„Ég er fjarska glaður yfir að það sé komin þessi niðurstaða varðandi ásakanir um meinta sjálftöku mína úr sveitarsjóði. Hér á Ströndum hafa verið miklar tröllasögur á flugi og mér hefur sárnað hvað margt fólk virðist hafa lagt trúnað á ýmiskonar lygaþvælu og jafnvel dreift henni áfram.“ Þetta segir Jón í samtali við Mannlíf.
Aðspurður um framhaldið segist Jón ætla að bíða og sjá hver viðbrögð hreppsnefndarinnar verða.
„Núna ætla ég að hinkra við og sjá hver viðbrögð hreppsnefndarinnar í Strandabyggð verða, en þau funda á þriðjudaginn í næstu viku. Þar verður skýrslan frá KPMG til umfjöllunar.“
Segist hann hálfparinn vona að hreppsnefndin biðjist afsökunar en efast um að sveitastjórinn geri það, það sé ekki „í takt við karakter“ hans.
„Ég er hálfpartinn að vona að hreppsnefndin vilji láta gott heita og biðjist jafnvel afsökunar fyrir hönd starfsmanna sinna sem staðið hafa á bak við þessar ásakanir, sveitarstjórann og íþrótta- og tómstundafulltrúann, sem jafnframt eru oddvitahjónin. Ég hef hins vegar enga sérstaka trú á að ég fái afsökunarbeiðni frá þeim sjálfum. Það væri engan veginn í takt við karakter sveitarstjórans. Frá honum á ég miklu frekar von á nýrri gusu af óhróðri, en vona þá að fólkið hér í byggðalaginu verði kannski ekki jafn ginkeypt fyrir svona ósannindum í framtíðinni.“