Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaðurinn knái, er harður stuðningsmaður þess að Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur úr Vatnsmýrinni.
Á Twitter í dag segir Gísli Marteinn íbúabyggð í Vatnsmýri vera umhverfisvænustu framkvæmd sem Reykjavíkurborg geti ráðist í. Hann leggur til að Keflavíkurflugvöllur taki við innanlandsflugi á meðan ríkið finni aðra lausn, ef þurfa þyki. Hann segir svo lest eiga að ganga á milli Reykjavíkur og Keflavíkur.
Í annarri færslu frá 2017, sem Gísli Marteinn hefur fest efst á Twitter-síðu sína, deilir hann mynd eftir Halldór úr Fréttablaðinu, þar sem gefur að líta flennistórar flugbrautir með tveimur farþegavélum, með miðbæinn í baksýn. Efst á myndina er skrifað: „Húsnæðisskorturinn í miðbæ Reykjavíkur“.
Gísli segir Halldór hitta naglann á höfuðið með myndinni.
„Amk 10 þúsund íbúðir gætu verið í #102rvk en er í staðinn einkastæði fyrir einkaþotur.“
Hlammi nokkur er ekki á sama máli og Gísli Marteinn, en hann skrifar eftirfarandi athugasemd við tíst dagsins frá Gísla:
„Hvað með sjúkraflug fyrir landsbyggðina? Finnst eins og að það ætti að vera heilsteypt plan til staðar hvað það varðar soldið langt að keyra frá KEF í Fossvoginn.“
Jens tekur boltann og svarar Hlamma:
„Prófaðu að hugsa þetta úr hinni áttinni: Myndi einhver heilvita planta flugvelli við hliðina á spítalanum ef hann væri ekki þegar þarna? Hefurðu séð það einhvers staðar gert annars staðar?“
Hólmfríður er ósammála því að flugvöllurinn skuli burt úr Vatnsmýrinni:
„Sönn orð einhvers sem hefur ekki búið á landsbyggðinni og þekkir ekki til tilfella þar sem staðsetning flugvallar hefur bjargað lífi. Við þurfum betri lausn en KEF flugvöll.“
Á þessu ári voru 20 ár síðan Reykvíkingar greiddu atkvæði um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Niðurstöður kosninganna voru að naumur meirihluti borgarbúa vildi flugvöllinn burt úr Vatnsmýri. Heilum 20 árum síðar situr flugvöllurinn enn sem fastast, en aðalskipulag Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að hann víki þaðan í áföngum.
Jón Kaldal tjáir sig sömuleiðis um flugvallarmálið á Twitter í dag:
„Þeir stjórnmálamenn sem hafa staðið í vegi fyrir því að flugvöllurinn fari bera þunga ábyrgð. Vilji borgarinnar hefur verið skýr um árabil.“
„Langhagkvæmast fyrir skattgreiðendur í Reykjavík að byggja ný hverfi Vatnsmýri frekar en að þenja borgina út. Líka margfalt betra fyrir umhverfið og þá sem munu búa í 102. Verður raunverulegur valkostur fyrir fjölskyldur að sleppa bíl en úthverfin kalla jafnvel á tvo,“ segir Jón.