Laugardagur 4. desember, 2021
-5 C
Reykjavik

Gísli á Uppsölum varð frægur eftir heimsókn Ómars: Einbúinn sem hafði hvorki vatn né rafmagn.

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Gísli Oktavíus Gíslason, betur þekktur sem Gísli á Uppsölum, varð þjóðþekktur eftir heimsókn sem hann fékk frá Ómari Ragnarssyni. Áður hafði reyndar Árni Johnsen blaðamaður tekið viðtal við hann fyrir Morgunblaðið en það fékk ekki sömu athygli og viðtal Ómars.
Gísli fæddist 29. október 1907. Faðir Gísla, Gísli Sveinbjörnsson, dó þegar hann var aðeins lítill drengur, eða níu ára gamall.
Bjó Gísli um nokkurt skeið með móður sinni, Gíslínu, og þremur bræðrum að Uppsölum.

Gísli var einbúi og bóndi í Selárdal á Vestfjörðum. Enn hafa ekki fengist svör við því hvers vegna hann einangraðist. Líklegast þykir að Gísli hafi annaðhvort einangrað sig sjálfur eða honum útskúfað úr samfélaginu fyrir það eitt að vera öðruvísi en flest fólk.
Eitt er þó vitað og það er að Gísli hafi ekki verið ánægður með aðstæðurnar sem hann bjó við. Þá hafi Gísli fundið til einmanaleika þar sem hann bjó, einn á afskekktum stað ár eftir ár.

Ómar Ragnarsson heimsótti Gísla í Stikluþætti. Þátturinn var frumsýndur á jóladag árið 1981 og vakti hann mikil viðbrögð. Fólki fannst það ýmist hafa fengið innsýn í fortíðina og séð hvernig fólk hefði búið áður fyrr eða varð gríðarlega ósátt og misboðið.
Einn þeirra sem gagnrýndi þáttinn var Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Sagði hann þáttinn vera „Ómars versta axarskaft“, og furðaði sig á því að fólk hrifist af þættinum.
„Þarna er maður sem er hreinlega fatlaður, utanveltu og veit ekkert hvaðan á sig stendur veðrið. Þá kemur allt í einu einhver maður að sunnan með græjur og eltir hann um túnið og hann hrökklaðist undan honum eins og sært dýr. Mér fannst þetta óskaplega sorglegt,“ sagði Þorbjörn.

Gísli bjó við afskaplega slæmar og erfiðar aðstæður. Hafði hann hvorki rafmagn né rennandi vatn og sagði hann sjálfur í þættinum að dimmt væri frá nóvember til mars eða apríl.
Þá sótti hann vatn í lækinn og slátraði lömbum sjálfum sér til matar.
Í bænum þar sem Gísli bjó mátti sjá hina ýmsu muni sem voru orðnir afskaplega lúnir. Þá var hann með orgel sem hann aðeins spilaði á þegar birta var næg. Í rúmi hans var sauðargæra sem hélt á honum hita. Ljóst er að Gísli hafði þurft að þola marga harða og kalda vetur í þessum aðstæðum en hann hitaði bæinn upp með því að kveikja eld.

Ólafur Gíslason, á Neðribæ, og Ásta, kona hans, höfðu hvað mest samneyti við Gísla.
„Þetta er hans lífsmáti og það er svo teygjanlegt hugtak hvað er eðlilegt og hvað ekki,“ sagði Ásta við Ómar er hann spurði út í nágranna þeirra.

Gísli hugsaði vel um kindurnar sínar. Fór hann út í öllum veðrum, gaf þeim hey og missti þar aldrei dag úr. Þá rak hann þær út og inn úr fjárhúsinu allt árið um kring. Eitt sinn átti Gísli belju en voru tíu ár síðan hún dó þegar Ómar heimsótti hann.
Hann sagðist prjóna og lesa á daginn ef hann var ekki að sinna kindunum.

- Auglýsing -

Gísli á Uppsölum lést á gamlársdag, 31. desember árið 1986. Bærinn lagðist í eyði í kjölfarið. Þá hafa fjölmargir gert sér ferð að bænum til þess að berja staðinn augum.

Hægt er að sjá þátt Ómars um Gísla á Uppsölum á Youtube.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -