Fimmtudagur 22. september, 2022
9.1 C
Reykjavik

Kári gerði ólöglegt lag – Segir útvarpsstjóra til syndanna fyrir að spila það ekki

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóra vera gungu fyrir að neita að spila ólöglega útsetningu á íslenska þjóðsöngnum í Ríkisútvarpinu. Kári segir þessa útsetningu runna undan hans rifjum. Allt þetta kemur fram í aðsendri grein hans í Fréttablaðinu þar sem hann lætur Stefán og RÚV hafa það óþvegið.

Kári segir þessa vafasömu útsetningu vera eftir Þor­stein Einars­son gítar­leikara og Ey­þór Gunnars­son píanista. Hana má hlusta á hér. Kári segist þó hafa óskað eftir laginu, og því nokkurs konar höfuðpaur málsins. Hann segir verkið innblásið af sambærilegum útsetningum bæði Stra­vins­ky og Jimmy Hendrix.  Hann lýsir aðdraganda þess svo:

„Það var svo um daginn að ég bað Þor­stein Einars­son gítar­leikara og Ey­þór Gunnars­son píanista að spila ís­lenska þjóð­sönginn á þann máta að hann ætti erindi inn í þau augna­blik sem eru að líða akkúrat núna. Þeir fóru létt með það og tóku upp magnaða út­gáfu sem er full af til­brigðum sem verða einungis túlkuð sem gagn­rýni á af­skipta­leysi ís­lensks sam­fé­lags gagn­vart næstum öllu sem skiptir máli, kjörum þeirra sem minnst mega sín, barna­fá­tækt, græðgi þeirra sem mest eiga og tak­marka­lausum yfir­gangi út­gerðar­glæponanna.“

Kári segist hafa hringt í Stefán útvarpsstjóra til að gauka laginu að honum. „Ekki fór á milli mála að það var skylda mín að koma flutningi tví­menninganna á fram­færi og ég hringdi í Stefán nafna þinn Ei­ríks­son út­varps­stjóra og lagði til að hann léti spila þetta sem síðasta lag fyrir fréttir á 17. júní. Ég sendi honum upp­tökuna og hann sagðist ætla að skoða málið.“

Svo komu smáskilaboð frá Stefáni, en rétt er að geta þess að hann var áður lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu: „Stöldrum strax við 3. gr. Laga um þjóð­sönginn, þar sem segir að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upp­runa­legu gerð. Setur okkur aug­ljós­lega skorður. Bkv. SE“.

Kári segir þessa afstöðu lýsandi fyrir hvernig komið er fyrir Ríkisútvarpinu. „Stjórn­völd eru búin að brjóta Ríkis­út­varpið niður að innan með því að fela stjórn stofnunarinnar fólki sem lítur á hana sem vanda­mál þeirra sem vilja græða peninga á fjöl­miðlum, frekar en þann sam­nefnara þjóðarinnar sem hún var um ára­tugi. Þess vegna verður þjóðin að hlusta á þessa snilldar­út­setningu á þjóð­söngnum alls staðar annars staðar en í Ríkis­út­varpinu, eins og YouTu­be og á einka­reknum út­varps- og sjón­varps­stöðum. Ég reikna með því að þú skiljir að með því erum við ekki að halda fram hjá Ríkis­út­varpinu vegna þess að maður getur ekki haldið fram hjá þeim sem vill mann ekki.“

- Auglýsing -

Að lokum segir Kári þá Þorstein og Eyþór best geymda á réttargeðdeild, enda glæpamenn. „En síðan hitt, það er engin spurning að Þor­steinn og Ey­þór brutu lög og eru þess vegna glæpa­menn. Það sem meira er, ég get borið vitni um að þeir iðrast einskis. Hið eina sem á eftir að gera er að á­kveða refsinguna en eitt er víst að það kemur ekki til greina að láta mennina ganga lausa og fremja alls konar ó­lög­lega tón­listar­gjörninga. Ég hvet þá sem á­kveða refsinguna að hafa eftir­farandi í huga: Búið er að sýna fram á að það eru sterk tengsl milli sköpunar­gáfu og geð­veiki. Fé­lagarnir tveir, Þor­steinn og Ey­þór, eru snillingar að springa úr sköpunar­mætti og eiga þess vegna ekki heima á Litla Hrauni heldur á réttar­geð­deild.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -