Fimmtudagur 11. ágúst, 2022
8.8 C
Reykjavik

Grétar skaut stúlku til bana á Skeiðarársandi – Stúlkan bað í sífellu um hjálp og reyndi að kalla

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Þann 16. ágúst 1982 fannst 21 árs gömul stúlka skotin til bana á Skeiðarársandi á Suðausturlandi. Hin látna reyndist vera Yvette Bahuaud, franskur ferðamaður.

Þakkir til „sheriffsins“

Systurnar Yvette og Marie Luce Bahuaud, 29 ára, voru staddar saman á Íslandi að ferðast um landið. Þær systur stóðu við afleggjarann að Höfn í Hornafirði og ætluðu sér að húkka þar far áleiðis inn í Skaftafell. Þar tók Grétar Sigurður Árnason, sem þá var á fimmtugs- aldri, stúlkurnar upp í og bauðst til að aka þeim. Sagðist hann starfa við að gæta öryggis á vegum og ók hann bíl sem systurnar héldu að væri lögreglubíll.
Hann keyrði stúlkurnar að sæluhúsi á Skeiðarársandi, þar sem hann skildi við þær án nokkurra málenginga og hélt leiðar sinnar.

Sæluhúsin sem systurnar gistu í

Stúlkurnar fengu sér kvöldmat og skrifuðu í gestabók sæluhússins þar sem þær þökkuðu „sheriffnum“, eins og þær kölluðu Grétar, fyrir að hafa ekið þeim þessa löngu leið. Fóru þær svo að sofa.

Veitti henni þung högg

Grétar kom hins vegar aftur í sæluhúsið síðar um kvöldið.
Samkvæmt vitnisburði Marie vöknuðu þær systur við að Grétar stæði við dyrnar á sæluhúsinu þar sem þær sváfu, með riffil í annari hendi og vasaljós í hinni. Hann tilkynnti stúlkunum að þær ættu að koma með sér til Hafnar þar sem lögreglan á Akureyri hafi sagt honum að þær reyktu hass og beðið hann um að taka þær.
Marie sagði hann hvorki hafa litið út fyrir að vera æstur né undir áhrifum vímuefna.

- Auglýsing -

Systurnar neituðu að fara með honum og sögðust ekki reykja hass. Hann hélt áfram að reyna fá stúlkurnar með sér en án árangurs og tók hann þá að reiðast, að sögn Marie. Endaði það með því að hann fór út og kom inn aftur með stein eða málmhlut sem hann sló Marie í höfuðið með og réðst því næst á Yvette sem flúði grátandi út.

Þá réðst Grétar aftur að Marie og veitti henni nokkur mjög þung högg sem leiddu til þess að hún missti meðvitund.

Lét sem bílslys hefði átt sér stað

- Auglýsing -

Eftir að Marie komst aftur til meðvitundar sagðist hún hafa heyrt systur sína hrópa, síðan heyrði hún skot, annað hróp og svo annað skot. Stuttu síðar heyrði hún bíl vera settan í gang.

Grétar hafði þá fundið Yvette við afleggjarann að Sæluhúsinu. Og taldi saksóknari málsins að hann hafi skotið hana þá af fullkomnum ásetningi, með haglabyssu, af 35 til 40 metra færi. Í þann mund kom þar að flutningabíll.
Grétar náði hins vegar að blekkja bílstjórann sem var landvörður og sagðist hafa keyrt á stúlkuna og bað hann um að sækja aðstoð.

Samkvæmt bílstjóranum mætti hann grænum Mercedes Benz og fyrir utan bílinn hefði legið stórslösuð stúlka og ökumaðurinn. Stúlkan bað í sífellu um hjálp og reyndi að kalla eitthvað, en bílstjórinn fór að sækja aðstoð enda hafði hann enga ástæðu til að vefengja frásögn mannsins um að þarna hefði orðið bílslys. Því ók hann í flýti upp í Skaftafell og fékk þar aðstoð lögreglunnar.

Náði að staulast út

Lögreglumaður og landvörðurinn fóru saman í átt að meintum slysstað, en þar var engan að finna. Þeir óku áfram og birtist þá skyndilega stúlka í ljósgeisla lögreglubílsins, var þar Marie á ferð.

Eftir að Marie komst til meðvitundar hafði hún því náð að staulast út úr sæluhúsinu og niður að vegi. Blessunarlega fann lögreglan og landvörður hana og var Marie flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hún gekkst undir höfuðaðgerð vegna áverkanna sem hún hlaut.

Lík Yvette finnst

Snemma næsta dag fannst bifreið Grétars við Neskvísl við Svínafellsjökul. Var hann hvergi að finna en í skotti bifreiðarinnar fannst lík frönsku stúlkunnar. Voru á því miklir áverkar og skotsár.

Staðurinn þar sem bíll Grétars fannst. Við bíl hans stendur lögreglubíll og er gæsluþyrla að hefja sig til lofts í leitarflug.

Var Grétars leitað í sólarhring þangað til hann fannst neðarlega í hlíðum Hafrafells, neðan Illukletta. Hafði hann hlaðið sér byrgi þar. Sýndi hann engan mótþróa að koma með leitarmönnunum og afhenti skopvopn sín möglulaust, en þegar hann fannst var hann vopnaður riffli og haglabyssu.

Játaði hann bæði að hafa banað Yvette og veitt systur hennar höfuðáverka.

Þann 28. Júní 1983 var hann dæmdur til 16 ára fangelsisvistar.

Grétar fluttur í Hegningarhúsið
Ljósmynd: DV

Hótaði að nota skotvopn sitt

Grétar bjó um tíma á Akureyri, en þar hafði lögregla haft afskipti af honum og þótt ástæða til að taka af honum byssu. Var það gert af öryggisástæðum en hann þótti ofbeldishneigður og hafði haft í hótunum um að nota byssuna.
Einnig hafði Grétar komið við sögu lögreglunnar vegna ávísanamisferlis og víxilsvika og er hann sagður hafa hrökklast til Danmerkur vegna fjármálamisferlis. Þaðan hafi hann svo flutt í Öræfasveitina.

Baksýnisspegill þessi birtist áður þann 7. júlí 2021.

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -