Miðvikudagur 27. mars, 2024
-0.2 C
Reykjavik

„Í alvöru, er ekki komið nóg af því að tala við okkur eins og fáráðlinga?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lætur Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra heyra það í færslu sem hún birtir á Facebook. Sólveig vísar í orð Katrínar í kvöldfréttum Stöð 2 í gær en þar sagði Katrín: „Á sama tíma og talað er um lítið svigrúm til launahækkana þá verður það að gilda fyrir allan stigann. Það getur ekki bara gilt fyrir launafólk. Það hlýtur að gilda ekki síður fyrir stjórnendur.“

Sólveig bendir á að laun þingmanna hafa hækkað gríðarlega á einungis sex árum. „Nú er það svo að laun þingmanna hafa hækkað um næstum 90% frá árinu 2016. Grunnlaun ráðherra hafa hækkað enn meira á sama tímabili eða um rétt tæpa milljón á mánuði. Laun forseta Íslands eru þrjár og hálf milljón á mánuði. Borgarstjóri Reykjavíkur er með 3.082.538 krónur í mánaðarlaun. Ef að við beinum sjónum okkar að forstjórum íslensks kapítalisma sjáum við sjálftöku-milljónir pólitískrar yfirstéttar blikna í samanburði; forstjóri Haga er með rétt tæpar sex milljónir á mánuði, forstjóri Icelandair með rétt tæpar sjö. Og við skulum ekki einu sinni skoða þá al-tekjuhæstu á eyjunni okkar, klukkan er orðin margt og ekki ráðlegt að heimsækja ofskynjunar-lendur þær sem þriggja milljarða mennirnir hafa lagt undir sig svona stuttu fyrir svefninn,“ segir Sólveig.

Á sama tíma á ungt fólk enga möguleika á því að eignast eigið húsnæði. „Ójöfnuður eykst. Verka og láglaunafólk stritar en nær aldrei endum saman. Láglaunakonur ganga sér til húðar og sumar missa heilsuna um fimmtugt, líkaminn þolir ekki meira strit. Ungt fólk sem tilheyrir stétt vinnuaflsins á enga möguleika á því að eignast eigið húsnæði; frá því að síðustu kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru undirritaðir hefur húsnæðisverð hækkað um meira en 60%. Viðbjóðslegustu lögmál hins frjálsa markaðar fá óhindrað að leggja tilveru þess fólks sem fast er á leigumarkaði í rúst; konan sem á ekkert borgar nú mánaðarlega 50.000 krónum hærri leigu en fyrir ári,“ segir Sólveig.

Sólveig vitnar svo í fyrrnefnd orð Katrínar í kvöldfréttum Stöð 2:

„Á sama tíma og talað er um lítið svigrúm til launahækkana þá verður það að gilda fyrir allan stigann. Það getur ekki bara gilt fyrir launafólk. Það hlýtur að gilda ekki síður fyrir stjórnendur.“

Hvað þýðir þessi setning? Hverjir eiga að meðtaka þessi skilaboð? Þau sem tilheyra yfirstéttinni og eru þegar búin að hækka eigin laun stórkostlega? Þau sem fengu hækkanirnar áður en að skýrsluhöfundar Þjóðhagsráðs komust að þeirri niðurstöðu að svigrúmið væri á þrotum? Á það fólk að tíma-flakka til baka og stoppa sig sjálft í nýliðinni fortíð nákvæmlega á þeirri stundu sem það tók við sjálf-skömmtuðum launahækkunum? Eða er verið að tala til verka og láglaunafólks, ómissandi fólksins, þeirra sem skapa hagvöxtin með vinnu sinni og þeirra sem halda umönnunarkerfum okkar gangandi með þrautseigju sinni? Eru þetta skilaboð til vinnuaflsins um að vera heimsk og undirgefin, að vera ekki með vesen, skilaboð um að samþykkja að hafa það ömurlegt svo að þau sem stýra þessu landi geti haldið áfram að lifa í sjálfsblekkingu um að stöðugleikinn sé bara rétt handan við hornið, og náist þegar að láglaunakonurnar samþykki að fara aftur aftast í röðina þangað til að reykvíska meritókrasían tilkynni í hátalarakerfinu að stundin sé loksins runnin upp, svigrúm hafi komið í leitirnar fyrir þau sem svitna fyrir hagvöxtinn?,“ spyr Sólveig.

- Auglýsing -

„Í alvöru, er ekki komið nóg af því að tala við okkur eins og fáráðlinga? Má ég plís afþakka orðasalöt stjóranna? Ég hef enga lyst á þeim og ég treysti mér til að fullyrða að sömu sögu má segja um ansi marga“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -