Laugardagur 25. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Guðni Ágústsson í Mannlífinu: „Nú er ég kominn með dauðann í skrokkinn.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Ágústsson, fyrrum ráðherra, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins, var gestur Reynis Traustasonar í hlaðvarpinu Mannlífið á dögunum.

Guðni hefur þurft að taka heilsu sína í gegn, en fyrir nokkrum árum greindist hann með sykursýki 2. Guðna var verulega brugðið þegar hann fékk greininguna.

Ég var nú svona feitur skrokkur orðinn, stjórnmálamaður sem hafði fitnað mjög á því tímabili. Ég man eftir því þegar ég var að verða þingmaður og faðir minn var að deyja, Ágúst á Brúnastöðum, sem þekkti þetta á eigin skinni. Þá lá hann sína banalegu þegar ég var varamaður inni á þingi 1986. Ég kem til föður míns, með Þráin Valdimarsson. Margrét er þar og fullt af fólki. Ég er búinn að vinna prófkjör.

Þráinn segir við Ágúst, sem er mjög veikur þegar þetta var en andlega heill: „Ágúst minn, nú er hann bara að verða þingmaður, strákurinn. Hvernig líst þér á það?“

„Hann klórar sig fram úr því,“ segir faðir minn. „Hann klórar sig fram úr því, en ég hef bara áhyggjur af öðru,“ með sinni djúpu, miklu rödd. Helmingi dýpri en mín og hljómmeiri. Það setur alla hljóða og Þráinn segir: „Hverju hefurðu áhyggjur af Ágúst minn?“

„Ég hef bara áhyggjur af því að hann verði of feitur!“ Svo tekur hann í hendina á Margréti og segir: „Margrét mín. Sjáðu nú um það að halda í við hann í mat og drykk.“

- Auglýsing -

Síðustu skilaboðin. Ég varð samt 105 kíló. Ég gleymdi þarna bara síðustu ráðleggingum föður míns. Verð þetta þungur. Svo þegar ég er hættur þingmennsku og er enn þetta þungur.. það var svona árátta hjá mönnum að stjórnmálamenn ættu að vera stórir og feitir og dimmraddaðir. Ég hafði dimmu röddina og allt til að bera þannig.

Þá kemur það í ljós að á næsta stigi, segja læknarnir, er sykursýki.

Ég fer beint í vin minn og jafnaldra, Kára Stefánsson – við erum fæddir með þriggja daga millibili – og segi: „Kári, nú er ég kominn með dauðann í skrokkinn. Sykursýki.“

- Auglýsing -

„Sykursýki! Þú getur læknað þig af því, helvítis auminginn þinn,“ segir hann. „Þú þarft ekki læknis við. Hættu í sykrinum, éttu minna og grenntu þig. Farðu út að ganga.“

Ég gerði ekkert annað en að taka út sykurinn, sælgætis, gosið, bjórinn.. allt varð þetta að fara. Á nokkrum árum léttist ég niður fyrir 90 kíló.

Margrét náttúrulega vakti við hroturnar, eins og svona fallega músík á nóttunni. Nú losnaði hún við þær. Ég léttist og það er allt annar svefn. Ég sef eins og barn. Ég fer út að ganga og fór í World Class reyndar líka. Nú segi ég bara: „Undir 90 kílóum skaltu vera og mundu boðorð föður þíns.“

Ég var að koma úr mælingum og langtímasykurinn og allt er mjög gott í skrokknum. Og það sem meira er, ég er með mínar mjaðmir, mín hné, mína ökkla.

Við erum tólf bræðurnir og þegar ég segi við þá: „Hva, þú ert kominn með í mjöðmina! Ég fæ ekkert, ég hlýt að vera úr eðal efni.“

„Nei, nei,“ segja þeir. „Þú hefur aldrei gert neitt. Þú hefur aldrei unnið neitt ærlegt handtak!“

Hér má hlusta á viðtalið við Guðna í heild sinni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -