Fimmtudagur 25. apríl, 2024
9.8 C
Reykjavik

Helgi missti son sinn og vinnuna: „Ég myndi gefa allar eigur mínar til að geta bætt fyrir mín brot“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er hættur að þykjast vera annar en ég er,“ segir Helgi Jóhannesson lögmaður í fyrirlestri sínum þar sem hann gerir upp áföll undanfarins árs að viðstöddu margmenni í safnaðarheimili Reyðarfjarðarkirkju. Hlustendur voru flestir djúpt snortnir, og sjá mátti tár á hvarmi gesta.

Allir verða fyrir áfalli og sorg einhvern tíman á lífsleiðinni. Fáir upplifa þó jafn mikið, á jafn stuttum tíma, og Helgi Jóhannesson og fjölskylda hans. Á einu ári missti Helgi son sinn, gerðist brotlegur í samskiptum við samstarfskonu, undir merkjum misheppnaðs húmors og missti vinnuna í kjölfarið.

Fór yfir mörk samstarfskonu

Helgi hefur fúslega gengist við því að hafa farið yfir mörk í samskiptum, einkum við konur, hann kveðst sjá það núna þó meining hans hafi aldrei verið að meiða eða særa nokkurn mann.  Hans viðbrögð við ásökunum á hendur honum voru að biðjast afsökunnar og leggjast í mikla sjálfsvinnu, hann leitaði sér aðstoðar sérfræðinga til að skilja hvað í hans fari gerði það að verkum að hann áttaði sig svo illa á því að hans samskiptamunstur hefði haft þessi áhrif á samferðafólk hans.

Helgi ákvað að nýta reynslu sína til góðs, hans leið í gegnum sorgina er að hjálpa öðrum. Það gerir hann með því að halda fyrirlestra undir heitinu „Brimskaflar í boði lífsins“.

Fyrirlesturinn var haldinn í safnaðarheimilinu á Reyðarfirði síðasta dag vetrar, þann 20. apríl. Veðrið var eins leiðinlegt og það verður; rigning, rok og kalt. Væntingar undirritaðrar voru í takt við það; engar.

En inni í safnaðarheimilinu var upplifunin allt önnur. Hlýlegt andrúmsloft og heimilislegt umhverfi tók á móti mér.

- Auglýsing -

Dóra Sólrún Kristinsdóttir, djákni, setti fyrirlesturinn með sögum úr eigin lífi, sorgum og viðbrögðum. Þrátt fyrir að margt væri um manninn í salnum setti hún strax persónulegt andrúmsloft og heiðarlegt.

Ekki að biðja um vorkunn

Þegar Helgi steig í pontu hóf hann fyrirlesturinn með sama hætti og Dóra Sólrún, með hispurslausri frásögn sem snerti strengi flestra, ef ekki allra inni í salnum.

Hann gerði okkur hlustendum strax ljóst að fyrirlesturinn væri ekki til að afsaka neitt né biðja um vorkunn;

- Auglýsing -

„Þessi fyrirlestur á ekki að vera sjálfsvorkunarræða eða aflátsbréf, þetta er raunverulega upplýsingagjöf um hvernig er hægt að díla við svona og hvað gerðist“

Erfiðleikarnir nánast óyfirstíganlegir

Árið 2020 hófst í faðmi fjölskyldunnar, jákvæðni og gleði einkenndu þessi tímamót hjá þeim öllum, enda ekki ástæða til annars. Helgi var sjálfur í góðu starfi sem lögfræðingur hjá Landsvirkjun, börnin þrjú á góðri leið í sínu námi, og allir ánægðir með stöðuna í lífinu almennt. Það var engin ástæða til að ætla að árið 2021 færði þeim annað en áframhaldandi sigra á lífsbrautinni.

Annað átti eftir að koma á daginn. Í hönd fór tími þar sem allt fór úrskeiðs sem mögulega gat farið úrskeiðis – erfiðleikarnir virtust nánast óyfirstíganlegir.

Í mars kom fyrsta áfallið þegar Helgi kom að syni sínum látnum á heimili þeirra. Sonur hans féll fyrir eigin hendi.

Í hönd fór mikill sorgartími sem ekki sér fyrir endann á.

Snerti mörg hjörtu

Þó reiði fylgi oft sjálfsvígum hefur Helgi náð að lifa með þeirri vissu að ef sonur hans hefði séð aðrar mögulegar leiðir hefði hann farið þær. Honum voru gefin krefjandi spil þó hann hafi spilað ótrúlega vel úr þeim spilum. Hann fæddist í Kína, dvaldi þar á munaðarleysingjaheimili í 11 mánuði áður en hann var ættleiddur, hann var trans strákur. Hans lífsins áskoranir voru ótrúlega miklar og stórar. Það voru hins vegar margir sem ekki áttuðu sig á þessu því hann var svo vel heppnaður einstaklingur og skaraði framúr á svo mörgum sviðum. Hann var til að mynda björgunarsveitarmaður og þjálfari hjá Mjölni svo eitthvað sé nefnt. Hann snerti mörg hjörtu á sinni stuttu ævi og var elskaður af öllum sem honum kynntust.

Helgi og Sigurður Jóhann sonur hans voru miklir mátar. Þeir gengu mikið til fjalla saman og áttu vel skap saman. Sigurður Jóhann átti alltaf vísan stuðning hjá föður sínum og öðrum fjölskyldumeðlinum. Allir lögðu sig fram að styðja hann og styrkja í hverju því sem hann var að mæta í lífinu.

Helgi gefur sig alls ekki út fyrir að vera neinn sérfræðingur á sviði sorgar og sorgarviðbragða;

„Hvað er ég þá að vilja upp á dekk hér? Ég hef lent í því versta sem hægt er að lenda í, mig langar að miðla reynslu minni af þessum áföllum. Ég er ekki með svör, en ég er með leiðir sem ég nota til að vinna úr áföllunum. Ég er í miðju snjóflóðinu núna, ég er enn grafinn og er að reyna að átta mig á hvað snýr upp og hvað niður“

Það sem hann gaf okkur var nákvæmlega þetta; hann miðlaði af reynslu sinni. Sem honum tókst með því að galopna sjálfan sig og játa misgjörðir sínar án undanbragða og einlægt.

Skiptir máli að fá samhug

Helgi bendir fólki á að hika ekki við að nálgast samferðamenn sína sem eru í sorg, fyrir honum skipti það miklu máli að fá samhug og stuðning frá fólki, þar fékk hann orkuna til að halda áfram.

Í maí var honum bent á að framkoma hans við samstarfskonu hjá Landsvirkjun færu yfir hennar mörk og hefðu valdið henni vanlíðan. Í kjölfarið fékk hann áminningu í starfi, baðst afsökunnar og taldi málið afgreitt, svo var því miður ekki og í nóvember gerði hann starfslokasamning við Landsvirkjun

Helgi skilgreinir þetta áfall ekki sem sorgaráfall, en engu að síður mikið áfall. Úrvinnslan tók sinn tíma, eða heilt sumar. Á meðan var Helgi í miðri sorgarvinnu og var við það að brenna út.

„Þetta var hræðilegt, mér þótti svo leiðinlegt að hafa gert þetta, og leiðinlegt að hafa valdið henni þessum þjáningum“

Játar að hafa orsakað vanlíðan

Í kjölfarið fylgdu fleiri sögur, sumar réttar, aðrar ekki. En Helgi játar skýlaust að hafa með hegðun sinni og ósmekklegu orðfæri orsakað vanlíðan, það hafi aldrei verið ætlunin, en gerðist samt.

„Ég tek ábyrð á því sem ég hef gert en þurfti að gefast upp fyrir ósönnum sögusögnum um atvik úr fortíðinni sem gengu fjöllunum hærra meðan stormur þessi geysaði sem mest. Það hafði engan tilgang að reyna að koma á framfæri leiðréttingum á þeim. Um það voru allir sammála sem ég leitaði til. Ég ætla samt ekki að dvelja við það heldur horfa fram á við“

Með aðstoð sérfræðinga hefur Helgi kafað í ástæður þess að hann hafi farið yfir mörk samferðarfólks síns, hann hefur reynt eftir fremsta megni að leiðrétta brot sín með því að biðjast afsökunnar og breyta hegðun sinni.

„Ég iðrast þess sem ég hef gert, og ég myndi gefa allar eigur mínar til að geta bætt fyrir mín brot, en ég get ekki gert annað en það sem ég er að gera, það er að segja horfa fram á við með breytta hegðun, ég get ekki snúið tímans hjóli til baka“

 

Það er skammt frá því að segja að stundin sem ég ætlaði að nota fjarri heimili og áreiti til að prjóna, varð allt önnur. Ég geng ríkari frá Helga, með betri skilning á sorg, áföllum og mannlegum breiskleika.

„Þrátt fyrir allt sem á undan er gengið er ég þakklátur fyrir þetta tækifæri til að bæta mig og verða betri maður“

Texti: Hrefna Sigríður Reynisdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -