Kjörstaðir opnir frá 9 – 22.00
Í frétt fréttastofu RÚV segir að æplega 24.000 séu á kjörskrá í 15 sveitarfélögum á Suðurlandi og litlu færri, rúmlega 23.400, í 11 sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Tæplega 21.000 eru á kjörskrá í fjórum sveitarfélögum Suðurnesja og tæp 12.500 á Vesturlandi, þar sem sveitarfélögin eru 9.
Nær 8.000 hafa kosningarétt í fjórum sveitarfélögum Austurlands. Rúmlega 5.500 eru á kjörskrá á Norðurlandi vestra, þar sem sveitarfélög eru nú fimm talsins, og 5.259 eru á kjörskrá hinna níu sveitarfélaga á Vestfjörðum.
Sjálfkjörið er í tveimur sveitarfélögum, Tjörneshreppi og Sveitarfélaginu Skagaströnd, þar sem aðeins einn listi er í framboði á hvorum stað. Kjörstaðir verða opnaðir klukkan níu fyrir hádegi og verða flestir opnir til klukkan 22 í kvöld. Þó er kjörstjórnum heimilt að opna kjörstaði síðar og loka þeim fyrr ef aðstæður leyfa.
Maður gengur út í sól og blíðu
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, segist vongóður fyrir komandi dag. Hann mætti á kjörstað í Ráðhúsinu í morgun og sagðist bjartsýnn fyrir daginn og hvatti fólk til að kjósa og það snemma. Þá ættu kjósendur Eurovisionkvöldið eftir.
„Maður gengur út í sól og blíðu, vor og fuglasöng,“ sagði Dagur um það hvernig dagurinn byrjaði. Hann sagðist með fiðrildi í maganum en hann væri bjartsýnn og sagði að kosningabaráttan hefði verið skemmtileg.
Hann sagði baráttuna hafa verið styttri en venjulega. Allt hafi verið svolítið seinna í gang og kjördagur hafi verið fyrr en venjulega.