„Hæ, heyrðu ég er með heilaæxli,“ sagði Jón Mýrdal við Sigrúnu Guðlaugsdóttur, eiginkonu sína, í símtali af spítalanum. Fyrir þremur árum greindist Jón með lífshættulegt heilaæxli á stærð við sítrónu sem var skorið samdægurs. Æxlið hafði grasserað í mörg ár og var farið að valda breyttri hegðun í fari og getu Jóns.
Jón Mýrdal segir frá reynslunni sinni í þættinum, Segðu mér, á RÚV.
Sigurlaug M. Jónasdóttir þáttastjórnandi spyr hann hvort hann hafi verið orðinn eitthvað skrítinn. Jón svarar kíminn að hann: „sé skrítinn og að venjulegur maður hefði að öllum líkindum greinst fimm árum fyrr.“
Sobril, kulnun og þunglyndi
Ýmis teikn og breytingar í fari Jóns voru farnar að gera vart við sig. Sjálfur lýsir hann sér sem orðheppnum og fljótum til svara, en það hafi verið farið. Hægst hefði verulega á öllu í fari hans og hann farinn að sofa mikið. Jón leitaði til lækna og fékk sobril og þunglyndislyf. Sjálfur taldi Jón og aðstandendur hans að hann væri orðinn þunglyndur og fann hann fyrir einkennum kulnunar.
„Ég var ekkert þunglyndur, ég var bara með heilaæxli,“ segir Jón í viðtalinu hjá Sigurlaugu.
40 ísblóm og 4L af kók
Minnisleysi einkennir tímann fyrir greiningu Jóns, en hann segir þá frá atviki þar sem Sigrún kona hans, tekur á móti honum á heimili þeirra, eftir búðarferð. Jóni hafði mistekist að opna útidyrahurðina og stóð með hendur fullar með; einn haldapoka af nammi, 40 ísblóm og 4 lítra af kóki. Því næst gekk hann inn og fór að sofa.
Skakkur og dofinn í andliti
Nína, vinkona Jóns, greip þá í taumana og dreif hann með sér upp á bráðamóttöku þar sem hann var sendur í sneiðmyndatöku og risavaxið æxli kom í ljós. Jón hringdi í kjölfarið í Sigrúnu konu sína og sagði: „Hæ, heyrðu ég er með heilaæxli.“
Bregðast þurfti strax við og var Jón samstundis sendur í aðgerð þar sem þrýstingur á heila og líkur á flogi voru orðnar lífshættulegar.
„Rosa sjokk“
Greining og aðdragandi aðgerðarinnar var snarpur. „Þetta var rosa sjokk, þetta var bara eins og bílslys,“ útskýrir Jón þegar hann er spurður út í viðbrögð aðstandanda og hans sjálfs „Ef ég hefði þurft að bíða í marga mánuði – þá hefði ég verið mjög kvíðinn.“
„Löngu hættur að spá í þessu“
Aðspurður hvort reynslan hafi mótað hann eða fyllt hann þakklæti. „Nei, eiginlega ekki…“ svarar hann og útskýrir að það sé meðal annars vegna minnisleysis. „Ég er löngu hættur að spá í þessu […] ég bara held áfram.“