Þriðjudagur 23. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Jóna Símonía sagnfræðingur og jólabarn: „Enginn veit hvenær árs Jesú fæddist“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jóna Símonía Bjarnadóttir er viðmælandi Gunnhildar Kjerúlf Birgisdóttur í hlaðvarpinu Jólaseríunni. Jólaserían er nokkurs konar undirbúningsþáttur fyrir jólin þar sem ýmsar hliðar jólanna verða skoðaðar; hefðir, sögur, trú, töfrar, matur og skraut.

Jóna Símonía er sagnfræðingur og sannkallað jólabarn. Raunar svo mikið jólabarn að hún er gjarnan kölluð Jóla-Jóna á Ísafirði, þar sem hún býr – fædd og uppalin. Hún er afar fróð um jólin, sögu þeirra og íslensku hefðirnar.

 

Jólum skeytt saman við Kristni

Aðspurð um íslensku jólahefðina, allt frá upphafi, stendur ekki á svörum frá Jónu.

„Það sem er svo skemmtilegt við jólin er þessi saga þeirra, sem er náttúrulega ævaforn. Þjóðirnar hérna á norðurslóðum héldu alltaf hátíð á þessum árstíma, sem tengdist því að sólin hvarf og kom aftur. Upphaflega héldum við Íslendingar náttúrulega heiðin jól, sem gengu einmitt út á það að fagna sigri sólarinnar á myrkrinu og endurkomu hennar – þessar sólstöður. Þannig að við gerðum svona eins og aðrar þjóðir, allavega í norðanverðri Evrópu; að fagna þessu með miklum veislum og væntanlega blótum.

Það sem síðan gerist er að við tökum Kristni. Það er líka dálítið áhugavert að skoða jólin út frá því. Hvernig það gerist og svo hvernig þessi Kristna hátíð í raun verður, sem allsstaðar ber heiti tengt Kristi, nema á norðurlöndunum, þar sem við tölum um jól. Án þess að vita í raun alveg hvað það þýðir.

- Auglýsing -

Málið er að enginn veit hvenær árs Jesú fæddist. Trúlega hefur það verið að sumri eða vori. En það er þetta; hvernig þetta var útfært. Þessi hátíð sem jólin voru á sínum tíma, hún var stór og mikil. Hvað gerirðu til þess að tryggja nýja trú? Þú bannar ekki gömlu, góðu hátíðarnar. Þú setur þetta saman.

Þannig að það er mjög margt sem bendir til þess að þetta sé svona til þess að tryggja nýja trú í sessi. Þá tekurðu svona stóra, gamla hátíð og setur í nýjan búning. Lengi vel á Íslandi þá héldu menn jól kannski upp á gamlan máta, öðruvísi en það að þeir mættu í messu, en héldu að öðru leyti bara stórar veislur með mat og drykk.“

Jóna segist hafa sérstakan áhuga á einmitt þessu; hvernig okkar jól verða til í nýrri trú, þrátt fyrir að það sé ekkert sem segi okkur að atburðir Biblíunnar í kringum fæðingu Jesú tengist þessum tíma á nokkurn hátt. Þessu sé í raun bara skeytt saman vegna hentugleika.

- Auglýsing -

„Þetta er svona pólitík. Það er líka áhugavert til dæmis að í ensku og þýsku kemur þetta Christmas inn, sem er Kristsmessa, en við hinsvegar höldum bara þessu gamla heiti, sem er jól. Menn eru ekki vissir í hvað það vísar, hvaðan orðið kemur, en það var allavega talað um jól sem þessa fornu hátíð. Mögulega tengt mánaðarheitinu, Ýli, eitthvað slíkt. Það hefur aldrei komið endanleg niðurstaða í það.“

 

Illþýði gegn hinum fátæku

Talið berst að helstu karakterum og, í sumum tilfellum, óværum íslensku jólanna.

„Grýla er til dæmis mjög gömul tröllkona. Hennar er getið, að mig minnir, í heimildum um árið 1000. En tengingin við jól kemur í raun ekki fyrr en á sautjándu öldinni, þegar fyrst sést tenging á Grýlu og hyski hennar við jólin. Jólasveinarnir eru náttúrulega bara hluti af börnum Grýlu, þannig að hennar hyski tengist bara því að vera tröll og það eru bara þessir sveinar hennar sem tengjast jólum. Það er tiltölulega stutt síðan í sjálfu sér að það gerist í okkar sögu. Svo þróast þeir náttúrulega drastískt.

Það er líka skýring á því. Þegar maður hugsar um Ísland hér áður og fyrr, þá eru það miðaldirnar í Kristinni trú, þar sem þú ferð í messu og sækir þá einmitt miðnæturmessurnar. Það er þaðan sem við höfum sögurnar um álfana og tröllin sem komu þegar einhver var einn heima að gæta bæjar. Þá voru líka haldnar miklar veislur. Svo kemur í raun svona strangtrúnaður og þá fer að draga úr þessu. Svo skiptum við líka um trú – úr Kaþólskri yfir í Lútherska trú. Því fylgir strangtrúnaður og þá breytist það líka úr því að vera þessi mikli veisluglaumur. Það sem gerist líka er að ástandið á Íslandi versnar og jólin verða hátíðin þar sem þú gerir virkilega vel við þig í mat og drykk, og tjaldar öllu til. Í fátæku samfélagi er ekkert skelfilegra heldur en að fá eitthvað svona hyski heim til þín, sem rænir frá þér því sem skiptir svo miklu máli á þessum tíma. Þannig að jólasveinarnir verða svona einstaklingar sem koma til að ræna og rupla – taka það sem skiptir þig einna mestu máli.“

Aðspurð segir Jóna að þessi óþjóðalýður hafi vissulega verið notaður til þess að hræða fátækt fólk hér á árum áður.

„Já, það er ljóst af húsagatilskipun frá 18. öld, þar sem er verið að reyna að banna það að hræða fólk með jólasveinum, að það er það sem var gert. Það er verið að nota þetta illþýði, sem hét ýmsum nöfnum og framdi ýmiss konar verk, til þess að halda fólki að vinnu. Þetta var greinilega svona liður í því. Bara eins og með jólaköttinn. Hvað var meira ógnandi en það að skrambans kötturinn kæmi og annað hvort æti þig, eða kannski sem verra var, jólamatinn þinn. Þannig að þú varðst að vera duglegur að vinna fyrir jólin til að fá flík í jólagjöf. Þannig að maður getur sagt að þróun þessa illþýðis fylgi á vissan hátt breyttu samfélagi í aldanna rás.“

Mynd eftir Tryggva Magnússon úr bókinni Jólin koma.

Margt býr í myrkrinu

Jóna segir að svipað sé uppi á teningnum þegar kemur að sögum af álfum og huldufólki frá þessum tíma. Alltaf hafi boðskapurinn verið nokkurn veginn sá að ef þú hegðaðir þér rétt uppskarstu ríkidæmi, en ef þú gerðir eitthvað rangt þá fór illa fyrir þér.

„Á þessum tíma var það líka þannig að heimilisfólk fór prúðbúið til messu. Það fóru kannski hópar um héruð, prúðbúið fólk, til kirkju, og þaðan eru væntanlega að einhverju leyti komnar þessar hugmyndir um álfahópa.

Með nýrri trú breytast sögur og menn horfa í baksýnisspegilinn og ég man að þegar ég var krakki velti ég því oft fyrir mér hvers vegna einhver einn var eftir að passa bæinn á meðan hinir fóru í messu. Í mínum huga var þetta eitthvað sérkennilegt. Af því að það voru náttúrulega kirkjur í flestum sveitum. Maður ólst upp við það. Ekki langt að fara kannski í messu. En þessu horfði bara öðruvísi við í Kaþólskum tíma á miðöldum. Þá voru börnin kannski ekki tekin með í messu og þá þurfti einhver að vera heima að gæta barnanna. Svo var það líka oft þannig að fólk leit við á bæjum á leið sinni í og úr messu, og þá þurfti einhver að vera á bænum til að taka á móti gestum. Svo þurfti náttúrulega að gefa fénu og allt þetta.“

Jóna segir að það sé í raun ekki almennilega hægt að skilja það á okkar tíma, hversu náttúrulega allar þessar sögur af vættum, ófétum, álfum og tröllum spruttu hér áður fyrr. Ekki fyrr en maður ef til vill upplifir rafmagnsleysi og skilur hvað það er að búa í myrkri, þó ekki sé nema um stundarsakir.

„Ef maður upplifir að það fari rafmagnið af öllum bænum, í svartasta skammdeginu, þá ferðu út og það er kolniðamyrkur. Þá skilur maður líka hvernig oft var hægt að ala á ótta og myrkfælni. Því það var þetta svellkalda myrkur og svo náttúrulega alls konar hljóð. Það var bara svo auðvelt að ímynda sér að þarna úti í þessu mikla myrkri væru ýmsar vættir.

Þegar maður er að tala um þetta við til dæmis börnin í dag, þá eiga þau pínu erfitt með að skilja þetta og finnst oft óttaleg vitleysa að fólk hafi trúað á þetta allt saman. En um leið og maður getur sett þau í þær aðstæður að upplifa þetta kolsvarta myrkur, þá kemur þetta. Þau eru bara svo vön allri þessari ljósmengun. Ég skil mjög vel að það hafi verið hægt að nota þetta sem tæki á fólk til þess að halda því að vinnu.“

 

Íslenskt jólahald nokkuð hefðbundið

Jóna segir það áhugavert að skoða hversu hefðbundið jólahald sé í raun á Íslandi. Ýmsir ævagamlir siðir hafi fest sig í sessi og sitji sem fastast.

„Ég næ í skottið á þeim tíma þegar jólatréð var skreytt á Þorlák. Á Þorláksmessu skreyttu foreldrar mínir jólatréð og svo var stofunni lokað. Það var ekkert verið að skreyta fyrr en á Þorláksmessu. Það mátti svona aðeins fara að nefna jólin í desember en Íslendingar voru ekki svona með aðventuna eins og aðrar þjóðir. Þetta eru leifar af þessu gamla samfélagi, þar sem þú varst að vinna fram að jólum og jólaundirbúningurinn fólst í að gera hreint.

Það var nú eitt, jólahreingerningar. Svo fórstu í bað og þú fórst í hrein föt. Allt þurfti að vera hreint og fínt og bjart á jólum. Og við tókum þetta bara svolítið með okkur inn í nútímann. Það er tiltölulega stutt síðan að það varð meira frjálsræði í þessu og þú gast bara farið að kaupa jólatré og jólaskraut svona löngu fyrir jól.“

Mynd úr einkasafni.

Skata, epli og appelsínur

Þegar Jóna er spurð út í það hvernig jólin hafi verið á æskuheimili hennar byrjar hún á Þorláksmessu.

„Það var skata á Þorlák. Þá var einmitt farið í bæinn að versla, jólatréð skreytt og heimilið skreytt. Klárað að pakka inn jólagjöfum. Það var alltaf lambakjöt í matinn á aðfangadagskvöld og svona allt það besta með því sem þá var, og svo epli og appelsínur. Þegar ég er að alast upp þá er ekki sjálfgefið að það sé alltaf hægt að ganga út í búð og kaupa alla þessa ávexti sem við höfum í dag. Þannig að epli og appelsínur tilheyrðu sannarlega jólunum, og svo mandarínur þegar þær fóru að koma. Ég held að ég sé alin upp við mjög hefðbundin, íslensk, íhaldssöm jól.

Svo voru pakkarnir opnaðir á aðfangadagskvöld, oft voru afi og amma hjá okkur. Svo kom fólk í heitt súkkulaði um kvöldið eða við fórum eitthvað í heimsókn í heitt súkkulaði. En við fórum ekki í messu. Það varð svona seinni tíma – eftir að miðnæturmessan kom. Alltaf var sest að borðum um leið og klukkan hringdi í útvarpinu og messan í Dómkirkjunni byrjaði.“

 

Þarf að pakka öllu heimilinu til að rýma fyrir skrauti

Jóna segir að heima hjá sér hafi allt verið svona reglufast í tengslum við jólin og að þannig sé það ennþá hjá henni í dag.

„Ég held í þetta allt saman, að öðru leyti en því að ég skreyti mun fyrr. Heima hjá mér er það þannig að ég þarf beinlínis að pakka heimilinu til þess að koma jólaskrautinu fyrir. Þannig að þetta er svolítið mikil vinna. Svo ég er oft búin að því og löngu farin að undirbúa svona sitthvað í sambandi við jólin.

Ég baka ennþá gömlu góðu smákökurnar, lagköku og eitthvað svona – íhaldssöm í þeim bissness. Svo er aðfangadagur þannig að klukkan sex er steikin tilbúin og sest að borðum.

Ég tók svo upp einn nýjan sið, sem er húslestur, sem náttúrulega tíðkaðist alltaf. Þannig að hjá mér er húslestur á aðfangadagskvöld. Svo er það svolítið skemmtilegt að yngri systir mín sem ólst upp við það að þurfa að sitja undir þessum húslestri, ekkert mjög glöð, er búin að taka upp þennan sið. Þetta er gert áður en pakkarnir eru opnaðir; þú ert búinn að borða, búinn að ganga frá uppvaskinu og þá sestu aðeins niður til að lesa. Það getur þess vegna verið þjóðsaga, einhver jólasaga, jólaguðspjallið. Bara svona aðeins að slaka á áður en það er byrjað að opna pakkana.

Svo er maðurinn minn að norðan, þannig að hann kom með laufabrauð og laufabrauðsbakstur inn í okkar jólahald. Hjá honum hafði svo alltaf verið svín, en ég tók það nú ekki í mál. Ég gat tekið laufabrauðið en ekki hitt,“ segir Jóla-Jóna.

 

Viðtalið í heild sinni má horfa og hlusta á hér:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -