Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Heimsfaraldur reynt á fjölskyldur og pör – uppfullt hjá fjölskyldufræðingum og kynlífsráðgjafa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fyrir utan aukna eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu í kjölfar Covid, þá hefur sú mikla og nauðsynlega umræða í fjölmiðlum varðandi kynbundið og kynferðislegt ofbeldi einnig haft áhrif. Í kjölfar slíkrar umræðu eykst yfirleitt eftirspurn eftir viðtölum hjá þeim sérfræðingum sem sinna þolendum í slíkum málum. Það er í raun af hinu góða, þar sem slík umræða verður oft til þess að fólks leitar loks eftir aðstoð,“ segir Þóra Sigfríður Einarsdóttir, sálfræðingur við Domus Mentis-geðheilsustöð. Við ræddum við hana um stöðu geðheilbrigðismála á Covid-tímum.

Að sinna geðheilbrigði er hluti af því að hugsa vel um sjálfan sig

„Það getur alveg verið stórt skref fyrir marga að hafa samband við sálfræðing eða aðra sérfræðinga á geðheilbrigðissviðinu. Sem betur fer þá verður sífellt viðurkenndara að það að sinna geðheilbrigði sé hluti af því að hugsa vel um sjálfan sig. En ég myndi hvetja þá sem eru að taka sín fyrstu skref til að hafa samband, það er yfirleitt auðveldara en fólk heldur.“

Þóra segir að geðheilbrigðiskerfið hafi verið að kljást við biðlista í þó nokkurn tíma. Þau vilji mæta fólki þegar það þarf á því að halda. Eins þegar fólk getur ekki fengið viðeigandi þjónustu vegna fjárhags, en sálfræðimeðferð krefst þess að fólk komi í regluleg viðtöl, allra helst einu sinni í viku til að byrja með. Kostnaður við meðferðina getur verið mjög íþyngjandi og því eru ekki allir sem geta sótt þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu.

Samtalið beinist að heimsfaraldrinum og hvernig geðheilbrigðisþjónustan hafi náð utan um aukna eftirspurn eftir þjónustunni.

„Við sjáum að Covid hefur reynst mörgum erfitt, ekki síst sú einangrun og óvissa sem hefur fylgt heimsfaraldri. Ég held að flestir sem sinna geðheilbrigðisþjónustu hafi orðið varir við aukna eftirspurn frá því að heimsfaraldurinn hóf yfirreið sína.

- Auglýsing -

Í fyrstu vorum við jú bjartsýn á að með samtakamætti þá myndum við sigra þessa veiru á nokkrum vikum, hugsanlega nokkrum mánuðum. Nú, næstum tveimur árum seinna, erum við nánast í sömu stöðu og í upphafi. Það þýðir jú áframhaldandi óvissu og ákveðna ógn, ógn við eigin heilsu, afkomu og annað.

Þetta eru því álagstímar og mikilvægt að fólk hlúi að geðheilsunni. Það er ýmislegt hægt að gera til þess, kannski fyrst og fremst að sinna grunnþörfum okkar, það eru svefn, hreyfing, næring og svo eru það félagslegu samskiptin.“

Ein af afleiðingum Covid eru mjög breyttar vinnuaðstæður

„Þetta hljómar kannski einfalt en staðreyndin er sú að þegar við erum undir álagi þá eru það þessir grunnþættir sem fjúka oft fyrstir út í veður og vind. Ekki síst þegar ein af afleiðingum Covid eru mjög breyttar vinnuaðstæður.

- Auglýsing -

Nú þegar fjarvinna verður sífellt algengari er hætta á því að rútínan verði ekki í eins föstum skorðum þegar við þurfum ekki að mæta á ákveðinn stað á ákveðnum tíma. Fólk hefur meira frelsi til að sinna verkefnum sínum á ólíkum tímum.

En það er mikilvægt að reyna að setja skýr skil á milli vinnutíma/vinnustaðar og frítíma/heimilis. Og reyna að hafa hlutina í eins föstum skorðum og mögulegt er. Svo má ekki gleyma því að sinna félagslegum tengslum og gera eitthvað skemmtilegt.

Þá er það líka svo að þó svo að flestir virðist ná sér vel eftir að hafa smitast af Covid, þá er líka ákveðinn hópur sem glímir við alvarlegan heilsubrest í kjölfarið. Það alvarlegan heilsubrest að hann hefur veruleg áhrif á getu fólks til að sinna daglegu lífi, sinna vinnu og fjölskyldu. Því fylgir auðvitað mikil sorg og mikill kvíði.

Fólk hefur áhyggjur af því hvort það nái heilsu aftur, áhyggjur af afkomu sinni og áhrifum veikinda á fjölskyldulíf. Sálrænn stuðningur getur verið mjög mikilvægur í slíkum tilfellum.“

Stuðla að bættri líðan og geðheilsu fólks

Þóra vinnur sem sálfræðingur á geðheilsustöðinni Domus Mentis, en þar starfar stór þverfaglegur hópur heilbrigðisstarfsfólks sem gerir þeim kleift að bjóða upp á breiða þjónustu til að stuðla að bættri líðan og geðheilsu fólks.

Starfshópurinn hjá Domus Mentis býr yfir víðtækri þekkingu á einstaklingsmeðferð, para- og fjölskyldumeðferð, sálmeinafræði og geðlækningum og því að sinna einstaklingum, pörum, fjölskyldum og vinnustöðum.

Mikið er lagt upp úr þverfaglegu samstarf hjá geðheilsustöðinni til að tryggja hverjum og einum sem besta þjónustu.

​„Margir hafa spurt um lógóið okkar sem lýsir því kannski best hvað við stöndum fyrir. Aðili sem tengdist stofnun DMG er listamaður og hafði lánað okkur nokkur verk. Eitt af þeim var málverk af alls kyns húsum, öllum stærðum og gerðum. Þar sem Domus Mentis þýðir í raun hús hugans, fannst okkur þetta málverk tala til okkar og við ákváðum að þróa lógó út frá því. Fyrir okkur þá stendur lógóið því fyrir margbreytileika manneskjunnar og að það sé pláss fyrir alla.“

Tekur á erfiðum málum

Í krafti stærðarinnar hafa þau getað þróað teymi með sérhæfingu á ákveðnum sviðum.

„Þar má nefna að hjá okkur starfar íþróttateymi sem er ætlað að takast á við ýmsar krefjandi aðstæður og tilfinningar sem geta komið upp í tengslum við íþróttaiðkun. Teymið býður upp á margvíslega þjónustu sem hentar þá bæði einstaklingum og hópum og sérstök áhersla hefur verið lögð á að bjóða upp á hagnýtt og skemmtilegt fræðsluefni sem þó tekur á erfiðum málum.

Teymið veitir íþróttamönnum einstaklingsviðtöl, oft vegna kvíða tengdum frammistöðu eða meiðslum. Einnig hópum; hvað þarf til að efla liðsheild og ná sem bestum árangri. Fókusinn er einnig á samskipti og hvernig menningu við viljum hafa í tengslum við íþróttastarf, enda mikilvægt að velta því fyrir sér.“

Sálfræðiviðtöl ekki niðurgreidd

Aðspurð hvort henni finnist þessi málaflokkur mæta skilningsleysi segir Þóra að „það hafi margt breyst á undanförnum árum varðandi viðhorf til geðheilbrigðis og geðheilbrigðisþjónustu. Sem betur fer fær þessi málaflokkur sífellt meiri athygli og vægi og nú held ég að flestir séu sammála um að geðheilbrigðisþjónusta sé hluti af grunnheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir það eru sálfræðiviðtöl ekki niðurgreidd og fólk þarf enn að greiða fullt verð. Það er búið að samþykkja að sálfræðiþjónusta eigi að vera niðurgreidd en fjármagn hefur ekki fylgt með. Það finnst mér ákveðið skilningsleysi.

Eins má benda á að gríðarleg eftirspurn er eftir geðlæknum, og stór hluti tilvísana til þeirra er frá fólki sem er með ADHD-greiningu. Einungis geðlæknar mega ávísa lyfjum sem eru hugsuð til að meðhöndla ADHD, fyrst eftir greiningu. Mikil bið er eftir slíkri þjónustu, ekki bara hjá okkur og margir geðlæknar taka ekki lengur við fleiri tilvísunum. Á meðan er þetta fólk í lausu lofti og fær ekki þá heilbrigðisþjónustu sem það þarf. Vandinn er auðvitað fyrst og fremst sá að það eru ekki nógu margir starfandi.“

Þóra finnur fyrir því hvað heimsfaraldurinn hefur reynt á fjölskyldur og pör og hafa fjölskyldufræðingarnir og kynlífsráðgjafi orðið vör við það. Hún segir sífellt fleiri leita eftir þessari þjónustu til að bæta samskipti sín og lífsánægju.

„Dagleg rútína getur gleypt daglegt líf og ástarsambandið þannig að foreldrar verða meira vinnufélagar, verkstjórar á heimilinu, sem getur leitt til alls kyns vanda. Þar getur para/hjónameðferð gert kraftaverk og við erum svo heppin hér á DMG að auk úrvals fjölskyldufræðinga, þá starfar hér á Domus Mentis kynlífsráðgjafi.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -