Þriðjudagur 23. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Íslendingar í banni víða um veröld

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Vonandi fara nú landamæri að opnast bráðlega svo auðveldara verði að fá flug heim,“ segir Apríl Harpa Tuankrathok sem hefur verið föst í Indónesíu vegna COVID-19 faraldursins og kemst ekki heim til Íslands með barnunga dóttur sína. Hún hefur búið í Indónesíu síðustu þrjú ár og upplifir nú fordóma í landinu þar sem útlendingum er kennt um að breiða út kórónuveiruna. Mannlíf ræðir við Apríl og nokkra Íslendinga sem búa erlendis um upplifun þeirra á tímum COVID-19 en næstum fjórir milljarðar, eða meira en helmingur jarðarbúa, hafa sætt einhvers konar útgöngubanni eða takmörkunum á ferða- og samkomufrelsi í 90 löndum á meðan faraldurinn geisar.

Góa Gunnarsdóttir stundar nám við lýðháskóla í Hróarskeldu í Danmörku. Mynd / Aðsend

Mjög einmanalegt

Góa Gunnarsdóttir stundar nám við lýðháskóla í Hróarskeldu í Danmörku og býr ásamt vinkonu sinni á heimavist skólans. „Við fluttum hingað í ágúst síðastliðnum, erum tvær hérna og búum einar. Það er allt mjög tómlegt hér vegna COVID-19, sérstaklega á heimavistinni, því við erum bara þrjár þar sem vanalega búa 100 manns. Allir voru sendir heim til sín þann 11. mars. Síðan þá höfum við fengið alla vega þrjár dagsetningar um hvenær skólinn muni opna, en því hefur stöðugt verið frestað. Þannig að okkur hefur hvorki tekist að finna vinnu né annað húsnæði vegna óvissu. Þetta er mjög óþægileg og einmanaleg staða.“

Hrafnhildur Ýr Benediktsdóttir Cummings býr í Frankfurt, Þýskalandi.
Mynd / Aðsend

Vantar upplýsingafundi

Hrafnhildur Ýr Benediktsdóttir Cummings hefur búið í Frankfurt í Þýskalandi frá árinu 2014 með þýskum kærasta sínum og hundi. Hún segir líf þeirra hafa gengið ágætlega þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. „Þetta hefur bara gengið ágætlega hjá okkur. Ég vann hvort sem er heima fyrir alþjóðlegt fyrirtæki og því var breytingin hjá mér ekkert rosaleg. Hins vegar er maðurinn minn sölumaður og keyrir á milli viðskiptavina, þar hefur orðið þónokkur breyting á; maður tekur ekki lengur í höndina á næsta manni til að heilsa, nota þarf grímu þegar farið er inn í allar verslanir og margt sem fór áður fram á staðnum er nú afgreitt í gegnum síma. Í mínu fylki var öllu lokað í upphafi, nema bensínstöðvum, matvörubúðum og öðru sem tengist mat. Svo var opnað fyrir eitt og annað í hollum. Veitingastaðir bjóða nú upp á heimsendingar og barir og veitingastaðir mega bjóða þjónustu sína, en með miklum takmörkunum.“

Hún segir að alltaf hafi mátt fara út í göngutúr eða til að stunda aðra hreyfingu, en það hafi verið á gráu svæði hvað væri bannað að gera og hvað ekki. „Upplýsingagjöf hefur ekki verið neitt sérstaklega góð og maður reynir bara að passa sig að gera helst ekki neitt til að gera óvart ekki eitthvað sem er bannað. Það er enginn einn opinber staður sem maður getur leitað til eftir upplýsingum eða daglegir upplýsingafundir eins og á Íslandi.“

- Auglýsing -
Apríl Harpa Tuankrathok var í meistaranámi ásamt því að vinna sem fararstjóri og reka ævintýrafyrirtækið Indisurfaris sem býður upp á bátsiglingar. Nú er hún í föst ásamt fjölskyldu sinni í Indónesíu og leitar leiða til að komast heim til Íslands.
Mynd / Aðsend

Föst um borð í rándýrri snekkju

Apríl Harpa Tuankrathok er stödd í Indónesíu ásamt 5 mánaða dóttur sinni og suður afrískum unnusta. Síðustu mánuði hefur fjölskyldan hefur lent í ýmsum hremmingum vegna COVID-19 og er nú föst um borð í milljarða króna snekkju.

„Ég átti bókað flug til Íslands þann 19. mars en ekkert varð af fluginu vegna faraldursins og ég hef ekki fengið annað flug síðan,“ segir Apríl. „Við þurftum hins vegar að fljúga til Malasíu til að endurnýja landvistarleyfið sem var útrunnið og rétt sluppum til baka áður en Malasíu var lokað. Þá komumst við að því að tímabundið vegabréf dóttur minnar var ógilt og okkur mæðgunum var báðum vísað úr landi. Það átti að senda okkur með næsta flugi til Malasíu og þannig stía okkur fjölskyldunni í sundur. Við máttum ekki einu sinni fara af flugvellinum til að pakka. Þetta var rosalega andstyggilegt.“

- Auglýsing -

Hún segir að þegar þetta gerðist hafi fjölskyldan verið flutt úr húsnæðinu sínu þar sem til stóð að flytja heim til Íslands. „Þannig að við vorum skyndilega húsnæðislaus með þriggja mánaða gamalt barn.“

Sem betur fer hafi þeim boðist vist í „æðislegri snekkju sem kostar um milljarð króna“. Tveimur mánuðum síðar er fjölskyldan enn um borð og segist Apríl vera í stöðugu sambandi við utanríkisráðuneytið til að komast til Íslands. „Nú krosslegg ég bara fingur og vona að það takist.“

Hún segir algjört útgöngubann gilda í Indónesíu og svo virðist sem heimamenn hafi fengið upplýsingar um að veiran berist með útlendingum. „Fyrir vikið vorum við hrakin burt með látum í upphafi faraldursins. Ef okkur vantaði mat þá þurftum við að láta sérstakt „batterí“ vita og það keypti mat handa okkur.“

Erfiðast segir hún hafa verið þegar faðir unnusta hennar greindist með COVID-19 og dó tveimur dögum síðar. „Það er hræðilegt að vita til þess að hann hafi verið einn þegar hann lést og maðurinn minn þurfti að syrgja með fjölskyldunni í gegnum Skype. Vonandi fara nú landamæri að opnast bráðlega svo það verði auðveldara að fá flug heim.“

Guðmundur Tryggvason býr í í Bohol á Filippseyjum.
Mynd / Aðsend

Óttast að hungursneyð dragi marga til dauða

Guðmundur Tryggvason hefur búið í Panglao Bahol á Filippseyjum síðastliðin 12 ár og kennir köfun. Hann segir að reglur stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins breytist mörgum sinnum á dag. „Ég flaug frá Melbourne í Ástralíu með síðasta fluginu til Filippseyja 14. mars og hef verið hér heima síðan þá. Lífið hérna er yfirleitt mjög gott, þótt reglur breytist stundum mörgum sinnum á dag. Það sem var samþykkt fyrir hádegi og gefið út getur verið úrelt klukkan 17. Svona hefur þetta verið síðustu vikurnar en það hefur ekki pirrað mig mikið.“

Hann segir að fyrstu þrjár vikurnar hafi gilt strangar reglur um hver geti verið úti, hvenær og hvers vegna og nú þurfi fólk sérstakan sóttkvíarpassa til að komast ferða sinna. Mjög víða séu eftirlitsstöðvar með herlögreglu sem skoði passa og skilríki þeirra sem fara í gegn. Hvorki sé siglt né flogið á milli eyjanna.

„Það hefur aðeins verið slakað á útivistarreglum þótt útgöngubann gildi til 31. maí og því miður virðir fólk þær ekki alltaf. Búðir hafa verið opnaðar og flestir komnir til vinnu aftur. Ég óttast að margfalt fleiri deyi úr hungri hér heldur en af völdum COVID-19. Fólk hefur ekki haft vinnu í margar vikur og margar fjölskyldur eru í vandræðum. Það er neyðaraðstoð fyrir hendi, en bara í mjög litlu magni fyrir flestar fjölskyldur. Það sem hefur auðveldað okkur íbúunum lífið er að ekkert COVID-19 tilfelli hefur komið upp.“

Edda Björk Ágústsdóttir býr í Hovden í Noregi.
Mynd / Aðsend

Ástandið næstum orðið eðlilegt

Edda Björk Ágústsdóttir býr í Hovden, litlum skíðabæ í Noregi, þar sem hún hefur meðal annars starfað sem bretta- og skíðakennari. Hún segir íbúana hafa virt þær reglur sem stjórnvöld settu vegna COVID-19 faraldursins. Allt hafi verið lokað um tíma en staðan sé nú næstum orðin eðlileg aftur.

„Í Noregi byrjuðu þeir upp úr 14. mars að loka skólum, veitingastöðum, líkamsræktarstöðvum og í raun öllum stöðum þar sem fólk safnaðist saman. Ég bý í litlum bæ úti á landi og fólk var ekki að stressa sig eða hamstra í búðum út af ástandinu. Hér eru allir pollrólegir og voða tillitsamir við náungann,“ lýsir Edda.

Hún segir að fyrir utan að hafa ekki vinnu þá hafi COVID-19 haft mjög lítil áhrif á líf hennar. „Ég náði að fara reglulega í skíðaferðir og á gönguskíði og um páskana var gefið leyfi fyrir því að opna skíðasvæðið, með varúðarreglum að sjálfsögðu. Svo eftir páska hefur allt smám saman opnað aftur og staðan hér er bara næstum eðlileg aftur. Núna er verið að plana sumar-„sísonið“ og auglýsa ferðir til Norðmanna í stað ferðamanna.“

Gísli Rafn Ólafsson býr í Kigali í Rúanda.
Mynd / Aðsend

Ástandið næstum orðið eðlilegtLeiður á inniverunni

Gísli Rafn Ólafsson býr í Kigali í Rúanda og starfar fyrir stór hjálparsamtök sem styðja bændur við að losna úr viðjum fátæktar. Hann segir að þar hafi svipuðum aðferðum verið beitt í baráttunni gegn COVID-19 og á Íslandi og gengið vel.

„Hér eru hlutir á nokkuð góðu róli enda vel haldið utan um þessi mál, ólíkt flestum öðrum ríkjum í Afríku. Rúanda er eitt af fáum löndum í Afríku þar sem fjöldi smitaðra er á niðurleið. Hér var farið eftir sömu hugmyndafræði og á Íslandi; notast við sóttkví, rakningu og einangrun og rétt eins og á Íslandi hefur það gengið upp,“ segir Gísli Rafn, en þetta er ekki fyrsta farsóttin sem hann upplifir í Afríku, því fyrir fimm árum tók hann þátt í aðgerðum gegn ebólufaraldri í Vestur-Afríku og varði þar sex mánuðum í Líberíu, Sierra Leone og Ghana.

Gísli segir að þegar COVID-19 faraldurinn skall á í Rúanda hafi hann og kona hans ákveðið að hún færi til Íslands þar sem þau eiga fimm uppkomin börn. Hann hafi ákveðið að verða eftir, enda mikil vinna fyrir höndum. „Nokkrum dögum seinna, eða um 23. mars, var svo sett á útgöngubann og allar samgöngur, bæði á lofti og landi, stöðvuðust,“ segir hann. „Fólk mátti aðeins fara út í búð, í apótek eða til læknis. Það útgöngubann stóð alveg til 4. maí, en þá var rýmkað um reglurnar og nú er einungis útgöngubann eftir klukkan 20 á kvöldin og til 5 á morgnana.“

Að hans sögn var dálítið einkennilegt að vera meira og minna alveg innandyra í sjö vikur. „En það fór ekki illa um mig, enda rafmagn nokkuð stöðugt hér í Rúanda miðað við önnur lönd í Afríku, netið ágætlega hraðvirkt og vel þróuð smáforrit til þess að fá sendan heim mat frá helstu veitingastöðum borgarinnar. Það er þó ekki hægt að neita því að maður var orðinn dálítið þreyttur á inniverunni, enda fór ég fyrsta morguninn á fætur klukkan 5, fór beint út á vespu og keyrði upp á hæð sem er með gott útsýni yfir Kigali-á og horfði á sólarupprásina sem fékk mann til að gleyma allri inniverunni.“

Kristján Sigurðsson hefur verið á ferðalagi um Víetnam.
Mynd / Aðsend

Enginn vírus sjáanlegur

Kristján Sigurðsson hefur verið á ferðalagi um Víetnam undanfarna mánuði. Hann hefur ekki mikið orðið var við COVID-19 faraldurinn á ferðalaginu. „Það hefur farið vel um mig hér í Víetnam. Enginn vírus sjáanlegur.

Jórunn Steinsdóttir bjó ásamt fjölskyldu sinni á Spáni en er nú flutt heim til Íslands.
Mynd / Aðsend

Allt fór til fjandans

Jórunn Steinsdóttir bjó með fjölskyldunni á Spáni og var þar í langri einangrun eftir að útgöngubann var sett á í landinu. „Við fluttum hingað til landsins a sunnudaginn eftir mjög langt og erfitt ferðalag frá Spáni. Fluttum út en allt fór til fjandans og við eyddum 50 dögum í einangrun,“ lýsir hún.

Héðinn Svarfdal, Elva Sturludóttir og synirnir Goði og Víkingur í Guanacaste-héraði í Kosta Ríka.
Mynd / Aðsend

Gefast ekki upp

Héðinn Svarfdal býr ásamt fjölskyldu sinni í Kosta Ríka. Þar opnuðu þau veitingahús við ströndina í febrúar og hafa barist í bökkum undanfarnar vikur. „Ekki nóg með að ferðamenn séu ekki til staðar, heldur hafa ótal margir misst vinnuna í kjölfarið og eru eðlilega ekki mikið að sækja í veitingahús,“ segir Héðinn. „Við gefumst hins vegar ekki upp og áttum okkur á mikilvægi staðarins fyrir starfsfólkið okkar og fjölskyldur þeirra. Ef við komumst í gegnum þetta tímabil, ætti staðurinn að tóra um ókomna tíð.“

Að sögn Héðins er fjölskyldan nægjusöm og það fer ekki illa um hana í sólinni, en skortur á skólavist, íþróttum og fleiru bjóði óneitanlega upp á áskoranir. „Manni fallast dálítið hendur þegar spurt er: „Hvað ætlum við að gera skemmtilegt í dag,“ segir hann, en tekur fram að á mánudag verði byrjað að slaka á þeim aðgerðum sem hafa verið nýttar til að sporna við útbreiðslu á COVID-19 í Kosta Ríka. Skólar verði reyndar áfram lokaðir og takmarkanir á þjónustu veitingastaða og hótela en strendur verði opnaðar á nýjan leik, en þó með takmörkunum. Stjórnarskráin komi í veg fyrir að beinlínis sé hægt að meina fólki að vera utandyra. Mest hafi verið einblínt á að draga úr bílaumferð, einkum til að fyrirbyggja að borgarbúar mæti á strendurnar. Suma daga mega ákveðin bílnumer ekki sjást á vegum. „Lögreglan hefur verið dugleg að klippa númer af bílum sem brjóta þessar reglur að tilefnislausu og því fylgir einnig sekt.“

Hann segir fullyrt að landið opni aftur fyrir ferðamenn 15. júní, en ferðaþjónustuaðilar séu svartsýnir á það. „Enda er horft til þess að viðhalda góðum árangri í forvörnum, þar sem aðeins rétt rúmlega 800 COVID-19 tilfelli hafa greinst í landi með um fimm milljón íbúa. Menn eru því hræddir við að opna of snemma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -