Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Íslendingar senda börnin í „hreinasta helvíti“ í næstu viku

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Að minnsta kosti fimm barnafjölskyldur bíða þess nú að verða endursendar til Grikklands,“ segir Sema Erla Serdar, stofnandi hjálparsamtakanna Solaris. Helgi Hrafn Gunnarsson Pírati segir óboðlegt að senda fólkið aftur til Grikklands. Engu máli skipti þó að þau hafi þar stöðu flóttamanna.

Til stóð að senda unga sex manna írakska fjölskyldu til Grikklands á fimmtudag, þar sem hún hefur stöðu flóttamanna. Þeim flutningi var frestað með skömmum fyrirvara. Rauði krossinn mótmælti því harðlega á miðvikudag að senda börn til Grikklands, þar sem mikil úlfúð ríkir í garð flóttafólks.

Mannlíf ræddi við fjölskylduna fyrir hálfum mánuði. Mohammed Al Deewan og Wedyan Al-Shammari flúðu pólitískar ofsóknir í Írak árið 2017 og fengu alþjóðlega vernd í Grikklandi. Vegna ömurlegra aðstæðna flúði fjölskyldan til Íslands og sótti um umþjóðlega vernd hér í júní í fyrra. Útlendingastofnun synjaði fólkinu um efnislega meðferð mála þeirra. Börn hjónanna eru níu ára, fimm ára, fjögurra ára og eins árs.

Sjá einnig: Ætla að vísa fjórum börnum undir níu ára úr landi

Sema segir að fólkinu hafi á síðustu stundu verið tilkynnt um að brottvísuninni hefði verið frestað fram í næstu viku. Nú standi til að þau verði flutt „í boði íslenskra stjórnvalda“ til Grikklands, ásamt fleira flóttafólki með beinu flugi. „Reynsla okkar sem vinnum í þessum málaflokki er að þegar sendar eru einkavélar þá er hópað í þær og reynt að koma eins mörgum um borð og hægt er. Ég óttast að fleiri börn og barnafjölskyldur fari í þetta flug í næstu viku.“

Rauði krossinn mótmælir

- Auglýsing -

Rauði krossinn á Íslandi mótmælti á miðvikudag fyrirhuguðum brottvísunum barnafjölskyldna, sem hafa fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi, til landsins. Fram kom að fimm fjölskyldum, hafi borist tilkynningar um að stjórnvöld muni flytja þær til Grikklands á næstu dögum og vikum. Á sama tíma berist fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhaf.

Í yfirlýsingu Rauða krossins kemur fram að fregnir berist frá Grikklandi um harðræði grísku lögreglunnar og að fólki sé meinað inngöngu. Mikil ólga sé í landinu og andúð í garð flóttafólks ríkjandi. Ætla megi að sú ólga fari vaxandi. „Rauði krossinn á Íslandi hefur ítrekað bent á að aðstæður þeirra sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Grikklandi séu síst skárri en þeirra sem enn hafa umsókn sína til meðferðar þar í landi. Er það sjónarmið stutt af alþjóðlegum skýrslum og frásögnum aðila sem starfað hafa fyrir alþjóðleg hjálparsamtök í Grikklandi, líkt og fram kom í umfjöllun RÚV í fréttaskýringaþættinum Kveik 4. febrúar,“ segir í yfirlýsingunni.

Mynd / Leifur Wilberg

Þrátt fyrir þetta haldi dómsmálaráðherra og settur forstjóri Útlendingastofnunar því fram að þeir sem áður hafi hlotið vernd í Grikklandi hafi sambærileg lagaleg réttindi og þeir sem fái vernd í öðrum ríkjum.

- Auglýsing -

Hreinasta helvíti

Sema segir að ástandinu í Grikklandi sé af þeim sem þar dvelja lýst sem „hreinasta helvíti“. Þar sé hvorki að fá atvinnu né húsnæði og ástandið fari versnandi eftir að Tyrkir opnuðu landamærin fyrir flóttafólki. Fólkinu mæti miklir fordómar og dæmi séu um að nýnasistar taki á móti því með ofbeldi og áreitni. Grísk stjórnvöld ráði ekkert við ástandið. „Hvernig í ósköpunum getum við verið að senda börn í þessar aðstæður?“ spyr hún.

Fulltrúar Sólaris funduðu með dómsmálaráðherra á mánudag um stöðuna í málaflokknum. Þar lagði Sólaris fram tillögur fyrir ráðherra að hafa í huga þegar kemur að umbótum í málaflokknum. Á meðal þeirra var að stjórnvöld á Íslandi mótuðu sér heildstæða stefnu með mannúð að leiðarljósi í málefnum fólks á flótta, stöðva þurfi brottvísanir barna með flóttabakgrunn frá Íslandi til Grikklands og að hagsmunir barna séu hafðir að leiðarljósi þegar ákvarðanir um mál þeirra séu teknar.

Spurð hvort barnafjölskyldurnar sem um ræðir eigi sér einhverja von bendir hún á að verið sé að reka dómsmál fyrir hönd fjölskyldunnar frá Írak. Hún segir að það mál verði til lykta leitt jafnvel þó að fólkið verði flutt úr landi. Sema er sjálf í sambandi við þessar fjölskyldur. „Maður hefur séð að fólk er mjög reitt yfir þessu. Það sættir sig ekki við þessar aðstæður en forðast að tala um framtíðina fyrir framan börnin sín. Það er forkastanlegt að senda fólk aftur í þessar aðstæður í nafni okkar allra. Á meðan staðan er óbreytt í Grikklandi þá er ekki boðlegt að senda þangað börn.“

Sema veit ekki nákvæmlega hvaða dag fólkið verður sent úr landi í næstu viku en segir að framkoma stjórnvalda í garð fólksins sé ömurleg. Hún nefnir sem dæmi fjölskylduna frá Írak. „Þau gerðu ráð fyrir að verða send úr landi í dag [fimmtudag] og voru sennilega búin að kveðja vini sína í skólanum. Svo er þessu bara frestað. Þetta unga fólk er mjög hrætt um börnin sín og framtíð þeirra. Þau munu ekki geta sest að í Grikklandi. Þeirra bíður ekkert þar. Þau eru búin að vera á flótta frá árinu 2017, í þrjú ár, og mögulega bíður þeirra ekkert annað en fleiri ár á flótta.“

Óboðlegar aðstæður

„Það liggur bara fyrir að það er mat Rauða krossins, sem er áreiðanlegasta heimildin sem við höfum, að það sé óboðlegt að senda fólk til Grikklands – hvað þá börn,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann ræddi útlendingamál stuttlega við Áslaugu Örn Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á þriðjudaginn á Alþingi. Í máli Áslaugar Örnu kom fram að engum væri lengur vísað til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Aftur á móti væri fólk sent til Grikklands sem hefði fengið þar stöðu flóttamanna þar í landi.

Helgi segir að þessar skýringar haldi engu vatni. „Einu varnirnar sem við heyrum fyrir þessum bölvuðu ákvörðunum er sú ranga greining að það sé betra að vera í Grikklandi ef maður er með stöðu flóttamanns en ekki bara hælisleitandi,“ segir hann. Kjarni málsins sé að aðstæður fyrir þennan hóp séu óboðlegar í Grikklandi og fari hratt versnandi. „Við höfum viðurkennt að ástandið sé svo slæmt í landinu að við sendum ekki fólk þangað á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er augljóst að það eru hagsmunir þessara barna að vera hér áfram. Hann bendir líka á að UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, mæli gegn því að fjölskyldur séu sendar aftur til Grikklands. Það að senda þangað börn gangi gegn alþjóðlegum skuldbindingum okkar.

