Alls staðar þar sem Gísli Marteinn fer fylgir forvitni. Hvaðan kemur þessi mikli áhugi á samfélaginu og þessi forvitni?
„Varðandi borgarmálin þá kom áhuginn á Reykjavík sjálfri alltaf á undan stjórnmálunum. Ég hef aldrei haft neinn einasta áhuga á að vera á Alþingi en hef haft brennandi áhuga á borgum mjög lengi. Það gerist ekki af því að ég hafi mikinn áhuga á reiðhjólum eða strætó, heldur þvert á móti þá heillaðist ég svo rosalega af risavöxnum fimm hæða mislægum gatnamótum í Bandaríkjunum þegar ég var þar með foreldrum mínum tólf ára,“ segir Gísli í í helgarblaði Fréttablaðsins og bætir við: „Ég vildi fá mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut.“
Hann viðurkennir einnig að háhýsi hafi líka heillað hann og geri í raun enn, þar sem þau eigi heima. Hann spilaði SimCity og naut þess að byggja þar upp borgir og sjá uppbygginguna birtast fyrir augum sér. Hann áttaði sig þó smám saman á því að fleiri hliðar voru á flóknum málum en hann hafði tekið með í reikninginn.
Lýsir Eurovision og vakir til morgun til að sjá atkvæðin í borgarstjórakosningum
„Þessi dagur verður stórkostlegur, ég hlakka mjög mikið til,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og borgaraktívisti, sem lýsir Eurovision í kvöld og vakir svo í kjölfarið til morguns í Tórínó til að sjá hvar atkvæðin í borgarstjórnarkosningunum lenda.
Gísli var sjálfur borgarfulltrúi í áratug. Hann menntaði sig í borgarfræðum í Edinborg og Harvard, var ár á báðum stöðum, og ástríða hans fyrir Reykjavík hefur varla farið fram hjá neinum.
Viðtalið í heild sinni má lesa á Fréttablaðinu.