Rétt fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í Kópavogi. Maður nokkur notaði ódýr strikamerki á sjálfsafgreiðslukassa í stað þess að skanna inn vörurnar. Ekki var þetta í fyrsta skiptið sem maðurinn notar þessa aðferð en verslunin var með 46 mál á sínu borði og er talið að sami einstaklingur standi á bakvið þau öll.
Tilkynnt var um tvö innbrot í Múlahverfi. Um klukkan hálf átta í gærkvöldi var brotist inn í íbúðahúsnæði og skartgripir teknir ásamt öðrum verðmætum. Rúmum klukkutíma síðar var brotist inn í bílskúr. Talið er að tveir menn hafi brotið upp hurð og borið út muni. Mennirnir voru farnir þegar lögreglu bar að.
Í Árbæ var bifreið stöðvuð og er ökumaðurinn grunaður um ólöglega sölu áfengis. Ökumaðurinn játaði að hafa selt manni þrjá brúsa af áfengi. Honum var sleppt að lokum skýrslutöku.