Helgi segir að meirihluta á þingi vanti fyrir því að taka betur á þessum málum. Það eina sem sé í stöðunni sé að halda þessum málum á lofti og vonast til að Íslendingar kjósi í næstu alþingiskosningum fólk á þing sem tekur málaflokkinn alvarlega. Hann vill að Ísland taki við fleira flóttafólki – en ekki öllum. „Það sem ég vil er að mál þessa fólks fái efnismeðferð hér á landi. Þar með er ekkert víst að þetta fólki fái jákvætt svar – þó að það sé líklegt. Ég vil bara að málin þeirra séu skoðuð.“

Verðmæti fólgin í fleira fólki

Helgi er þeirrar skoðunar að Evrópa þurfi að taka á vanda flóttamanna sameiginlega. Hann geti ekki bara verið vandamál Ítala og Grikkja. Hann segir það mikinn misskilning að líta á flóttamenn sem byrði á samfélag okkar. Best væri ef hægt væri að standa fyrir reglubundnum fólksflutningum og gera fólki auðvelt að aðlagast samfélaginu okkar. Hann bendir á að lönd eins og Bandaríkin og Kanada, tvö af öflugri ríkjum heimsins, séu í grunninn samansett af fólki sem er af innflytjendum komið. „Aukinn mannfjöldi þýðir stærra hagkerfi. Okkur vantar fólk á Íslandi. Auðvitað getur álagið tímabundið orðið meira á innviðina, en til lengri tíma felast verðmæti í fólki. Þetta snýst um að dreifa álaginu. Hann segir að pólitíski vandinn snúist í grunninn um útlendingaandúð og -ótta, sem þrífist í öllum samfélögum að einhverju leyti.“ Hann er þó ekki mjög bjartsýnn á framhaldið. „Vandinn er sá að enginn hér þarf að horfast í augu við þessi börn þegar þau eru flutt úr landi. Enginn þarf að tala við þau eftir tíu ár í Grikklandi, eða hvar sem þau verða. Hér ríkir fullkomið ábyrgðarleysi í þessum málum.“

Hjálparsamtökin Solaris funduðu með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra í vikunni og afhentu henni þessar tillögur:

  • Íslensk stjórnvöld verða að móta sér heildstæða stefnu með mannúð að leiðarljósi í málefnum fólks á flótta sem allra fyrst.
  • Stöðva þarf brottvísanir barna með flóttabakgrunn frá Íslandi til Grikklands – óháð stöðu þeirra þar. Veita þarf þeim sem fengið hafa vernd í Grikklandi efnismeðferð hér á landi.
  • Ávallt skal hafa hagsmuni barna að leiðarljósi og það sem þeim er fyrir bestu þegar teknar eru ákvarðanir um mál þeirra.
  • Leggja þarf áherslu á að þau börn sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt foreldrum sínum fái að tjá sig í málsmeðferðinni.
  • Yfirvöld þurfa að endurskoða notkun sína á Dyflinnarreglugerðinni og forðast að nota hana.
  • Bæta þarf þær aðstæður sem umsækjendur um alþjóðlega vernd búa við á Íslandi.
  • Auka þarf aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd og þeirra sem hafa fengið stöðu sína sem flóttafólk viðurkennda að heilbrigðisþjónustu og annarri nauðsynlegri þjónustu.
  • Rjúfa þarf félagslega einangrun umsækjenda um alþjóðlega vernd og þeirra sem hafa fengið stöðu sína sem flóttafólk viðurkennda.
  • Jafna þarf þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og tryggja að hún sé sú sama óháð því hvort einstaklingar séu í þjónustu hjá Útlendingastofnun eða sveitarfélögum og sú sama á milli sveitarfélaga. Þetta á til dæmis við um aðgengi barna og ungmenna að skóla- og tómstundastarfi.
  • Ákvarðanir íslenskra yfirvalda um málefni fólks á flótta þurfa ávallt að vera í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar samþykktir eins og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindasáttmála Evrópu og Samning Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -