Miðvikudagur 6. desember, 2023
1.1 C
Reykjavik

Kaupfélagsstjórinn sem hvarf í hafið: „Vélin var að missa hæð og neyðarblysi var kastað út“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það var í morgunsárið að skipverjar á Þrym BA 7 urðu varir við litla flugvél sem flaug lágt yfir þeim. Svo virtist sem flugmaðurinn væri í vandræðum því vélin var að missa hæð. Skyndilega var tveimur neyðarblysum kastað út úr flugvélinni. Stuttu síðar hvarf vélin í sortann. Flugmaðurinn, kaupfélagsstjórinn Hafþór Helgason fannst aldrei en brak af vélinni fannst fjórum mánuðum síðar.

Morgunblaðið ræddi við vitni að slysinu á sínum tíma:

„Vélin hvarf í sortann og við sáum ekki hvar hún lenti“

„FLUGVÉLIN birtist okkur úr norðri — flaug lágt þvert yfir okkur. Vélin var að missa hæð og neyðarblysi var kastað út. Vélin hvarf í sortann og við sáum ekki hvar hún lenti á sjónum,“ sagði Þorsteinn Jónsson, skipstjóri á Þrym BA 7, í samtali við Mbl. í gær, en skipið var á netaveiðum um 28 sjómílur vestnorðvestur af Kópanesi. „Við hófum strax leit en aðstæður voru erfiðar, 6—7 vindstig og leiðindasjór. Ásamt okkur leituðu þrír bátar og togarinn Vestri frá Patreksfirði. Flugvélar komu fljótlega á staðinn en við urðum einskis varir, — fundum ekkert brak og hættum leit upp úr klukkan ellefu og tókum til við að draga netin, en þá var veðurhæðin 10—11 vindstig og kominn haugasjór,“ sagði Þorsteinn. „Eg var að koma úr róðri laust eftir klukkan sex þegar ég sá flugvél hringsóla yfir bænum. Hún flaug þrjá hringi yfir þorpinu, hækkaði svo flugið og hvarf út fjörðinn,“ sagði Guðni Einarsson, skipstjóri, á Suðureyri við Súgandafjörð í samtali við Mbl. „Ég fór upp á flugvöll þar sem mér þótti undarlegt að flugvél skyldi vera á sveimi yfir bænum þegar völlurinn var lokaður, veður að ganga upp og myrkrið grúfði sig yfir bæinn. Ég hélt jafnvel að um sjúkraflug væri að ræða og hringdi til flugumsjónar í Reykjavík en þeir vissu ekkert um ferðir vélarinnar,“ sagði Guðni Einarsson.

Tíminn sagði einnig nánar frá málinu:

Árangurslaus leit að tveggja hreyfla einkaflugvél frá Ísafirði í gær:

SENDI UPP TVÖ NEYÐARBLYS OG HVARF SÍÐAN
Leit verður haldið áfram í dag 


Mikil leit var gerð á sjó og úr lofti að tveggja hreyfla einkaflugvél, TF MAO frá Ísafirði, í allan gærdag. Flugmaðurinn Hafþór Helgason, kaupfélagsstjóri á Ísafirði, var einn í vélinni þegar síðast var vitað um hana. Hann var jafnframt eigandi vélarinnar. Það var laust eftir klukkan sex í gærmorgun að Guðni Einarsson, skipstjóri á mótorbátnum Sigurvon ÍS 500 gerði flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík vaft um óvenjulega ferð flugvélar inn á Súgandafirði. „Það var í sjálfu sér ekkert óvenjulegt við flug vélarinnar annað en það hversu snemma hún var á ferðinni. Hún klifraði upp yfir þorpinu og flaug síðan inn fjörðinn í áttina til Ísafjarðar,“ sagði Guðni í samtali við Tímann í gær.“ Það var svo laust fyrir klukkan 07.40 í gærmorgun að loftskeytastöðin í Gufunesi tilkynnir að skipverjar á vélbátnum Þrym BA 7 hefðu orðið flugvélarinnar varir. „Við vorum að draga línu um 25 sjómílur N-V af Bakkanum þegar flugvélin kom á mikilli ferð úr norðri og flaug mjög lágt rétt hjá okkur. Þegar hún var þvert á okkur sendi hún frá sér tvö rauð neyðarblys. Síðan hélt hún áfram í suður þar til hún hvarf sjónum okkar. Bátar sem staddir voru sunnan við okkur urðu einskis varir svo ég býst við að vélin hafi hafnað í sjónum,“ sagði Þorsteinn Jónsson, skipstjóri á Þrym í samtali við Tímann í gær. Strax og fyrri tilkynningin barst til flugstjórnar þótti ástæða til að grennslast um eftir vélinni þar sem ekki var vitað um neina flugumferð í grennd við Súgandafjörð. Margir bátar sem voru á næstu grösum tóku þátt í leitinni. Á vettvang fóru flugvél flugmálastjórnar, Herculesvél og þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Leitin bar engan árangur og var henni hætt um klukkan 17 í gær. Verður henni haldið áfram í birtingu.

Fjórum mánuðum síðar, í febrúar árið 1983 fékk togarinn Harðbakur brak úr flugvélinni í vörpuna. Tíminn sagði svo frá:

- Auglýsing -

Brak finnst úr TF MAO

S.l. fimmtudag þegar togarinn Harðbakur var á veiðum ulþ.b. 30 sjómílur út af Kóp fékk hann brak úr flugvél í vörpuna og var það síðan rannsakað þegar togarinn kom til hafnar. Á Akureyri var brakið rannsakað af loftferðaeftirlitið og að sögn Skúla Jóns Sigurðssonar yfirmanns þess er sannað að um er að ræða vænghluta af vélinni TF MAO, sem fórst seint í október s.l. og með henni einn maður, Hafþór Helgason kaupfélagsstjóri á Ísafirði. Að sögn Skúla Jóns var staðurinn þar sem brakið fannst einmitt á þeim slóðum sem talið er að skipverjar á mb Þrym hafi síðast orðið varir við vélina. Brakið sem fannst var úr hægra væng vélarinnar, vængendinn að hreyfli.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -