Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Inga segir frá heimilisofbeldi: „Börnin horfðu á hann kýla mig í vegginn”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Inga Henriksen er 34 gömul, fjögurra barna móðir, sem búsett hefur verið í Svíþjóð í rúmt ár með íslenskum eiginmanni og börnum sínum. Í færslu á Facebook segir hún frá heimilisofbeldi sem hún var beitt af eiginmanninum, sem er jafnframt faðir yngsta barns hennar. Eldri börn hennar þrjú voru einnig beitt ofbeldi af stjúpföður þeirra og hefur hann verið ákærður fyrir þrefalda líkamsárás. Öll börnin urðu vitni að ofbeldinu.

„Ég vil fá tilbaka stjórn á eigin lífi. Allt of lengi hef ég stjórnast af fyrrverandi maka,“ segir Inga í samtali við Mannlíf.

„Ég vil segja mína sögu sjálf, því annars verður hún aldrei sögð. Ég mun líklega særa einhvern eða einhverja sem tengdir eru gerandanum. Sumum mun jafnvel líða eins og ég hafi svikið þá eða sært og taka sögu minni eins og árás á þá.“

Inga tekur þó fram að reynsla hennar og frásögn um hana hefur ekki með neina utanaðkomandi að gera, og hún ætli ekki að taka ábyrgðina á áliti og skoðunum annarra, heldur liggur ábyrgðin og skömmin eingöngu hjá gerandanum. Inga segist vilja segja frá sinni reynslu, því frásögnin eigi stóran þátt í bataferli hennar.

„Það er þvinguð þögn í kringum ofbeldi sem hefur ekki bara áhrif á samfélagið heldur viðheldur ofbeldi gagnvart þolendum. Með því að pressa á þolendur að segja ekki sína sögu eykur þú á skömm og sársauka þolenda,“ segir Inga.

„Þegar einstaklingur verður fyrir ofbeldi er vald þolandans til að segja frá tekið frá honum og með því að ákveða fyrir þolenda hvort og hvenær og ef þeir mega segja frá erum við að viðhalda valdi gerandans og ræna þannig valdi þolanda yfir eigin lífi og áfalli. Á þennan hátt viðheldur samfélag ofbeldi og að rjúfa þögnina verður talið ógn við status quo sem ógnar geranda,“ segir Inga.

- Auglýsing -

Handtekinn fyrir heimilisofbeldi

Í færslu sinni segir Inga frá einu kvöldi í lífi fjölskyldunnar, þar sem hún og tvo barna hennar voru beitt ofbeldi af hendi eiginmanns hennar og barnsföður, og stjúpföður eldri barna hennar. Gerandinn var handtekinn og settur í 72 tíma einangrun. Saksóknari setti á nálgunarbann, og óskaði eftir framlengingu á gæsluvarðhaldi en því var hafnað. Gerandinn hefur verið ákærður fyrir  þrefalda líkamsárás, gegn maka og tveimur börnum.

„Frásögn af þessu kvöldi er þó aðeins brotabrot af því ofbeldi sem hefur átt sér stað og hefur sett sitt mark á líf mitt og barnanna minna um aldur og ævi,“ segir Inga.

- Auglýsing -

„Hann [eiginmaður og barnsfaðir Ingu] kom heim úr vinnu eins og vanalega og angaði af áfengislykt. Hann virtist pirraður svo ég ákvað að halda áfram að horfa á þáttinn sem ég var nýbúin að kveikja á og leyfa honum að vera í friði. Maðurinn minn kemur fram og spyr hvar sonur minn sé og ég svara honum að hann væri á klósettinu. Hann hækkar þá róminn og segir að réttast væri að slökkva á netinu en það væri víst ekki hægt þar sem ég væri að horfa. Ég sagði honum að sonurinn væri nú ekki með símann á sér þannig að slökkva á netinu væri óþarfi. Hann segir að ég hafi bara ekki hugmynd um það ég viti bara ekki rassgat um það og fer og bankar á hurðina hjá syninum,“ byrjar Inga frásögn sína.

Segir hún að þetta hafi farið mikið í taugarnar á manninum hennar, sem fór inn í eldhús að elda kvöldmatinn. Eldri dæturnar komu síðan heim úr göngutúr og allir settust við kvöldverðarborðið, nema maður Ingu sem settist með símann sinn inn í stofu.

Hann svarar ekki og byrjar að öskra að þessir aumingjar eigi bara að gera það sem þeim er sagt og hjálpa til

„Þegar maturinn er að klárast sest hann hjá okkur. B [barn þeirra] hendir pasta á gólfið og hann tekur í hana og kippir þannig að aftur koma þessi skerandi öskur. Hann meiddi hana. Þetta er sami grátur og þegar hann er með hana einn frammi á morgnanna um helgar og hún að róta í eldhússkúffunni. Þau skipti sagði hann þetta vera frekjugrenj enn mæður þekkja muninn. Mér var ekki sama og spyr hvernig dagurinn hefði verið hjá honum meðan ég hugga dótturina,“ segir Inga. Maðurinn svaraði því til að dagurinn hafi verið góður, en hann sé þreyttur eftir daginn.

Börnin fara inn á baðherbergi og sú yngsta með og biður Inga þau eldri um að passa að hún sturti ekki úr baðbalanum, sem enn var fullur af vatni. „Hann öskrar á eftir þeim að þessi aumingjar gætu líka alveg tæmt balann þar sem þau gera hvort eð er aldrei neitt. Ég stend upp segist ætla að gera það enda sé þetta eftir mig, labba inn á bað og loka á eftir mér. Hann kemur og segist ætla að tæma balann. Ég segi honum ég geti alveg gert það og hann þvertekur fyrir það og tekur í balann. Ég færi mig fram og spyr hvort hann vilji setjast í kvöld og spila, enn hann svarar ekki og byrjar að öskra að þessir aumingjar eigi bara að gera það sem þeim er sagt og hjálpa til. Ég svara og segi honum að það sé rétt að þau megi stundum vera duglegri, en þau séu dugleg yfir daginn að hjálpa og það sé ekki rétt af honum að kalla þau aumingja. Hann öskraði að honum værir rassgat sama hvað mér finndist því þessi svín væru aumingjar og hlýddu mér ekki,“ segir Inga.

Bað manninn um fara út í göngutúr

Segist hún næst hafa beðið manninn sinn um að fara í göngutúr, kvöldið hafi verið fallegt og tilvalið að fara út og hreinsa hugann. Segir hún að hann hafi þá farið að tala um að heimilið væri svínastía og ekki vanþörf á að taka til. Segir Inga að hún hafi hins vegar þrifið heimilið fyrr um daginn, auk þess sem þeir sem þekki hana viti að hún kunni ekki við að hafa heimilið í óreiðu.

„Hann rýkur fram á gang sparkar í hluti, kastar og skellir baðherbergishurðinni þannig að hurðarhúnarnir detta af. Hann rífur upp útidyrahurðina þannig að hann brýtur hana og skellir henni svo og neitar að fara út þar sem hann borgi leiguna,“ segir Inga og segir hann næst hafa gengið á sig og „bömpað“ hana með brjóstkassanum. Því næst hafi hann tekið af sér hringana og tilkynnt að sambandinu væri lokið ef hún settist ekki á rassgatið.

„Hann æsist við það og byrjar aftur að bömpa mig svo ég sný honum við. Hann fer svo og klæðir sig í jakka svo ég hélt að hann væri á leiðinni út og fer inn í stofu og sest í sófann. Hann kemur öskrandi og stendur fyrir ofan mig otandi fingrinum í andlitið á mér meðan hann öskrar á mig. Viðbrögð mín við öskrum er að frjósa, stama, fara að gráta og heyra ekki orð. Ég sá bara fingurinn á honum og svipinn sem var óhuggulegur. Hann potaði í kinnbeinið á mér og meiddi mig svo ég setti hendina fyrir. Hann grípur í hana og snýr upp á hana svo ég fríka út og reyni að losa takið og ýta honum frá mér með fætinum enn hann grípur um hinn fótinn kreistir hann og er að reyna að tosa mig á gólfið,“ segir Inga, og bætir við að eitt barna hennar hafi grátbeðið hann um að hætta.

Inga og önnur dóttir hennar grátbáðu gerandann næst um að fara. „Maðurinn minn steytir hnefann í loftið og byrjar að öskra á son minn að halda kjafti og kallar hann helvítis aumingja og labbar hægt að honum svo ég stekk á milli og urra með sömu hljóðum og komu á páskadag,“ segir Inga. „Sömu hljóð og komu í fæðingu barnanna minna. Hann hafði ráðist á son minn í febrúar þar sem hann skellti honum upp við vegg og í gólfið í þvottahúsinu og svo aftur á páskadag þar sem hann var að rífa af honum símann og endar með að rífa fötin utan af honum.“

Ég fékk skyndilegan verk í brjóstið og hryn í gólfið. Börnin horfðu á hann kýla mig í vegginn með þeim afleiðingum að hausinn fór í vegginn ég datt út og fékk flogakast og pissaði á mig

Skellt í gólfið í viðurvist barnanna

Inga segir gerandann aftur hafa bömpað hana, á sama tíma og hann horfði ógnandi á son hennar. Hún hafi ýtt á móti, en þá hafi hann tekið í hendur hennar, kreist þær og snúið upp á.

„Ég finn hvernig ég er farin að titra. Hann stendur upp… lyftir mér og skellir mér í gólfið. Ég lendi á herðablöðum og hnakkanum og rotast. Dóttir okkar fríkar út og ég heyri öskrin hennar í fjarlægð. Hann segir henni að halda kjafti og reynir að hrinda henni. Hún hleypur inn í herbergi. Ég man ekki hvernig ég komst fyrir framan herbergi barnanna þar sem hann heldur hnefanum á lofti og segir börnunum að halda sig inni í herbergi og halda kjafti,“ segir Inga, sem enn þá bað mann sinn um að yfirgefa heimili þeirra og snerta ekki börnin.

Því næst segir hún gerandann hafa kýlt hana í vegginn og börnin stumrað yfir henni.

„Ég fékk skyndilegan verk í brjóstið og hryn í gólfið. Börnin horfðu á hann kýla mig í vegginn með þeim afleiðingum að hausinn fór í vegginn ég datt út og fékk flogakast og pissaði á mig. Meðan önnur dóttir mín var að reyna að strjúka mér til meðvitundar þar sem hún sagði augun vera upp og ég öll stíf að hrisstast og sonur minn lýsir eins og drukknunarhljóð koma upp úr mér byrjar hann að öskra á þau aftur… Dóttir mín kallar mamma mamma mamma mamma og þau eru öll grátandi ég ranka við mér og horfi á hann taka í hana og ég urra aftur á hann að snerta þau ekki. Hann tekur í peysuna hennar, lyftir henni upp og kastar henni í gólfið þannig hún lendir á systur sinni.

Ég berst við sjálfa mig að snúa mér og finnst ég ekki geta hreyft mig nógu hratt enn næ að þrýsta honum upp við vegginn með að festa hann með iljunum og reyna að hindra hann í að komast inn. Hann ætlaði í son minn,“ segir Inga.

Á sama tíma segist Inga hafa heyrt dóttur sína frammi á gangi hrópandi á hjálp og lögreglu, hrópa að verið sé að drepa mömmu hennar.

„Það var happ að önnur tvíburadóttir mín smeygði sér fram hjá honum til að öskra á hjálp og biðja um lögguna. Nágrannakonan á neðri hæðinni sem er hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni hér var á leiðinni upp með símann,” segir Inga við Mannlíf. „Um leið og nágrannarnir komu inn varð hann sallarólegur. Hann sagði þeim að þetta væri bara misskilningur, ég hefði dottið og það hefði ekkert alvarlegt gerst nema jú að við hefðum bara verið að rífast,“ segir Inga og bætir við að nágrannarnir hafi heyrt allt og sagt gerandanum að þegja, um leið og þau fengu upplýsingar hjá dóttur hennar og hringdu í lögregluna.

Gerandinn var handtekinn og fluttur í handjárnum af heimilinu, og settur í einangrun í 72 tíma.

„Ég rotaðist tvisvar og í hvorugt skiptið stoppaði hann til að athuga hvort allt væri í lagi með mig,” segir Inga við Mannlíf. „Honum var gert skýrt að komi hann nálægt okkur ætti hann yfir höfði sér allt að árs fangelsi. Það verða svo réttarhöld í haust,“ segir Inga, en gerandinn hefur þegar verið ákærður fyrir þrefalda líkamsárás, gegn henni, syni hennar og dóttur.

Það þarf að laga þetta gat í kerfinu, því það eykur á áfallið, áhyggjurnar, streituna og álagið, að ekkert net grípi okkur heima á Íslandi

Á bakland sem styður hana, en vantar fjárhagslegan stuðning

Inga segir að hún og börnin séu hrædd og sorgmædd og næsta skref sé að koma fjölskyldunni aftur heim til Íslands. Segir hún að kerfið í Svíþjóð hafi virkað vel og allt sé gert til að hjálpa þeim að komast heim. Hins vegar sé ekkert net sem grípi þau hér heima.

Aðspurð nánar um aðstæður hennar og möguleika hennar til að komast heim til Íslands með börnin, svarar Inga að staðan sé erfið.

„Mig langar að komast heim áður en nálgunnarbanni lýkur, enn þá er það kerfisgapið sem tekur við. Ég fæ aðstoð hér eins mikið og þau geta, en það er ekki hægt að undirbúa neitt fyrir mig heima á Íslandiné húsnæði hjá Félagsþjónustunni né fjárhagsaðstoð sem grípur mig fyrr en ég hef skráð lögheimili heima á Íslandi. En ef ég myndi gera það núna missi ég öll réttindi hér og fæ því enga hjálp,“ segir Inga. „Það er því mikil óvissa og óþægindi sem taka við okkur og að vera ein með fjögur börn og í þessari stöðu er erfitt. Áhyggjurnar fyrir eru nægar og eru þau hér hrædd um að ég „crashi“ við heimkomu. Ég á fólk sem tekur utan um mig heima, en þau geta ekki boðið upp á fjárhagslegan stuðning.

Inga er komin með íbúð hér heima á Íslandi, sem hún getur fengið 1. júní. „Og litla gullið mitt er komin með pláss á leikskóla eftir sumarlokun sem þýðir að ég geti ekki byrjað að vinna fyrr en um það leyti. Ég væri til í að vinna á leikskóla, held að það sé gott með námi og gefandi.“

Fjölskyldan þarf í tveggja vikna sóttkví við heimkomu til Íslands. „Það gerir allt ferli flóknara og hægara. Þó að ég hlakki til að komast heim í fang fólksins míns er mikill kvíði yfir fyrstu mánuðunum. Þetta er ekki dásamleg staða, og sérstaklega með fjögur börn.

Aðspurð um hvort hún eigi fjármagn til að koma fjölskyldunni heim svarar Inga að svo sé ekki.

„Félagsþjónustan hér getur borgað flug fyrir okkur heim. En ég hef ekki efni á gámi undir búslóðina, sem kostar um hálfa milljón. Félagsþjónustan hér er að vinna í því fyrir mig að ég fái fjárhagsaðstoð, en þar sem við erum gift þá hef ég lítinn réttindi. Ég er búin að sækja um skilnað, en maðurinn minn hefur ekki klárað það ferli, né svarað neinu,“ segir Inga.

Þegar hún kemur til Íslands mun hana vanta fjárhagsaðstoð, að minnsta kosti í fyrstu. „En ég get ekki sótt um hana fyrr en eftir tveggja vikna sóttkví. Mér finnst skrýtið að það sé ekki hægt að leggja fram plan sem býður undirskriftar minnar hjá Félagsþjónustunni, svo það sé eitthvað ferli, eitthvað kerfi, sem grípur mann strax,“ segir Inga. „Ég hafði samband við þjónustumiðstöðvar, en fékk sömu svörin þar. Ekkert hægt að gera. Talaði við Bjarkarhlíð sem sendu mig á þjónustumiðstöð.“

„Við fáum enga hjálp heima á Íslandi fyrr en lögheimilið er skráð þar. Við getum ekki gert það núna því þá missum við réttindi okkar hér í Svíþjóð,“ segir Inga.

„Það þarf að laga þetta gat í kerfinu, því það eykur á áfallið, áhyggjurnar, streituna og álagið, að ekkert net grípi okkur heima á Íslandi,“ segir Inga, „því þangað viljum við komast, sem fyrst.“

Hvað er heimilisofbeldi?

Heimilisofbeldi er ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hálfu einhvers sem er honum nákominn, tengdur eða skyldur. Ofbeldið getur verið líkamlegt, andlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða jafnvel stafrænt. Þar sem gerandi og þolandi tengjast á þolandi oft erfiðara um vik með að slíta tengslum við gerandann og áhrif ofbeldisins verða djúpstæðari. Heimilisofbeldi er ekki bundið við heimili geranda eða þolanda og getur átt sér stað hvar sem er.

Lengi var svo litið á að heimilisofbeldi væri einkamál fólks og var hlutverk lögreglu oft að stilla til friðar, ná sáttum eða  koma aðilum í tímabundið var.  Undir þessum kringumstæðum var ítrekun algeng, börnum var lítt sinnt og ofbeldishringurinn hélt áfram. Á síðari árum hefur vitundarvakning orðið í samfélaginu varðandi heimilisofbeldi og skaðsemi þess. Lögregla hefur skipað heimilisofbeldismálum í forgang og gjörbreytt verklagi sínu í málaflokknum. Lögð er áhersla á að tryggja öryggi borgaranna, koma í veg fyrir ítrekuð afbrot og vanda rannsóknir heimilisofbeldismála, auk þess sem samstarf við félagsþjónustu/barnavernd sveitarfélaganna tryggir að þolendur, gerendur og börn hafa greiðari aðgang að nauðsynlegri þjónustu.

Verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála eru aðgengilegar hér.

Á neðangreindum síðum má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um heimilisofbeldi og hvert hægt er að leita eftir aðstoð:

Kvennaathvarfið: 561 1205 – https://www.kvennaathvarf.is

Bjarkarhlíð Reykjavík: 553 3000 – https://www.bjarkarhlid.is/

Bjarmahlíð Akureyri: 551 2520 – https://www.bjarmahlid.is

Stígamót: 562 6868  –  800 6868 – https://www.stigamot.is/

Heimilisfriður

Drekaslóð

Heilsuvera

Saman gegn ofbeldi

Kvennaráðgjöfin

Réttur þinn – Twoje prawa (útg 2019)

Réttur þinn – Your rights (útg 2019)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -