2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Hjálmar Jónsson um ummæli Stefáns Einars: „Það verður hver að þjóna sinni lund“

Formaður Blaðamannafélags Íslands gefur ekki mikið fyrir orð fréttastjóra viðskiptafrétta Morgunblaðsins.

Fyrr í dag tjáði Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, sig á Facebook um uppsagnir á Morgunblaðinu og virðist komast að þeirri niðurstöðu að þær séu samninganefnd Blaðamannafélagsins og formanninum Hjálmari Jónssyni að kenna.

„Í dag horfum við starfsfólk Árvakurs á eftir 15 öflugum og góðum samstarfsmönnum sem sagt er upp vegna rekstrarerfiðleika fyrirtækisins. Á morgun ætlar Hjálmar Jónsson að lama þetta sama fyrirtæki með 12 tíma löngu verkfalli. Annað svipað á að fylgja í næstu viku. Enn harðari aðgerðum hefur verið hótað í kjölfarið,“ segir Stefán Einar og bætir um betur með því að segja að sér sé orðið ljóst að formaður Blaðamannafélagsins sé ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Því miður virðist sem samninganefnd félagsins sé það ekki heldur. „Það er erfitt að bjarga mönnum frá sjálfum sér. Það er hins vegar verra þegar ekki er hægt að bjarga saklausu fólki frá heimsku þeirra.“

Mannlíf sló á þráðinn til Hjálmars og spurði hvað honum fyndist um þessi ummmæli. „Það verður hver að þjóna sinni lund,“ segir hann. „Þessi ummæli dæma sig sjálf og eru ekki svara verð.“

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa Hjálmar og Stefán eldað grátt silfur í yfirstandandi kjarabaráttu blaðamanna. Til marks um það neitaði Stefán Einar því ekki í samtali við Stundina að bera ábyrgð á fréttum sem birst hafa á vefmiðli Morgunblaðsins, mbl.is, á meðan verkfalli blaðamanna hefur staðið. Í viðtalinu kom m.a. fram að Stefán teldi slíkt ekki vera verkfallsbrot. „Hjálmar Jónsson er bara enginn verkstjóri yfir mér eða öðru starfsfólki hér,“ var haft eftir honum í Stundinni, en ummæli og aðgerðir Stefáns Einars hafa vakið athygli ekki síst í ljósi þess að hann var áður formaður VR.

AUGLÝSING


Mörgum hefur reyndar líka blöskrað framganga Stefáns Einars í málinu. Stefán Óli Jónsson, blaðamaður á Vísi, var til að mynda einn þeirra sem tjáði sig um hana á Twitter. „Það er samt ógeðslega kúl að fyrrverandi formaður VR, verkalýðsforinginn og siðfræðingurinn hann nafni minn sem er með c.a. tvöföld laun venjulegs blaðamanns, sé sagður fremstur í flokki verkfallsbrjóta. Ljóðrænt,” segir Stefán Óli og vísar þar til nafna síns, Stefáns Einars.

Síðustu ummæli Stefáns Einars um samninganefnd Blaðamannafélagsins og formanninn hafa heldur ekki beinlínis fallið í kramið hjá Netverjum, sem láta blaðamanninn nú heyra það á Facebook. „Er sem sagt beint samband milli þessara uppsagna og kjarabaráttu blaðamanna?“ spyr Ásgeir Jónsson blaðamaður til að mynda á Facebook-síðu Stefáns Einars.

Lestu meira

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum