Fimmtudagur 6. október, 2022
6.8 C
Reykjavik

Harmleikurinn á jólaballinu í Skildi: „Sem hendi væri veifað stóð jólatréð þegar í björtu báli“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Það var á milli jóla og nýárs sem mikill fjöldi prúðbúinna barna var á leið til jólaskemmtunar í samkomuhúsinu Skildi í Keflavík. Það var eftirvænting og hátíðleiki í loftinu þegar börnin tóku að streyma inn í samkomuhúsið, ásamt 20 til 30 fullorðnum. Alls voru um 200 þar samankomnir, þar af 170 til 180 börn. Í miðjum húskynnunum var stórt og fallegt jólatré, sem börnin dönsuðu í kringum; uppfull af kátínu eins og vaninn er á slíkum skemmtunum.

Gleðin átti hins vegar eftir að breytast í martröð. Í einu vetfangi stóð jólatréð sem börnin dönsuðu og sungu í kringum í ljósum logum.

Eldsvoðinn sem varð í Samkomuhúsinu í Keflavík að kvöldi dags þann 30. desember árið 1935 er sá mannskæðasti í íslenskri sögu, allt frá aldamótunum 1900.

 

Kviknaði í út frá bréfpoka

Eftirfarandi er lýsing á atburðum kvöldsins í samkomuhúsinu, í Nýja Dagblaðinu, daginn eftir hinn hrikalega atburð.

„Jólatrésskemmtun var haldin í Keflavík í gærkveldi í samkomuhúsi þorpsins. Um 10-leytið datt bréfpoki ofan á eitt kertið og kviknaði í honum. Og sem hendi væri veifað stóð jólatréð þegar í björtu báli, með svo miklum ofsa, að eldurinn læsti sig þegar í húsið, sem var gamalt og byggt sem verst má verða, þegar slíkt óhapp ber að höndum, eftir því, sem blaðinu hefir verið tjáð annarstaðar að. En húsið var svo byggt, að utan á trégrind var neglt bárujárni, en innan á grindina rimlum, yfir þá strengdur strigi, en aðeins pappír límdur á hann. Enda fuðraði húsið þegar upp, svo að alelda mátti heita á augnabliki.“

- Auglýsing -

Lýsingarnar í Nýja Dagblaðinu eru hafðar eftir símastöðvarverðinum í Keflavík, Ingibjörgu Ólafsdóttur, kaupmanninum Ingimundi Jónssyni og Helga Guðmundssyni, lækni. Þær gefa skýra mynd af atburðum kvöldsins; kvölds sem átti að vera uppfullt af hátíðleika og fögnuði, en umbreyttist þess í stað í harmleik.

Hurðin lokaðist

„Þarna voru inni 170—180 börn og auk þess fullorðnir, svo að alls er talið, að yfir 200 hafi verið í húsinu. Þeim ógnum, sem nú dundu yfir, er erfiðara að lýsa en að gera sér í hugarlund, og skynjar þó enginn, sem ekki ratar í slíkt,“ segir í lýsingum Nýja Dagblaðsins.

- Auglýsing -

„Auðvitað þustu allir til dyra og glugga, eða í kjallara til útgöngu. En svo ógæfulega virðist hafa til tekizt, að því er sumir álíta, að útidyrahurð hafi lokazt, um stund, er ruðzt var á dyr, og slysið því orðið ægilegra en annars hefði kannske mátt verða. Þrátt fyrir þetta virðast litlar eða engar limlestingar hafa orðið af sjálfum troðningnum, en einn drengur a.m.k., hafði skorizt töluvert af rúðubrotum.“

Blaðið kom út morguninn eftir brunann. Blaðamenn höfðu náð tali af Helga Guðmundssyni lækni um nóttina, en þá var talið að um 20 manns hefðu brennst í eldsvoðanum, en sex barna var þá saknað og talið að þau hefðu brunnið inni. Um nóttina höfðu þeir sem verst voru brenndir verið fluttir á sjúkrahús í Reykjavík, flestir á Landakot. Seinna varð ljóst að tíu höfðu látist í eldsvoðanum, þar af sjö börn.

Samkomuhúsið brann til kaldra kola á svipstundu, miðað við lýsingar.

„Það var eign ung mennafélagsins í Keflavík, sem af góðum hug efndi til skemmtunarinnar, sem endaði svo átakanlega,“ segir í fréttinni.

 

„Jólatréð fuðraði upp“

Sigurbjörn Reynir Eiríksson var einn þeirra sem slasaðist í brunanum en lifði af. Hann kom fram í viðtali við RÚV árið 2015, þegar 80 ár voru liðin frá hinum hræðilega atburði. Sigurbjörn var níu ára gamall þegar eldurinn kviknaði í Skildi.

„Ég man eftir því að eitt kertið féll niður. Við vorum að dansa í kringum jólatréð. Það féll niður og byrjaði að loga. Maður bjóst ekki við að þetta yrði eins mikið og þetta varð. En jólatréð fuðraði upp. Það voru venjuleg kerti á trénu og það náði upp í loft og þetta bara fuðraði upp. Það varð alelda á nokkrum sekúndum,“ sagði Sigurbjörn Reynir í viðtalinu við RÚV.

Sigurbjörn Reynir lýsti troðningnum sem myndaðist við dyrnar þegar reynt var að rýma húsið. Hann rifjaði upp að útgöngudyr hafi verið sitt hvoru megin í salnum. Bekkjaröð hafi alveg lokað öðrum dyrunum. Það gerði rýminguna mun erfiðari að dyrnar sem um ræðir opnuðust inn.

„Það tók tíma að opna þær og rífa bekkina frá. Við krakkarnir gátum það ekki þannig að ég held að presturinn hafi gert það. En það var líka troðningur þegar komið var fram í anddyrið. Þar opnuðust dyrnar líka inn. Og allir að reyna að komast út,“ sagði hann. Eftir eldsvoðann var lögum um brunamál breytt þannig að dyr á leikhúsum og samkomuhúsum skyldu ávallt opnast út.

Margir slösuðust og hlutu alvarleg brunasár í eldsvoðanum. Sigurbjörn var einn þeirra. Hann var sendur á Landakot og dvaldi þar í heilt ár. Hann brenndist á höndum, hnakka og á eyra.

Atburðurinn sveipaður þögn

Árið 1991 var minnisvarði um brunann í Skildi reistur þar sem samkomuhúsið hafði staðið. Hann var reistur af aðstandendum fórnarlamba eldsvoðans.

Dagný Gísladóttir gaf út bók um brunann í Skildi árið 2010. Í henni má meðal annars finna viðtöl við fólk sem lifði eldsvoðann. Dagný sagði í viðtali við RÚV um bókina að hinn hörmulegi atburður hafi í langan tíma verið sveipaður þögn meðal íbúa í Keflavík. Margir sem hún ræddi við fyrir skrifin hafi tjáð henni það sama – að bruninn hafi ekki verið ræddur á þeirra heimili.

Það voru ýmsir fullorðnir sem drýgðu hetjudáðir við björgunarstörf á vettvangi, til að mynda einstaklingar sem voru inni í húsinu og fórnuðu lífi og limum við að reyna að koma börnunum út. Má þar til dæmis nefna séra Eirík Brynjólfsson, en það er hann sem Sigurbjörn Reynir talaði um að hafi rifið bekkina frá annarri útgönguleiðinni og opnað dyrnar. Þegar séra Eiríkur fór, síðastur manna, út úr samkomuhúsinu stóð hár hans í ljósum logum. Börnin hans fengu ekki að vita almennilega um eldsvoðann eða hetjudáð föður þeirra fyrr en hann var látinn. Hann talaði aldrei um harmleikinn í Skildi.

Séra Eiríkur Brynjólfsson. Mynd/skjáskot RÚV.

Þau sem létust í eldsvoðanum voru:

Kristín S. Halldórsdóttir, 76 ára

Guðrún Eiríksdóttir, 61 ára

Loftur Hlöðver Kristinsson, 10 ára

Borgar Breiðfjörð Björnsson, 6 ára

Guðbjörg Sigurgísladóttir, 7 ára

Sólveig Helga Guðmundsdóttir, 7 ára

Anna Guðmundsdóttir, 10 ára

Árni Jóhann Júlíusson, 8 ára

Þóra Eyjólfsdóttir, 71 árs

Alma Sveinbjörg Þórðardóttir, 10 ára (Alma lést 28. mars 1936)

 

Heimildir:

Hræðilegasti eldsvoði í manna minnum – Nýja Dagblaðið

Lifði af mannskæðasta eldsvoða 20. aldar – RÚV

Minnisvarði um Skjaldarbrunann – Reykjanesbær

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -