2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

HEIMA-SKAGI í fyrsta sinn

Ólafur Páll Gunnarsson, útvarpsmaður á RÚV, hefur síðastliðin sex ár haldið tónlistarhátíðina HEIMA í Hafnarfirði ásamt fleiri aðilum. Þann 1. nóvember mun hann halda sambærilega hátíð í fyrsta sinn á Akranesi.

„Hugmyndin að Heima í Hafnarfirði fæddist á Iceland Airwaves árið 2011 eða 2012 þegar ég og Kiddi kanína í Hljómalind hittum þar færeyskan vin okkar, Jon Tyril, sem var í hljómsveitinni Clickhaze með Eivör. Hann sagði okkur að hann væri að starta nýrri hátíð í Gøtu í Færeyjum helgina á eftir sem heitir HOYMA,“ segir Óli Palli um tilurð hátíðarinnar í Hafnarfirði.

„Ég og Kiddi horfðum hvor á annan: „Þetta er geggjuð hugmynd, við ætlum að stela þessu og setja upp í Hafnarfirði,“ sem við gerðum vorið eftir, fyrsta vetrardag.“ Þeir félagar héldu hátíðina fyrst saman, en síðustu ár hafa Tómas Ragnarsson og Henný María Frímannsdóttir séð um hana ásamt Óla Palla.

„Þetta er svo skemmtilegt konsept, svo mikil nánd og öðruvísi en allir aðrir tónleikar sem maður fer á.“

Hátíðin fær útibú á Skaganum

Fyrir tæpum tveimur árum flutti Óli Palli ásamt fjölskyldu sinni upp á Skaga og fór þá að hugsa um að halda sambærilega hátíð þar. „Þegar ég flutti hugsaði ég að það væri svo gaman að halda þetta hér líka, svona útibú sem er minna í sniðum. Þetta er svo skemmtilegt konsept, svo mikil nánd og öðruvísi en allir aðrir tónleikar sem maður fer á,“ segir hann og bætir við að HEIMA í Hafnarfirði muni að sjálfsögðu halda áfram. „Já, það er móðurskipið.“

AUGLÝSING


Óli Palli fékk Hlédísi Sveinsdóttur til liðs við sig. „Hún er ansi dugleg og gerir allt mögulegt frá því að setja upp matarmarkaði að tæknimessum. Hún býr líka rétt hjá mér og mér fannst tilvalið að fá hana með mér í þetta, enda líka leiðinlegt að vera einn að brasa í svona.“

Friðrik Dór er á meðal listamanna sem koma fram á hátíðinni.

Eitt kvöld, 12 tónleikar, sex heimahús

HEIMA-SKAGAhátíðin fer fram föstudaginn 1. nóvember og er haldin í tengslum við menningarhátíð Skagamanna, Vökudaga. Sex listamenn/hljómsveitir koma fram sem spila tvisvar sinnum hver í jafnmörgum húsum. Þeir sem koma fram eru Friðrik Dór, Högni Egilsson, Jónas Sig, Ragnheiður Gröndal, Valgeir Guðjónsson og Úlfur Úlfur. Þeir fyrstu stíga á stokk klukkan 20 og þeir síðustu enda um klukkan 23.

„Þú kaupir miða á Tix.is, skiptir svo miðanum í armband og færð kort og dagskrá og ferð svo bara og sérð það sem þú vilt,“ segir Óli Palli. „Aðallega er spilað í HEIMA-húsum (Vesturgata 32, Vesturgata 71b, Skólabraut 20 og Grundartún 8.) Svo erum við í Akraneskirkju líka og á litlu brugghúsi, Báran, sem er nýopnað, og þetta er allt á gamla Skaganum sem er líka skemmtilegt.“

Er ekkert mál að fá fólk til að opna heimili sín fyrir bláókunnugu fólki? „Það hefur nú verið minna mál en margur myndi halda. Það var svolítið erfitt fyrsta árið í Hafnarfirði og líka svolítið erfitt að selja fólki miðana, sumir voru feimnir við að koma heim til fólks. Við kveiktum strax á perunni hvað þetta var skemmtilegt konsept, og vorum vissir um að við myndum rokselja strax, sem gerðist svo ekki. En síðan hefur þetta bara gengið vel og sífellt betur, og uppselt var á síðustu hátíð. Fólk þekkir konseptið úr Hafnarfirði, þannig að þetta var ekki mikið mál. Vinir mínir og skyldfólk opna heimili sín og það var auðsótt.“

Að dagskrá lokinni í heimahúsunum er svo „eftirpartí“ á Gamla Kaupfélaginu sem er opið öllum og frítt inn. Þar getur fólk hist og borið saman bækur sínar og heyrða tóna eftir kvöldið. Þess má geta að ekki spila allir á sama tíma og þeir sem eru duglegastir að rölta á milli sjá flest atriði.

Miða má fá á Tix.is.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum