Þriðjudagur 28. nóvember, 2023
2.1 C
Reykjavik

Kona í Ísrael sigaði íslensku lögreglunni á Kristinn: „Þarna var mér eiginlega öllum lokið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Löggan hringdi í mig hingað til London í gær, ekki Scotland Yard heldur lögreglan á íslenska höfuðborgarsvæðinu. Líklegast hefur upphringjandinn haldið að ég færi í hnút yfir símtalinu svo hann tók skýrt fram í upphafi, eftir að hafa kynnt sig, að hann væri nú ekki að hringja í mig útaf neinu alvarlegu.“ Svona byrjar Facebook-færsla Kristins Hrafnssonar en hann lenti í því að kona í Ísrael sigaði íslensku lögreglunni á hann.

Ritstjóri Wikileaks segir frá því á Facebook í morgun að hann hafi fengið ansi sérstakt símtal frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Erindið voru samskipti Kristins við konu á Facebook, í kjölfar skrifa hans um það gengdarlausa ofbeldi sem Palestínumenn mega þola um þessar mundir, af hendi ísraelska hersins. „Forsagan er sú að yfir helgina fékk ég yfir mig frekar dónaleg skilaboð á facebook frá einstaklingum sem samhliða höfðu sent mér vinabeiðni – svo undarlegt sem það nú er. Þetta voru allt skilaboð sem snéru að því að ég færi villu vegar í færslum mínum um málefni Gaza og helst að það færi fyrir brjóstið á viðkomandi að ég fordæmdi barnaslátrunina í linnulausum loftrárásum Ísraelshers. Málfarið var allt keimlíkt.“

Kristinn segist hafa grennslast fyrir um prófíla viðkomandi, hafi þeir reynst bera þess merki að vera gerfimenn en við þá vill Kristinn ekki tala. „Tel það hámark hugleysisins að fela sig á bak við gerfinöfn, sérstaklega ef tilefnið er aðallega að ráðast á mína persónu (sem ég er annars ekkert sérstaklega viðkvæmur fyrir). Ég eyddi einhverjum af þessum ummælum og blokkaði gerfimennina.“

En það dugði ekki til. „Loks dúkkar upp kona sem virtist vilja halda áfram sama þrástagli en nú undir nafni sem virtist alvöru. Engu að síður vildi ég ganga úr skugga um að viðkomandi væri ekta og fletti því viðkomandi upp í íslendingabók, símaskrá og þjóðskrá. Eftir stutta skoðun kom aðeins ein kona til greina og var viðkomandi skráð með heimilisfestu erlendis, nánar tiltekið í Ísrael.“

Ritstjórinn tók í kjölfarið skjáskot úr þjóðskránni og póstaði á Facebook auk þess sem hann lét spurningu fylgja, þar sem hann spurði hvort konan væri á launum við að skrifa athugasemdir um hans „vonda innræti og meinta skoðanavillu.“ Bætti hann við: „Sú birting olli slíku hugarvíli hjá Íslensku konunni í Ísrael að hún hringdi langlínusímtal til lögreglunnar á íslenska höfuðborgarsvæðinu með kvörtun eða kæru. Og lögreglan hringdi beint í mig.“

Þegar Kristinn spurði lögreglumanninn hver hinn meinti glæpur væri svaraði hún: „Tja hún heldur því fram að þú hafir brotið persónuverndarlög. En ég held að þetta sé ekki lögreglumál.“ Benti hann lögreglumanninum á að það væri frekar einkennilegt að tala um brot á persónuverndarlögum þegar um er að ræða opnar og aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning að skoða í Þjóðskrá, kennitala, nafn og heimilisfang, „sem í tilfelli konunnar var nú ekki nákvæmara en svo að það tilgreindi bara landið: Ísrael.“
Segir Kristinn lögreglumanninn hafa virst taka undir það sjónarmið og ítrekaði að hann teldi þetta ekki lögreglumál. „Við það stækkaði spurningamerkið mín megin; „En þú ert nú engu að síður að hringa í mig. Frá embætti lögreglunnar“?“ skrifaði Kristinn og bætti við: „Ef hægt er að tvístíga í síma var löggan byrjuð á því þarna og sagði eitthvað að þá leið að þetta væri nú bara gert fyrir íslensku konuna – sko, koma þessu á framfæri, og svona – og sko lögreglan væri nú bara að reyna að stuðla að friði milli manna. (Þarna stillti ég mig um þá ábendingu að það væru aðrar leiðir fyrir lögregluna ef hún teldi friðelskandi lögsögu sína ná til botns Miðjarðarhafs, til að stuðla að friði í nágrenni við íslensku konuna í Ísrael, t.d. gæti lögreglan fjölmennt á samstöðugöngu með Palestínumönnum og krafist vopnahlés strax og stöðvun þessara ógeðslegu barnaslátrunar sem stendur nú yfir á Gaza).“
Kristinn segir þá lögregluna hafa svarað því til að konan vildi einnig meina að samskiptin stangist á við notkunarskilmála Facebook. „Þarna var mér eiginlega öllum lokið og þó að samskipti mín og lögreglumannsins væru öll á hinum vinsamlegustu nótum spurði ég hann hvort það væri virkilega í verkahring lögreglunnar á Íslandi að fylgjast með að farið væri að notkunarskilmálum á samskiptavef í eigu bandarísks fyrirtækis – til að gæta hagsmuna konu sem borgaði skatta og skyldur í Ísrael.“
Og lögreglumaðurinn svaraði: „Nei, eins og ég segi þá er þetta ekki lögreglumál“, sagði lögreglumaðurinn, enn og aftur – sá sem gerði sér það ómak í sínu starfi sem lögreglumaður að hringja í mig til London.

Við kvöddumst kurteislega eftir þetta og mig grunar að hann hafi verið dauðfeginn að símtalið varð ekki lengra.“

Að lokum segist Kristinn ætla að gera eftirfarandi, næst þegar einhver vill héreftir eiga við hann orðastað á opinberum vettvangi: „a) næst þegar einhver sakar mig um gyðingahatur fyrir það eitt að gagnrýna helstefnu stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum mun ég tilkynna það formlega til lögreglu sem gyðingahatur. Ég tel að ásökun um samjöfnuð af slíku tagi sé alvarleg aðför gegn öllum gyðingum heimsins, þeir allir sagðir samsekir í voðaverkum sem nú eru framin á Gaza og teljist það því hatursorðræða. b) næst þegar einhver sakar mig um gyðingahatur og/eða stuðning við Hamas mun ég líta á það sem ærumeiðandi aðdróttandi ummæli og íhuga að leita réttar míns með það að leiðarsljósi.“

- Auglýsing -

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -