Föstudagur 12. ágúst, 2022
10.8 C
Reykjavik

Katrín um launamistökin: „Finnst sann­gjarnt að við endurgreiðum það“

Helgarviðtalið

- Auglýsing -

Orðrómur

- Auglýsing -

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, telur eðlilegt að þeir embættismenn sem fengu ofgreidd laun frá ríkinu síðustu þrjú árin endurgreiði hluta þeirra. Hún bendir á að um sé að ræða hvað hæst launuðu einstaklingana hjá hinu opinbera. Þetta kemur fram á Vísi.

Undanfarið hefur verið fjallað um ofgreiðslu launa ákveðinna starfsmanna ríkisins, sem höfðu fengið launahækkanir. Fjársýsla ríkisins komst að þeirri niðurstöðu á dögunum að mistök hafi verið gerð í útreikningum launahækkananna og því hafi þessir aðilar fengið ofgreidd laun síðustu þrjú ár. Um er að ræða ýmsa embættismenn, ráðherra og forseta Íslands.

Dómarar tilheyra þessum hópi og hefur mikillar óánægju gætt úr herbúðum þeirra. Þeir hafa til að mynda sagt aðgerðina ólögmæta og að þeir muni leita réttar síns í málinu.

„Ákvörðunin er í andstöðu við gildandi lög um launakjör dómara og með henni er vegið að rétti borgaranna til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Aðgerðirnar fela í sér atlögu framkvæmdavaldsins að dómsvaldinu sem ekki á sér hliðstæðu í íslenskri réttarsögu,“ segir til að mynda í yfirlýsingu Dómarafélags Íslands vegna málsins.

Bjarni Benediktsson.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, furðaði sig á orðum félagsins. „Málstaður þeirra sem mótmæla því að nú eigi að leiðrétta ofgreidd laun er býsna aumur. Ég vænti þess að þeir vilji bera fyrir sig að hafa tekið við of háum launum undanfarin ár í góðri trú,“ skrifaði hann til að mynda á Facebook eftir að Dómarafélagið gaf frá sér sína yfirlýsingu.

Kjartan Bjarni Björgvinsson. Mynd/skjáskot RÚV

Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélagsins, sagði á Facebook að málið snerist um réttláta málsmeðferð. Hann sagði að ef fjármálaráðherra fengi leyfi til þess að grípa inn í og lækka laun dómara myndi það stefna sjálfstæði dómstólanna í hættu.

- Auglýsing -

„Það snýst miklu frekar um þetta: Fólkið í landinu ætti ekki að þurfa að hlusta á að það sé flókið fyrir efsta lag ríkisins, æðstu embættismennina, að skila því sem ofgreitt var úr opinberum sjóðum. Annað væri hrikalegt fordæmi og er ekkert minna en siðferðisbrestur,“ sagði fjármálaráðherra.

Alls voru það 260 embættismenn sem fengu ofgreidd laun á tímabilinu. 215 gegna enn starfi sínu og verða krafðir um endurgreiðslu á mismuninum milli ofgreiddu launanna og hinna réttu. Það mega þeir gera yfir tólf mánaða tímabil.

Katrín Jakobsdóttir, Mynd: Róbert Reynisson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, telur sanngjarnt að embættismenn endurgreiði launin. Hún er sjálf meðal þeirra, auk fjármálaráðherra.

- Auglýsing -

„Þegar í ljós kemur að þessi laun hafa verið of­greidd þá finnst mér sann­gjarnt að við endur­greiðum það þó að mis­tökin séu ekki okkar heldur þeirra sem greiða út launin, þá finnst mér það sann­gjarnt,“ segir hún í samtali við Vísi.

Hún bendir einnig á að um sé að ræða æðstu embættismenn þjóðfélagsins, sem hafi hæstu launin.

Ofgreiddu launin sem um ræðir nema samtals um 105 milljónum króna yfir þetta þriggja ára tímabil.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.
Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -