Miðvikudagur 24. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

„Giggari eitthvað sem hefur verið til lengi en höfum kallað það annað – Ný staða á vinnumarkaði“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Árið 2020 var 33% vöxtur á svokölluðum „giggstörfum“ á heimsvísu og samkvæmt rannsókn McKinsey myndi einn af hverjum sex starfsmönnum í hefðbundnu starfi helst vilja starfa sjálfstætt.

Spár gera ráð fyrir gífurlega hröðum vexti gigg-hagkerfisins á næstu árum.

„Það má segja að það sé komin upp ný staða á vinnumarkaði,“ segir Harpa Magnúsdóttir sem er stofnandi og framkvæmdastjóri Hoobla klasans, samfélag giggara á Íslandi og bætir við:

„Við heyrum í fréttum að það sé mikil hreyfing á vinnumarkaði um þessar mundir og fólk er að skipta um störf, mögulega vegna þess að fjarvinnan í Covid hefur skapað betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og það finnur að það vill í auknum mæli stjórna tíma sínum sjálft.“

Þá var rætt var við Árelíu Eydísi og Herdísi Pálu í Morgunútvarpinu á Rás 2 um sama efni.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs- og mannauðsstjóri hjá Deloitte á Íslandi
Völundarhús.is

Árelía Eydís Guðmundsdóttir dósent við Háskóla Íslands og Herdís Pála Pálsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs- og mannauðsstjóri hjá Deloitte á Íslandi sendu nýverið frá sér bókina Völundarhús tækifæranna.

- Auglýsing -

Þar fjalla þær um byltingu svonefndra giggara á vinnumarkaði. Þær segja þjóðina standa á áhugaverðum og ögrandi tímamótum á vinnumarkaði og að tæknin hafi sjaldan stutt einstaklinga jafn vel í að selja þjónustu sína og þekkingu.

„Fyrirtæki taka æ stærri skref í stafrænni byltingu til að bæta þjónustu, auka hraða, minnka sóun og fleira. Það eru þessir giggarar sem við erum að ræða um, fólk sem kemur inn í fyrirtæki og tekur að sér ákveðin verkefni.“

Spennandi fyrir bæði launþega og fyrirtæki

Herdís og Árelía hafa haldið námskeið þar sem markmiðið er að endurforrita huga fólks og hrista upp í því. Þar er farið yfir það til dæmis hvernig á að koma sér á framfæri, hvernig á að halda utan um verkefni og ýmislegt í þeim dúr:

- Auglýsing -

„Árelía nefndi áðan orðið hugrekki og það er gott orð.

Ef við snúum þessu við og horfum á fyrirtækin og stjórnendur held ég að þetta sé líka gott því það getur þurft hugrekki til að vera stjórnandi á vinnustað og þurfa að breyta um stjórnunaraðferðir,“ segir Herdís.

„Það er oft talað um að þetta sé spennandi fyrir einstaklingana en þetta er líka fyrir fyrirtæki. Við vitum að verkefnaálag er mismikið eftir árstíma á mörgum vinnustöðum og það er mikilvægt að hafa aðgengi að öflugum hópi giggara til að kalla inn þegar það er mikið álag, án þess að fara í langtímaráðningarsamband.“

Hoobla.is/Skjáskot/VÍSIR

Sífellt fleiri möguleikar

Í skrifunum byggja þær á rannsóknum sem hafa verið gerðar erlendis líka:

„Rannsóknin sem við gerðum hér heima tók svo sem ekki mörg ár, en við gerðum rannsókn meðal þeirra sem eru að gigga og og töluðum líka við stjórnendur í stórum íslenskum fyrirtækjum og forystumenn stéttarfélaga,“ segir Árelía.

Herdís segir að orðið giggarar virðist strjúka sumum öfugt og einhverjir eigi erfitt með að skilja hvað í því felist.

„Við höfum verið að nota verktaki og sjálfstætt starfandi, en nú er komið orðið giggari,“ segir hún og lýsir giggi sem afmörkuðu tímasettu verkefni.

„Það er vel skilgreint og hefur upphaf og endi, þannig að giggari er kannski eitthvað sem hefur verið til mjög lengi en við höfum kallað það annað.“

Sífellt eru að opnast fleiri möguleikar fyrir giggara og vinnuveitendur að þiggja þjónustu þeirra.

Það er allt í lagi að taka allskonar u-beygjur

„Það er mestur vöxtur í þessum störfum. Einn þriðji af japönskum vinnumarkaði eru giggarar og þeir eru orðnir fleiri en opinberir starfsmenn í Bretlandi,“ bendir Herdís á.

Einnig sé mikill vöxtur í Bandaríkjunum og rúmlega 15 prósent af erlendum vinnumarkaði þar í landi séu sjálfstætt starfandi giggarar.

Titill bókarinnar er sem fyrr segir Völundarhús tækifæranna og í því er hægt að fara bæði fram og til baka samkvæmt höfundum.

„Þú ert ekkert alla ævi launþegi eða giggari, þú getur blandað þessu saman eða verið tímabundið launþegi og svo giggari og fram og til baka,“ segir Herdís.

„Þetta er ekki þannig að þú menntar þig, ferð í ákveðið starf og svo á eftirlaun. Það er allt í lagi að taka allskonar u-beygjur og krúsídúllur, það er skemmtilegt. Við getum nýtt reynslu úr einu fagi í allt annað fag, með því bara að finna hvaða element það eru í fyrri störfum eða námi sem hægt er að nýta annars staðar.“

Að þeirra sögn á þetta þó misvel við eftir greinum, en þó mun víðar en margir halda.

Enginn getur sagt þeim upp

Sum óttast að fara úr öryggi „stabílu“ 9 til 5 vinnunnar í giggastarf þar sem þau sjá fyrir sér að verða í lausu lofti.

Árelía segir að þetta krefjist ákveðinnar hæfni og jafnvel hugrekki sem ekki sé kennd í skólum, en líka þess að fólk sé skipulagt.

„Giggari þarf að kaupa af öðrum giggurum allskonar þjónustu, markaðssetningu, endurskoðanda, tæknileg úrvinnsluefni. Þú þarft að verða eins og semí fyrirtæki utan um sjálfan þig, en líka hafa hæfni til að tengjast fólki og skipuleggja þig þannig að þú sért ekki bara einn úti í horni og skríðir svo úr hellinum þínum,“ segir hún.

Það færist í aukana að fólk vinni ólík störf í sameiginlegum vinnurýmum þar sem það hefur félagsskap frá öðrum:

„Við þurfum öll á því að halda að fá að kasta hugmyndum á hvert annað því þannig í raun erum við meira skapandi.“

Herdís tekur undir og bendir á að sumir þátttakendur í þeirra rannsókn hafi bent á að þeir hafi aldrei upplifað eins mikið öryggi og þegar þeir fóru að vinna hjá sjálfum sér:

„Því það gat enginn sagt þeim upp,“ segir hún.

Bætir við:

„En þetta er ekki einfalt og hentar ekki öllum, en fyrir þá sem fara af stað og gera þetta vel og nýta allt sem Árelía segir, er það reynsla þeirra sem hafa verið að gigga, og jafnvel gigga um árabil, að ánægjan var mikil. Menn voru búnir að ná að skapa sér öryggi og tekjuflæði og eins og einn sagði: Ég ræð hvar ég er hverja stund og hvað ég er að gera.“

Í völundarhúsi tækifæranna felast ýmis tækifæri, margir geta til að mynda farið erlendis, unnið hvar sem er, hvenær sem er og með hverjum sem er á markaðstorgi þekkingar að sögn Árelíu.

Hún bendir á mikilvægi þess að giggurum séu tryggð veikindaréttindi þrátt fyrir skammtímaráðningu:

„Við þurfum að finna gagnkvæman ávinning í öllu þessu.“

Hoobla klasinn íslenskt fyrirtæki til að efla tengslamyndun giggara

Ljósmyndari: Silla Páls

Harpa Magnúsdóttir stofnandi og framkvæmdastjóri Hoobla klasans segir fjölgun giggara í heiminum hreinlega byltingarkennda. Giggarar er fólk sem starfar sjálfstætt en nýleg rannsókn McKinsey sýnir að einn af hverjum sex starfsmönnum langar helst til að starfa sjálfstætt frekar en sem hefðbundinn launþegi. Fjarvinnan skapar ný tækifæri en eins er sístækkandi hópur sem vill geta stjórnað sínum tíma betur sjálfur.

Hoobla ehf. var stofnað 17. júní 2021. Það þótti við hæfi að stofna fyrirtækið á þeim degi þar sem Hoobla er samfélag sjálfstætt starfandi einstaklinga og fyrirtækja sem taka að sér verkefni til skemmri eða lengri tíma. Hoobla aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að finna rétta aðilann í verkefnið og er á sama tíma stuðningsnet fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga og fyrirtæki.

 

Verkefnin eru að breytast – verkefni leggjast af og önnur verða til

Stefnan er að innan Hoobla samfélagsins megi finna reynslubolta í bland við fólk með minni reynslu sem á það sameiginlegt að brenna fyrir sérkunnáttu sinni. Þá geta þeir reynsluminni unnið ýmist saman með þeim reynslumeiri eða tekið að sér minni verkefni og öðlast þá smátt og smátt reynslu. Því geta fyrirtæki og stofnanir fundið það sem þau leita að.

„Þegar ég fór að skoða þá þróun sem er að eiga sér stað á heimsvísu sá ég að störf giggara eru í miklum vexti og þá taldi ég víst að störf giggara yrðu næsta bylting sem verður á vinnumarkaði. Ísland er ekkert öðruvísi en önnur lönd, við viljum vera samkeppnisfær á markaði og á meðan bæði fyrirtæki og einstaklingar búa yfir þeirri þörf að vera í stöðugum vexti þá þróast markaðurinn áfram. Þróunin er í þessa átt. Verkefnin eru að breytast, sum verkefni leggjast af og önnur verða til.“

Harpa segir Hoobla gagnast öllum tegundum vinnustaða, en þó sérstaklega smærri og milli stórum fyrirtækjum og fyrirtækjum í vexti.

„Þessir aðilar geta leitað til Hoobla, sér að kostnaðarlausu, og Hoobla aðstoðar við að finna rétta aðilann í verkefnið. Hoobla leitast við að bjóða fram fyrsta flokks sérfræðinga og tekur ávallt viðtöl við þá sérfræðinga sem sækjast eftir að starfa með Hoobla og leitar meðmæla eftir að verkefnum þeirra er lokið,“ segir Harpa.

Hoobla vinnur þó ekkert síður að því að efla tengslamyndun giggara:

„Þegar ég var með Hoobla á hugmyndastigi hitti ég marga sérfræðinga, stjórnendur og giggara til að skoða hvort það væri jarðvegur fyrir Hoobla, og tilfinningin var þannig að ég fann að þetta var bara eitthvað sem ég varð að gera. Hugmyndin þróaðist áfram eftir því sem ég hitti fleira fólk og lendingin var að búa til klasa fyrir giggara. Klasinn væri þá styðjandi fyrir giggarana, styddi þá áfram við að fá verkefni, styddi þá áfram faglega, félagslega og markaðslega.“

Harpa segir líka mikilvægt að Ísland fylgi með í þeirri þróun sem nú er í gangi á heimsvísu.

„Það má alveg segja að það sé bylting í gangi á alþjóðlegum vinnumarkaði og gigg-senan og Hoobla eru partur af þeirri vegferð.“

 

Heimild:

Hulda G. Geirsdóttir, Júlía Margrét, Einarsdóttir, Rúnar Róbertsson. 2021, 16. september. Giggarar upplifa starfsánægju og öryggi. Morgunútvarpið á Rás 2.

Rakel Sveinsdóttir. 2021, 16. desember. „Á heimsvísu fjölgar giggurum stórkostlega.“ Vísir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -