Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Gámur fullur af útrunninni kjötvöru Norðlenska: „Þessi staða er alls ekki ásættanleg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Um helgina birti Hrönn Hjálmarsdóttir myndir úr gámi frá Stórhöfða 23, sem er staðsettur nálægt húsakynnum Norðlenska. Gámurinn var fullur af útrunninni kjötvöru. Hrönn tók eina myndina um helgina, en hina fyrir um þremur vikum síðan.

„Hundruð kílóa af fullkomlega boðlegum mat/kjötvöru sem fer bara í urðun,“ sagði Hrönn í færslu sinni. Síðan þá hafa samtökin Vakandi, sem stefna að vitundarvakningu um sóun matvæla, deilt færslunni.

Í gámnum mátti finna mikið magn matvöru sem framleitt er af Norðlenska.

Mannlíf hafði samband við Andrés Vilhjálmsson, markaðsstjóra Kjarnafæðis og Norðlenska sem tók undir það að um mikla matarsóun væri að ræða.

Úr gámnum. Mynd: Hrönn Hjálmarsdóttir.

„Þetta er alls ekki gott. En þetta er í raun og veru það umhverfi sem við búum við í dag; það kostar okkur alveg gríðarlega mikið fjármagn, þessi skilavara. Það er skilaréttur hjá verslunum og ekki er það að hjálpa okkur að fermetrafjöldi verslana eykst og þá verður þetta alltaf dýrara og dýrara fyrir okkur.

Skil úr þessum verslunum kosta okkur um það bil 200 milljónir á ári. Af þessu er náttúrulega vara sem við getum ekki endurnýtt, hvort sem það er unnin vara og svo framvegis, álegg og annað. Ef við getum skorið það niður eða minnkað þá má náttúrulega að sjálfsögðu setja pening í það – en við getum illa tekið þetta allt saman á kassann.

- Auglýsing -

Fjárhagsstaðan hjá okkur leyfir það ekki, þannig að við þurfum eiginlega bara að ná versluninni með okkur í lið, þar sem ábyrgðin er náttúrulega þeirra líka. Það er ekki nóg að allar hillur séu fullar og svo öllu hent til baka sem ekki selst.

Þetta er bara alls ekki ásættanleg staða sem við búum við í dag,“ segir Andrés.

Hann segir að fyrirtækið hafi nú þegar brugðist við og varan muni fara norður, til höfuðstöðvanna. Það verði farið í gegnum skilavörurnar og þær flokkaðar „og það nýtt sem hægt er að nýta. Þetta er illviðráðanleg staða sem við búum við í þessu söluumhverfi.“

- Auglýsing -

Er þá ekki offramleiðsla á vörunni?

„Nei, ekki offramleiðsla. Við þurfum að framleiða það sem búðin vill. Erlendis er það nú oft á tíðum þannig að ef einhver vara klárast, þá bara klárast hún, en hér á Íslandi hefur það einhvern veginn tíðkast að allt þarf að vera til. Það er rosalega erfitt fyrir svona míkró-markað eins og Ísland er. Þannig að þetta er bara það sem við búum við, við höfum ekkert við því að segja. Ef varan er ekki til í einhvern tíma þá getur það gert okkur erfitt fyrir.“

Aðspurður segist Andrés halda að hægt væri að gera breytingar á markaðnum þannig að við gætum sætt okkur við það að hlutir kláruðust og sumt væri ef til vill stundum ekki til í verslunum.

„Já, það náttúrulega á kannski líka við um svo margt annað í neyslu og neysluhugsun fólks. Það eru ekki bara matvæli, heldur bara svo margt annað. Ef fólk fer að breyta hugsunarhætti þá fer eitthvað að gerast í svona málum, til dæmis. En eins og ég segi; þessi staða er alls ekki ásættanleg.

Þetta á við um öll þessi framleiðslufyrirtæki. Við erum strax búin að taka þetta mál inn á borð til okkar og byrjuð að reyna að leysa vandann.“

Þannig að þið eruð að vinna í þessu og sjá hvað er hægt að gera?

„Já. Bara strax. Og þetta er eitthvað sem var í umræðunni, að við þyrftum að fara að breyta og var að fara að breytast núna á næstu dögum varðandi þennan tiltekna gám. En, eins og ég segi, þetta er bara staðan sem við búum við.“

Veist þú hvort verslanirnar eru að vinna að því að breyta einhverju sín megin?

„Nei, en það hefur komið til tals inni á milli, hvernig við getum í samvinnu við smásala reynt að minnka matarsóun og skil. Þá þurfa bara báðir aðilar að vinna saman í því en við getum ekki tekið þetta allt saman á kassann. Fjárhagsstaðan hjá okkur myndi bara aldrei leyfa það.

Ein lausn er fólgin í því sem hefur verið að komast meira í verk, að hafa sér strikanúmer þegar vara er kannski að fara að renna út – að hún fari þá á útsölu.“

Það skal tekið fram að sumar verslanir standa öðrum framar hvað varðar það sem Andrés nefnir; að bjóða afslátt af vörum sem komnar eru nálægt síðasta söludegi. Þar má til dæmis nefna verslanir Krónunnar, sem bjóða ótal vörur á „síðasta séns“, á mikið lækkuðu verði.

Andrés Vilhjálmsson, markaðsstjóri Kjarnafæðis og Norðlenska. Mynd: Kjarnafæði.

Andrés segir að þær hugmyndir sem hafi áður verið ræddar miði að því að ábyrgðin verði á herðum beggja aðila; famleiðslufyrirtækja og verslana.

„Þetta er spurning um það að smásalinn og framleiðslufyrirtækin vinni saman að því að minnka þá kannski innsetningar og taka þátt í skilunum. Að báðir aðilar taki þátt í þeim. Þetta er eitthvað sem er meðvitað hjá báðum aðilum og hefur verið um langa hríð, sérstaklega hjá okkur náttúrulega. Við höfum ekki verið ánægð með þennan skilarétt og slíkt. Það bara er ekkert voðalega skemmtilegt, með þessa framtíðarsýn sem við höfum.“

Hverjar eru reglurnar um skilavöru?

„Sölumenn hjá okkur taka skilavöru til baka sem er útrunnin eða gölluð og við sendum hana strax norður. Í þessu tiltekna dæmi hefur þetta verið kannski vara sem ekki hefur verið hægt að endurnýta. Þannig að í staðinn fyrir að frakta hana norður með tilheyrandi kostnaði þá var þessi ákvörðun tekin á sínum tíma. En við reynum alltaf að fá alla okkar vöru um leið norður. Því miður hefur það náttúrulega verið að gerast inn á milli að varan sé að skila sér alltof seint, frá sumum aðilum. Þá er voðalega lítið sem við getum gert.

Hvernig hafið þið verið að endurnýta vörur sem rata norður?

„Það sem við getum endurnýtt er til dæmis úrbeinað; ef þú ert með grillkjöt og annað, það getum við endurnýtt og sett í frost. Það fer til mötuneyta. En þessi unna vara, eins og til dæmis kjötfars og álegg, og líka bara hakk og annað, það er því miður ekki hægt að gera mikið við það.“

Andrés segist endilega vilja heyra af því ef fólk hafi einhverjar lausnir á því hvernig hægt væri að bæta þennan vanda, til dæmis hvað varðar vinnsluvöru sem fallin er á tíma.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -