Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Hjálparkokkur jólasveinsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hildur Oddsdóttir hefur síðustu jól haft milligöngu um skógjafir handa börnum. Í fyrra og í ár hefur hún jafnframt hjálpað foreldrum við að láta jólagjafaóskir barna rætast með því að auglýsa eftir aðstoð á Facebook. Hildur hefur sjálf glímt við fátækt og þekkir hin þungu spor.

 

„Ég fæ aðstoð með alls konar hluti allt árið en sjálf get ég ekki gefið peninga. Þetta er mín leið til að gefa til baka.“ Þetta segir Hildur Oddsdóttir, sem heldur úti Facebook-síðunni Jólasveinahjálparkokkar. Síðustu fjögur ár hefur Hildur, í gegnum síðuna, haft milligöngu á milli þeirra sem þurfa aðstoð með skógjafir og þeirra sem vilja aðstoða. Átakið hefur gengið vel, svo vel raunar, að í fyrra og í ár hefur Hildur sömuleiðis tekið við óskum um jólagjafir til handa börnum foreldra sem hafa lítið á milli handanna. Og hér er „ósk“ lykilorðið. Það sem Hildur vildi gera var að freista þess að börnin fengju ekki bara einhverja gjöf, heldur þá gjöf sem þau óskuðu sér.

Hildur Oddsdóttir

Hildur hefur sjálf glímt við fátækt og verið ófeimin við að segja frá baráttu sinni í fjölmiðlum. „Ég man þetta bara sjálf; á hverju ári óskaði eldri strákurinn eftir einhverju í jólagjöf og maður gat kannski ekki orðið við óskinni,“ útskýrir Hildur. En eins mikið og foreldrar vilja verða við óskum barnsins þá eru skrefin sem þarf að stíga til að leita aðstoðar þung. „Margir sem leita til mín finna fyrir skömm og vanlíðan. Vilja ekki koma fram undir nafni vegna fjölskyldu og vina. Sumt er ofboðslega falið; fólk vill ekki láta aðra vita hver staðan er.“

Að sögn Hildar er í sumum tilvikum um að ræða fólk sem á nána að en vill hreinlega ekki biðja um aðstoð vegna skammar eða ótta við fordóma.

„Það er gaman að sjá foreldra ganga í burtu og geta gefið börnunum sínum það sem þau óska sér en þetta eru þung spor og erfitt fyrir marga að koma.“

Tregablandin gleði

Á þessu ári hafa 97 börn fengið skógjafir í gegnum Hildi og 27 börn óskajólagjöfina. Þá gat hún einnig, þökk sé rausnarlegum einstaklingum, látið 20 viðbótargjafir renna til Hjálpræðishersins.

- Auglýsing -

Hildur segir hópinn sem leitar til hennar fjölbreyttan. Í honum er að finna atvinnulausa og öryrkja en líka fólk sem er á vinnumarkaði og hefur tekjur en nær ekki endum saman, jafnvel háskólamenntað fólk. Hildur segir tekjurnar og bæturnar oft duga skammt þegar fólk er t.d. á leigumarkaði með mörg börn í heimili, ekki síst um jólin, þegar væntingar vakna og útgjöldin aukast. Þá séu þó nokkrir sem séu á þeim stað að vera yfir tekjuviðmiðum hjálparsamtaka en eiga ekki fyrir hlutum á borð við gjafir.

„Þegar þú ert aðeins yfir viðmiðunum er rosalega sárt að labba tómhentur í burtu. En það er líka svo rosalega gott þegar fólk getur staðið saman í þessu,“ segir Hildur. Hún segir það gífurlega gefandi að vera í þeirri stöðu að geta haft milligöngu um að hjálpa fólki en gleðin sé þó tregablandin. „Þegar einstaklingar koma að sækja gjafir til mín þá er mikil gleði en það er líka sorg; fólk grætur úr gleði en þetta er erfitt líka. Það er gaman að sjá foreldra ganga í burtu og geta gefið börnunum sínum það sem þau óska sér en þetta eru þung spor og erfitt fyrir marga að koma.“

Hildur segir þó tvímælalaust hafa hjálpað að hún hafi sjálf staðið í sömu sporum og sé opin með það. „Ég er búin að fá fullt af faðmlögum bara fyrir skilninginn,“ útskýrir hún. „Ég hef sagt við marga að ég viti hversu erfitt það sé að biðja um þessa aðstoð, ég þekki alveg þessa hlekki. Mér leið lengi eins og Dalton-bræðrum með kúluna í eftirdragi. Í dag er ég rosalega þakklát fyrir allt sem ég fæ.“

- Auglýsing -
Jólin eru mörgum erfið.

Fólk er líka fátækt hina 11 mánuðina

„Við höfum oft talað um þetta; þetta er allt árið. Desember er þungur en fólk er að púsla til að reyna að framfleyta sér alla mánuði ársins,“ svarar Hildur, um það hvort fátækir „gleymist“ utan jólanna.

Sjálf starfar hún með Pepp Ísland, samtökum fólks í fátækt, sem berjast fyrir fátæka og því að gera fátækt sýnilega. Samtökin standa fyrir reglulegum fundum þar sem fólk kemur saman og deilir reynslu sinni og á fundunum er jafnan sett upp svokallað „gefins borð“ þar sem hægt er að nálgast brauð, grænmeti og tilfallandi. Fjöldi sækir fundina.

Til stóð að gera jólahlé á fundunum en viðtal við Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur, formann Pepp Ísland, 15. desember síðastliðinn vakti mikla athygli.

„Þetta er afskaplega erfiður tími, það er gleði og hátíðleiki í samfélaginu og þér finnst þú ekki vera hluti af því þar sem þú hefur ekki sömu tækifæri og aðrir að bjóða börnunum þínum upp á hluti og skemmtanir,“ sagði Ásta í samtali við Stöð 2. Hún sagði þvottaefni og dömubindi vera meðal þeirra vara sem fátækir ættu erfitt með að útvega sér um jólin.

„Við fengum svakaleg viðbrögð í kjölfar viðtalsins,“ segir Hildur. Svo mikil að forsvarsmenn Pepp sáu ekki annað í stöðunni en að halda úthlutun fyrir jól á öllum þeim varningi sem þeim barst. „Það komu yfir 50 manns,“ segir Hildur. Þetta hafi verið sannakallaður gleðifundur. „Það er svo mikil gleði að geta staðið saman og hjálpað þeim sem eru í sömu sporum.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -