Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Karen segist hafa sent gögnin frá Creditinfo í trúnaði: „Mér finnst búið að snúa út úr þessu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Karen Elísabet Halldórsdóttir, sem sækist eftir því að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi, segist ekkert erindi hafa fengið frá Persónuvernd vegna dreifingar á upplýsingum frá Creditinfo, um skuldastöðu trúnaðarmanns innan flokksins. Hún telur sérstakt að málið sé dregið fram á þessum tímapunkti, rétt fyrir prófkjör.

Vísir greindi frá málinu í morgun. Þar segir að Karen hafi verið kærð til Persónuverndar af téðum trúnaðarmanni vegna dreifingar á gögnum um hann. Á Vísi er það reifað hvernig Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, hafi flett viðkomandi trúnaðarmanni upp hjá Credit Info, að beiðni Halldórs Jónssonar, umbjóðanda Sveins Andra og föður Karenar. Halldór hafi síðan komið gögnunum til Karenar sem hafi því næst dreift þeim áfram.

 

Segir rangt að tala um dreifingu

Karen segir í samtali við Mannlíf ákveðna rangfærslu felast í því að tala um dreifingu gagnanna. „Þetta lýtur að hluthöfum og stjórn í félagi og ég er sjálf hluthafi. Ég sendi í rauninni upplýsingar á þeim grundvelli, á trúnaðarmenn. Svo er, að mér finnst, svolítið búið að snúa út úr þessu. Enda sjáum við að tímasetningin er dálítið áhugaverð, eins og lögmaðurinn minn bendir á.“

Lögmaður Karenar er Ómar R. Valdimarsson. Hann sagði í samtali við Vísi að því væri „alfarið hafnað að Karen hafi brotið gegn réttindum þessa tiltekna einstaklings.“ Hann vakti athygli á því að verið væri að draga málið fram á þessum tímapunkti, rétt fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, en málið kom upp í ágúst á síðasta ári.

Trúnaðarmaðurinn sem um ræðir var á vanskilaskrá og á Vísi segir að málið hafi snúist um það hvort hann væri hæfur til þess að sitja í stjórn félags sem hefur ákveðin umráð yfir eignum Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

- Auglýsing -

 

Creditinfo telur brotið gegn skilmálum

Creditinfo hefur nú sent Persónuvernd bréf vegna málsins. Fyrirtækið telur Svein Andra hafa brotið gegn áskriftarskilmálum fyrirtækisins og hefur aðgangi hans nú verið lokað vegna misnotkunar. Er það vegna þess að Sveinn Andri hafi ekki getað gefið fullnægjandi skýringar á þeim meintu lögvörðu hagsmunum sem lágu að baki uppflettingunni og afhendingu gagnanna til Halldórs Jónssonar.

Halldór, faðir Karenar, er verkfræðingur og bæði meðstjórnandi og eigandi Þorra ehf. fasteignafélags. Hann hefur löngum verið áhrifamaður í stjórnmálum í Kópavogi. Hann er gjarnan kenndur við Moggablogg, en þar hefur hann birt hina ýmsu umdeildu pistla. Sveinn Andri kom gögnunum frá Creditinfo til Halldórs, umbjóðanda síns, að beiðni þess síðarnefnda, á þeim grundvelli að gögnin ættu erindi við almenning.

- Auglýsing -

Karen er í hörðum slag um oddvitasæti Sjálfstæðismanna í Kópavogi við mótherja sinn, Ásdísi Kristjánsdóttur. Sú síðarnefnda er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Á Vísi er sagt frá því að einstaklingurinn sem telur Kareni hafa brotið á sér með dreifingu gagnanna frá Creditinfo sé í stuðningsmannaliði Ásdísar og hafi gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum innan Sjálfstæðisfélagsins í Kópavogi.

|
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður. Mynd/ Rakel Ósk Sigurðardóttir

Hefur ekki fengið tilkynningu frá Persónuvernd

Karen segist í samtali við Mannlíf ekki viss um að það sé rétti tíminn til þess að tjá sig efnislega um málið á þessum tímapunkti, rétt fyrir prófkjör. „Ég mun kannski frekar stíga fram þegar því er lokið, með þá feril málsins og söguna af því öllu.“

„Ég er hluthafi og sendi í trúnaði upplýsingar á stjórn. Við mig er þá augljóslega ekki haldinn trúnaður. Ég tel mig vera ábyrgan hluthafa. Svo er þessu snúið upp í þetta núna, korter í kosningar. Mér finnst það sérstakt. Ég tel að það sé ekki rétt að vera að fara í málið í heild sinni á þessum tímapunkti,“ segir hún.

Karen heldur áfram. „Ég tel það mikilvægt, í ljósi fyrirsagnar á Vísi, að taka það fram að ég hef ekki fengið neina tilkynningu frá Persónuvernd.“

Aðspurð hvort hún hafi sannarlega talið upplýsingarnar um trúnaðarmanninn eiga erindi við almenning áréttar Karen að hún hafi sent þær á trúnaðarmenn. „Bara í trúnaði. Síðan fer þetta svona.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -