Alls gista níu í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Frá klukkan 17:00 í gærdag til 05:00 í morgun voru 70 mál skráð í kerfi lögreglunnar, samkvæmt dagbók hennar. Hér má sjá nokkur þeirra.
Tilkynning barst um átök milli manna á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur en þar hafði aðili hellt bjór yfir gesti og haft uppi ógnandi tilburði við dyraverði. Neitaði hann öllu er lögreglu bar að garði. Engar kröfur voru gerðar á kauða og hann beðinn um að halda til síns heima sem hann og gerði.
Í miðborginni lét ökumaður sig hverfa eftir árekstur. Gekk ökumaðurinn inn í íbúðarhús skammt frá virtist slompaður. Knúði lögregla dyra og ræddi við manninn. Var hann að lokum handtekinn, grunaður um ölvun við akstur og fyrir að vanrækja það að gera ráðstafanir við umferðaróhapp. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.
Aðili grunaður um að vera sölumaður dauðans (sala og dreifing fíkniefna) var hantekinn í miðborginni og handtekinn í þágu rannsóknar málsins.
Þá var lögreglan kölluð til þegar ofbeldismaður réðist að dyraverði skemmtistaðar í miðbæ Reykjavíkur. Þegar lögreglu bar að garði hélt aðilinn uppteknum hætti og sparkaði í lögreglumenn og vegfaranda sem átti leið hjá. Var hann því settur í handjárn og fluttur á lögreglustöð. Þar var allt gert til þess að ræða við manninn en bræði hans var slík að það bar engan árangur. Var hann því vistaður í fangaklefa í þágur rannsóknar málsins.
Einn var hantekinn grunaður um að vera hér á landi ólöglega en hann var vistaður í þágu rannsóknar málsins.
Annar ofbeldisseggur var handtekinn á skemmtistað í miðborginni en hann hafði ráðist að öðrum gesti skemmtistaðarins. Brást hann illa við afskipum lögreglu og reyndi að hrækja og bíta lögreglumenn. Hélt hann uppteknum hætti við komu á lögreglustöðina og var vistaður þar þangað til hægt er að eiga við hann samtal.
Aðili gekk berserksgang í verslunarmiðstöð í Hafnarfirði og var óskað eftir skjótrar aðstoðar. Var berserkurinn handtekinn og vistaður í fangaklefa grunaður um húsbrot, eignaspjöll og vörslu ávana- og fíkniefna.
Lögreglan sem annast Hafnarfjörð, Álftanes og Garðabæ kærði þrjá ökumenn fyrir of hraðan akstur en sá hraðasti ók á 145 km/klst þar sem hámarkshraði var 80 km/klst.
Lögreglan í Kópavogi og Breiðholti þurfti aðallega að sinna umferðarmálum en tveir ökumenn voru kærðir fyrir að aka án réttinda en málin voru afgreidd á vettvangi. Þá var einn handtekinn grunaður um ölvunarakstur og fyrir að aka á sviptum ökuréttindum. Var hann fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Lögreglan sem annast Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ var send til aðstoðar eftir að flugeldur sprakk í höndinni á aðila. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Málið er í rannsókn.