Laugardagur 26. nóvember, 2022
4.1 C
Reykjavik

Guðmundur Kristjánsson í Brimi spáir endalokum kvótakerfisins: „Það deyja allir“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

„Ertu undir eiði blaðamanns,“ spurði Guðmundur Kristjánsson útgerðarmaður, oft kenndur við Brim, í upphafi viðtals við blaðamann Stundarinnar, Ölmu Mjöll Ólafsdóttur. Var hann þá búinn að spyrja ítarlega um menntun og réttindi viðkomandi, hvernig maður fái starf sem blaðamaður og hvort ekki þurfi löggildingu til.

Þungamiðja viðtalsins er eignarhlutur Guðmundar af fiskveiðikvóta í íslenskri útgerð. Guðmundur svaraði öllum spurningum blaðamanns, en í raun má velta fyrir sér hvort blaðamaður hafi verið nokkru nær í lok viðtals. Þó má segja Guðmundi til hróss að hann svarar símanum sjálfur, í stað þess að tefla fram einhverjum lágt settum hirðmanni.

„Þú verður að senda mér útreikningana svo ég viti þetta. […] Ég hef bara ekki hugmynd um það. Pæli ekkert í því,“ sagði Guðmundur beðinn um viðbrögð við þeirri fullyrðingu að hann ætti 7,7% alls kvóta á Íslandi, stærstan hluta allra einstaklinga: „Ég hef bara gaman af því að vera í útgerð“.

Aðspurður hvort honum fyndist kvótinn vera að safnast á fáar hendur sagði Guðmundur að sagan sýndi að völd og verðmæti lentu á einhverjum tímapunkti í kjöltu ákveðinna karaktera; ráðamanna, bankastjóra, kirkjuleiðtoga eða skólastjóra. „Svo springur það allt aftur. […] En kvótinn er bara veiðiréttur sem fiskiskip eiga. Svo má hver sem er eiga fiskiskipið. […] Svo springur þetta af því að það enda allir á sama stað, undir sex fetunum. Það deyja allir.“

Þegar blaðamaður þrýsti á Guðmund um svör vegna 7,7% eignarhluta hans í veiðikvóta og upplýsti hann um að fimmtán manns ættu meira en 1% og næsti maður fyrir neðan hann ættu 2,4%, svaraði Guðmundur: „Ég er þá kannski bara skrýtinn.“ Guðmundur benti blaðamanni á að hann ætti þetta kannski ekki allt því hann væri hluthafi með öðrum í félagi: „Sumir hafa gaman af því að reikna allt mögulegt […] sem þú getur túlkað á alla vegu líka“.

Undir lok viðtals ítrekaði blaðamaður að persónulegur hlutur Guðmundar væri 7,7%; það hefði verið reiknað út og svaraði Guðmundur að bragði: „[É]g pæli ekkert í þessu og það er gaman að vera í útgerð.“

- Auglýsing -

Þess má geta að í umfjöllun Stundarinnar segir að stærsta blokkin í útgerð á Íslandi samanstandi af Samherja hf., Síldarvinnslunni, Bergi-Hugin, Gjögri og fleirum, og 20,49% kvótans heyri undir hana. Í öðru sæti er samstæða Útgerðarfélags Reykjavíkur, Brims, Ögurvíkur og fleiri með 15,62%. Þriðji risinn, en jafnframt sá minnsti, samanstendur af FISK-Seafood, Vinnslustöðinni og fleirum með 10,81%.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -