf, þau hafi á þessum tíma verið gefin út í stórum stíl vegna covidlokaðra landamæra um allan heim. Jón segir bréfið aldrei hafa verið notað og ferðin aldrei farin.

Jón sakar DV um að hafa skrifað fréttina alfarið út frá túlkun móður barnsins, sem er sextán ára drengur. Hann segir syni sínum þykja sárt að blaðið hafi ekki leitað álits hans á fréttinni. Drengurinn hafi reynt að koma sinni sögu af erfiðum samskiptum við móðurina á framfæri, en á hann hafi ekki verið hlustað.

Hann segir DV hafa lokað á son sinn á athugasemdakerfinu við seinni fréttina.

Jón Ósmann segir málið harmleik sem hafi endað með því að drengurinn hafi hlaupist að heiman frá móður sinni, en lögreglan hafi falið bróður Jóns að gæta sonarins þar til Jón kæmi sjálfur til landsins. Þeir feðgar hafi verið sameinaðir síðan. Jón segir að í málinu sé það móðirin sem sé gerandi, en hún hafi í fréttunum verið gerð að þolanda.

Jón tekur fram að hann hafi einungis rætt einu sinni við Erlu Hlynsdóttur í síma, fyrir birtingu fréttarinnar. Það hafi verið á góðum nótum. Þeir feðgar hafi síðan sent vinsamlega pósta á DV. Jón segir þá ekki hafa neitt að fela hvað það varðar og að viðkomandi póstar verði birtir ef þurfa þyki. Hann veltir fyrir sér hvort fjölmiðlar eigi ekki að hlusta á báðar hliðar í málum.

Enn engar skýringar á áreitni og hótunum

Líklega á fleira enn eftir að koma í ljós er varðar málið. Enn hafa engar skýringar borist hvað varðar áreitnina og hótanirnar sem blaðamenn DV lýsa. Jakob Frímann snertir ekki á því í yfirlýsingu sinni nema hvað varðar samskipti feðganna við DV, sem hann segist sjálfur ekkert hafa með að gera. Sömuleiðis er óvíst hvers vegna Jakob Frímann var fenginn til að hafa samband við utanríkisráðuneytið ef engin sambönd hafi verið nauðsynleg til þess að fá svo hraða afgreiðslu á liprunarbréfi.

 

Liprunarbréf eru bréf sem utanríkisráðuneytið útbjó til dæmis í stórum stíl eftir tilkomu Covid-19 sjúkdómsins. Bréfunum var ætlað að liðka til fyrir ferðalögum fólks sem nauðsynlega þurfti að komast til landa sem voru að þrengja landamæri sín á veirutímum. Í sumum löndum var ómögulegt fyrir fólk að fá landvistarleyfi öðruvísi en með formlegum og opinberlega stimpluðum liprunarbréfum utanríkisráðuneytisins.

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -