Lögreglu bárust nokkrar tilkynningar í gærkvöldi þar sem óskað var eftir aðstoð við að vísa óvelkomnum aðilum í burtu. Tveir þeirra höfðu höfðu komið sér fyrir á hóteli í hverfi 105 og voru báðir í annarlegu ástandi. Það sama átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur síðar um kvöldið þar sem lögregla þurfti að vísa aðila á brott. Ósáttur íbúi hafði samband við lögreglu vegna framkvæmdarhávaða sem olli mikilli truflun. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort rætt hafi verið við verktakann sem var þar að störfum.
Síðar um kvöldið stöðvaði lögregla framleiðslu fíkniefna í heimahúsi, málið er til rannsóknar en engar upplýsingar voru um hvar framleiðslan fannst. Í hverfi 108 var tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir. Lögregla fór á vettvang en sá ekki aðilana. Ökumaður ók á umferðarskilti í gærkvöld en sem betur fer slasaðist enginn. Í samtali við lögreglu kvaðst ökumaðurinn hreinlega ekki hafa séð skiltið vegna sólarinnar sem skein beint í augu hans.