Miðvikudagur 27. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Móðir hennar flúði í örvæntingu til Íslands frá Kiev í Úkraínu: „Hugsa til þín, elsku Júlía“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þetta hefur verið martröð. Þegar ég vaknaði 24. febrúar sá ég skilaboð frá Kristínu Eddu, vinkonu minni, og þar stóð: „Hugsa til þín, elsku Júlía.“ Þá vissi ég ekki hvað hafði gerst,“ segir Júlía Rachenko, úkraínsk kona búsett hér á landi, en Rússar höfðu aðfaranótt 24. febrúar ráðist inn í Úkraínu.

„Fyrstu fjórir dagarnir voru eins og einn dagur. Maður vissi ekki hvort það var dagur eða nótt, hvaða verkefni þurfti að skila í skólanum eða hvenær næsta vakt væri. Ég datt algjörlega út úr öllu. Það voru ekkert nema tár, hystería, andnauð og öskur. Ég gat hvorki borðað né sofið og það versta var að ég gat ekkert gert nema að vera í endalausu sambandi við fjölskyldu mína í Úkraínu og ég var endalaust að fylgjast með fréttum. Ég var eins og villidýr í búri. Ég gat ekkert gert.“

Júlía segist vera búin að eiga í stöðugum samskiptum við ættingja sína og vini í Úkraínu.

Ástandið hefur versnað mikið.

„Aðstæðurnar eru hræðilegar. Mamma og systir mín búa saman í Kiev. Tveimur dögum áður en stríðið hófst fór systir mín á skíði í Bukovel, sem er í vesturhluta Úkraínu, og ég þakka fyrir að það skuli vera búið að vera rólegra þar. Mamma mín er hins vegar föst í Kiev. Systir mín á bíl en kemst ekki til baka til að sækja hana af því að borgin er umkringd rússneskum hermönnum og það væri lífshættulegt og ekki hægt að komast inn í borgina. Mamma er hrædd og er að reyna að komast út úr Kiev, en hún er að jafna sig eftir hnéaðgerð og þótt hún kæmist í leigubíl og ef skotið væri á hann á leiðinni þá gæti hún ekki hlaupið í burtu; hún gæti ekkert gert. Það eina sem mamma hefur gert undanfarna daga er að bíða eftir viðvörunarhljóði og reyna að ganga inn í sprengjuskýli. Svo bíður fólk þar alla nóttina þangað til klukkan er átta eða níu að morgni. Það er hrikalegt að sjá mömmu sína inni í sprengjuskýli,“ segir Júlía en mæðgurnar hafa talast við á Messenger. „Það eina sem ég get gert er að hringja í hana og vona að hún svari, því þá veit ég að hún á lífi. Fólk getur farið út á milli klukkan 9 og 22 en eftir það má enginn vera úti. Mamma fór í verslun og apótek fyrir nokkrum dögum, en það var hvorki til matur né lyf. Ástandið hefur versnað mikið.

Það er mælt með því að fólk í Úkraínu sofi í fötum og skóm til öryggis, ef það skyldi þurfa að fara skyndilega út, til dæmis ef sprengjum væri varpað.

Fólk er að reyna að bjarga börnunum sínum.

Ég held að fólk hafi fyrstu dagana hvorki trúað né samþykkt að þetta væri að gerast; að það væri skollið á stríð. Fólk var svo vongott um að þetta væri alveg að verða búið. En svo var ekki og sprengjum hefur verið varpað á Kharkiv, Mariupol, Chernigov, Symi, Kiev og fleiri borgir. Matur er að klárast og engin lyf til í apótekum. Fólk er að reyna að bjarga börnunum sínum og komast í burtu. Karlar á aldrinum 18-60 ára mega ekki yfirgefa landið og þeir vilja það ekki. Allir vinir mínir sem ég hef talað við vilja vera í Úkraínu og vernda landið sitt. Stemmingin hjá karlmönnum þar er ótrúleg og líka hjá konum. Fólkið er magnað. Allir eru að reyna að hjálpa. Það eru tveir hópar í Úkraínu í dag: Einn hópur sem verndar landið og hinn hjálpar þeim hóp meðal annars með því að elda og undirbúa allt sem þarf. Það reyna allir að gera eitthvað til að hjálpa. Þetta stríð er búið að sameina Úkraínumenn úti um allan heim svo mikið.“

- Auglýsing -

Júlía segir að hún hefði aldrei getað ímyndað sér að Rússar réðust inn í Úkraínu. „Það er ekkert verra en stríð. Innrásin kom mér algerlega á óvart og ég gat ekki samþykkt þetta orð, stríð, í nokkra daga. Forseti okkar, Zelenskiy, lýsti þessu svona: „Innrásin hófst klukkan fjögur um morgun þegar allir voru sofandi. putin (ég vil skrifa nafn hans með litlu „p“) réðst inn í Úkraínu alveg eins og hitler (líka lítið „h“) gerði á sínum tíma. Þetta var svartur húmor pútíns.“

Julia Rachenko

Kjarnorkuvá

- Auglýsing -

Úkraína og Rússland.

„Rússland hefur alltaf verið nágrannaland okkar. Það hefur alltaf verið mikil tenging á milli landanna. Við eigum vini og fjölskyldu í Rússlandi. Móðurmálin mín, sem ég tala jafn vel, eru úkraínska og rússneska. Í Úkraínu tölum við frjálslega hvaða tungumál sem hentar okkur. Opinbert tungumál í Úkraínu er úkraínska, alveg eins og íslenska á Íslandi, en þú getur talað hvaða tungumál sem þú vilt. Ég er til dæmis að kenna barninu mínu rússnesku frekar en úkraínsku, en ég endurtek: Í Úkraínu talar fólk bæði úkraínsku og rússnesku. Þannig að það hafa ekki verið neinar sérstakar pælingar um Rússland eða Rússa hjá mér.

Á Íslandi átti ég nokkrar vinkonur sem eru rússneskar. Þetta voru fínar stelpur, en ég sé þeirra réttu andlit núna. Eða eins og við segjum í okkar löndum: Við þekkjum raunverulega vini þegar vandamál koma upp, á dimmum tímum lýsir af góðu fólki.

Þetta fólk er ekki lengur til í mínum huga.

Við erum ekki lengur vinkonur. Þær voru að segja mér að þær væru hlutlausar varðandi það sem er að gerast. Að vera hlutlaus varðandi ástandið í Úkraínu þýðir að vera hjartalaus og áhugalaus; áhugalaus um dauða barna og saklauss fólks. Þær sáu að ég var að öskra á hjálp til að stoppa þetta helvíti, en það sem ég sá á Instagram hjá þeim voru „story“ um hvaða taska er í tísku á þessu ári og hvaða rauðvín þær ætluðu að fá sér með kvöldmatnum. Þetta er skelfilegt. Ég bað þær um að hafa aldrei aftur samband við mig. Þetta fólk er ekki lengur til í mínum huga. Sem betur fer eru hins vegar næstum því allir aðrir Rússar sem ég þekki á móti þessu helvíti, sem á sér stað í Úkraínu, og hafa margir Rússar mótmælt innrás Rússa.“

Talið berst að kjarnorkuverum sem Rússar hafa náð á sitt vald og tali þeirra um beitingu kjarnorkuvopna.

„Rússneskir hermenn reyndu 4. mars að sprengja Zaporizhzhia-kjarnorkuverið. Ef þeir ná markmiðum sínum og Zaporizhzhia-kjarnorkuverið springur þá verður þetta samkvæmt utanríkisráðherra Úkraínu, Dmytro Kuleba, 10 sinnum öflugra en sá leki á kjarnorku sem varð á Chernobyl-kjarnorkuverinu á sínum tíma.“

Julia Rachenko

Hjartað brestur

Júlía er spurð hvað hún hafi lært af þessu öllu saman.

„Það er ekkert í þessu lífi verra en stríð. Það sem ég hef líka lært er að rödd okkar, rödd venjulegs fólks, skiptir máli. Það er mikilvægt að vera með skoðun, að vera ekki hlutlaus eða hjartalaus. Svo hef ég lært hverjir eru raunverulegir vinir. Ég veit og vona að sannleikurinn muni alltaf sigra.“

Júlía segir að hún og aðrir Úkraínumenn búsettir á Íslandi hafi fundið mikinn stuðning frá Íslendingum.

Ég er bara orðlaus yfir allri ykkar hjálp.

„Íslendingar hafa þegar hjálpað ótrúlega mikið og á Íslandi býr fólk með stórt hjarta sem sýnir samúð. Flóttamenn sem eru komnir til Íslands eru flestir mæður með börn og flestir eru fólk sem hefur annaðhvort komið hingað áður eða þekkir einhvern hér. Flóttafjölskylda fékk inni á heimili Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Ég er bara orðlaus yfir allri ykkar hjálp, kæru Íslendingar og íbúar á Íslandi. Annað dæmi er að flóttakona, Olena, þurfti hjálp hjá tannlækni fyrir strákinn sinn og um leið og hún nefndi það í Kastljósi var haft samband við hana og það er búið að laga vandamálið

Allir vinir mínir höfðu strax samband við mig. Það voru allir að bjóða aðstoð og hjálp við það sem ég og fólkið mitt myndi mögulega þurfa. Ég þurfti hvorki að mæta í vinnuna né skólann. Vinir mínir og kunningjar á Íslandi eru að bjóða húsnæði, pening, vinnu, sálfræðiaðstoð, föt fyrir bæði börn og fullorðna og allt það sem mögulegt er að flóttamenn frá Úkraínu myndu þurfa. Þessi stuðningur á Íslandi er ómetanlegur fyrir okkur. Allir sem eru með hjarta hjálpa. Allir sem eru með hjarta hafa áhyggjur af þessu. Maður gleymir því aldrei þegar maður sá myndband af lítilli stúlku syngja lag úr teiknimyndinni Frozen inni í sprengjuskýli, í staðinn fyrir að vera heima hjá sér í hlýju rúmi, eða börn sem eru á barnaspítala vegna erfiðra hjartasjúkdóma eða eftir aðgerð, en læknar rifu þau úr rúmum með æðavökva til að fela þau í sprengjuskýli vegna þess að rússneskir terroristar voru að sprengja barnaspítala. Hjartað brestur.“

 

Kom sem au pair

Ísland.

„Ég kom til Íslands sem au-pair árið 2008 þegar ég var 22 ára eftir að hafa lokið námi við háskólann í Kiev en ég er með BS-gráðu í félagsfræði og meistaragráðu í viðskiptafræði þaðan. Mig langaði alltaf að bæta við enskuna mína og ég ákvað að fara til útlanda. Vinkona mín Marina, sem býr líka á Íslandi, var þá á Íslandi og sagði að það töluðu allir mjög góða ensku hér og hún mælti með því að ég kæmi hingað. Ég gerði það og hef aldrei séð eftir því.

Ég var hjá yndislegri fjölskyldu í Kópavogi sem tók mjög vel á móti mér. Svo fór ég í Háskóla Íslands og tók ensku sem aukagrein og kláraði ferðamálafræði. Ég kynntist barnsföður mínum og ákvað að vera á Íslandi.

Ég vann mikið í ferðabransanum þangað til Covid skall á og ynni annars örugglega ennþá í þeim geira. Maður reynir alltaf að finna eitthvað jákvætt í öllu og í dag get ég satt að segja þakkað Covid fyrir að ég breytti um stefnu í lífinu. Í dag er ég í sjúkraliðanámi, vinn með yndislegu fólki á hjartaskurðdeild og stefni á að taka hjúkrunarfræði í framtíðinni. Það kom í ljós að ég elska að vinna við þetta. Kannski hefur þetta alltaf legið fyrir mér af því að mamma mín er hjúkrunarfræðingur og systir mín er tannlæknir en heima var mikið talað um heilbrigðisgeirann.“

Móðir hennar og systir komu til Íslands aðfaranótt 15. mars.

Fjölskyldur Júlíu eru í tveimur löndum: Í öðru þeirra er sprengjuregn nú daglegt brauð.

„Á Íslandi hef ég fengið bestu gjöf lífs míns, sem er strákurinn minn, átta ára. Ég hef yndislegt fólk í kringum mig sem er sambýlismaður minn, barnsfaðir minn og fjölskyldur þeirra sem ég kalla núna fjölskyldu mína.

Mamma mín, pabbi, systur, ömmur, frænkur og frændur eru í Úkraínu.

Ísland er jafndýrmætt í huga mínum og Úkraína.“

Júlía fékk gleðifréttir eftir að viðtalið var tekið, en móðir hennar og systir komu til Íslands aðfaranótt 15. mars.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -